Vel að þessu kominn.

Fyrir ellefu árum átti ég þess kost að hafa Steinþór Birgisson með mér í að gera fjórar heimildarmyndir fyrir Sjónvarpið undir heitinu "Fólk og firnindi".

Steinþór sá um klippingu og dagskrárgerð þessara þátta og vann stundum dag og nótt með mér við að ná því marki sem við settum okkur um vinnslu þáttanna, en þar þurfti oft að eyða gríðarlegum tíma í ákveðin myndskeið. 

Steinþór var einhver færasti samstarfsmaður sem ég hef haft og þessar fjórar heimildarmyndir finnst mér vera eitthvað það skásta sem ég hef gert á löngum ferli, einkum sú síðasta, sem hafði undirtitilinn "Flökkusál" og fjallaði um Fjalla-Eyvind fyrr og nú og útlagana í íslensku samfélagi fyrr og síðar. 

Þegar ég var á ferð á Ströndum fyrir meira en áratug frétti ég af séra Jóni Ísleifssyni og sá þá strax, að þar gat verið á ferð magnað viðfangsefni fyrir kvikmyndagerð mína.

En yfir mig helltust viðfangsefni sem tengdust náttúru Íslands og urðu að hafa forgang, því miður, verð ég að segja, og á þá við það, að hefði allt verið með felldu hefði ég ekki átt að þurfa að gera þau mál að aðal viðfangsefni mínu. 

En nú hefur Steinþór bætt úr þessu svo um munar varðandi Jón Ísleifsson. 

Ég þurfti að leita til hans með viðvik fyrir nokkrum árum og þá var hann byrjaður á myndinni og ég vissi að verkið var í góðum höndum. 

Viðurkenningin til hans gleður mig og ég óska honum hjartanlega til hamingju. 

Þetta er punkturinn yfir i-ið í dásamlegri ferð okkar hjóna til fæðingarstaðar hennar og á vit Uppsala í Selárdal. Meðfylgjandi ætla ég að láta verða myndir úr ferðinni, þar sem hið fallega samkomuhús Skjaldborg er hægra megin á þeirri fyrri, en hátíðin, sem kennd er við húsið og það sjálft er dæmi um mikinn dugnað og myndarskap þeirra sem hlut eiga að máli. 

Sum verk taka lengri tíma en önnur eins og myndin "Jón og séra Jón" ber vott um. p6120092.jpg

Ég fór vestur á bíl með númerinu "Örkin" sem leika mun hlutverk í samnefndri mynd, sem ég byrjaði fyrst að taka í á eigin vegum fyrir tíu árum, en sagan, sem liggur að baki myndinni spannar á fjórða tug ára í lífi mínu og þjóðarinnar. Bíllinn, sem er 22ja ára gamall var sá ódýrasti og minnsti sem ég fann til að geta á löglegan hátt dregið bátinn á kerru og komist með hana upp á hálendið um snævi þakið land. 

Hann er því jöklajeppi, sá minnsti af Toyota-gerð, sem til er, og því kandiat í Örbílasafn Íslands.  p6120094.jpg

Ekkert verkefni á ferli mínum hefur verið eins tímafrekt og dýrt og þessi mynd. Ég hef enn ekki getað lokið við allar kvikmyndatökur vegna hennar og á eftir að sigla Örkinni töluvert í viðbót á sögusviði myndarinnar. 

Að baki liggja hátt í hundrað ferðir upp á hálendi norðausturlands og vinnudagarnir í þessum ferðum einum samsvara heils árs vinnu. 

Verkið mjakast örlítið áfram en önnur brýnni verkefni hafa þó forgang, myndir sem verða að klárast á undan. 

Ég er viðbúinn því að myndin "Örkin" klárist ekki á meðan ég lifi en hugga mig við það, að ef handritið að henni er klárað og hið einstæða myndefni varðveitt, muni hún komast á tjaldið einhvern tíma. 

Þannig er veruleikinn hjá mörgum íslenskum kvikmyndagerðarmönnum. 

 


mbl.is Jón og Séra Jón vann Skjaldborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband