14.6.2011 | 10:22
Samt best að búa hér.
Skordýr hafa aldrei heillað mig beinlínis, það er að segja að vera í of nánu samneyti við þau, þótt ég geti hrifist af hinu stórfenglega vökvaknúna aflkerfi, sem knýr vængi jötunuxanna, sem hinn frábæri sjálfmenntaði vísindamaður, Hálfdan Björnsson, bóndi á Kvískerjum, lýsti fyrir mér.
Ef ég er spurður, af hverju ég eigi heima á Íslandi, er svar mitt: Ástæðurnar eru fimm:
1. Ég er fæddur og uppalinn hér.
2. Það er minna af skordýrum hér en í öðrum löndum.
3, 4 og 5: Ýsa, smjör og kartöflur.
Ég skal játa að ég er varla hræddari við nokkurt fyrirbæri en köngulær og stafar það af ógleymanlegri reynslu minni sem sex ára strákur, þegar ég vaknaði í Kaldárseli um miðja nótt með eina slíka risastóra skríðandi yfir augun á mér, enda var gríðarlegur fjöldi af þeim í hrauninu nálægt selinu.
Þessa dagana glími ég við köngulær, sem komust í litla gamla Fox jeppann minn (minnsta jöklajeppa á Íslandi) í það rúma eitt og hálfa ár sem hann var bilaður í grasinu fyrir utan Ljósstaði í Flóa og virðast alveg ótrúlega þrjóskar og lífseigar.
Hef ég þegar þessi pistill er skrifaður þurft að fjarlægja alls 23 köngulær sem hafa sett upp vefi sína inni og utan á bílnum, nú síðast þrjár á meðan ég var í ferðalaginu tll Patreksfjarðar.
Það að ég tel köngulærnar sýnir hve þetta mál er mér mikilvægt.
Ég hef haft hálfan sigur í þessu stríði, því að þær setja ekki lengur upp vefi innan í bílnum, heldur aðeins utan á honum.
Áfanginn náðist með því að loka örlitlu ryðgati við hægri afturglugga og virðist mega ráða af því, að miðstöð og aðalhreiður köngulóanna sé einhvers staðar utan á bílnum eða undir honum.
Þótt skordýrum fjölgi nú hér á landi vegna hlýrra veðurfars hugga ég mig við það að þeim fjölgi líklega einnig í hlýrri löndum þar sem loftslag fer líka hlýnandi, þannig að ég lít svo á að atriði númer tvö varðandi búsetu mína hér á landi sé í fullu gildi.
Smádýrunum fjölgar hratt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Samt ekki best að búa hér:
Spilling, skattar, heilbrigðiskerfið, verðbólga, ríkisbákn, veðrið.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.6.2011 kl. 11:24
Spilling: Minni ená Ítalíu
Skattar: Minni en á Norðurlöndum (?)
Heilbrigðiskerfið: Skárra en víðast
Verðbólga: Tja, smá bóla núna
Ríkisbákn: Prófaðu ESB
Veðrið: Ahhh, þar fór það, en sumrin eru stundum ágæt ;)
Tökum nú björtu hliðina:
Skordýr, glæpir, sjúkdómar, atvinnuleysi, mengun, mannmergð, hernaðarbrölt.
Blessunarlega á góðu róli þarna.....
Jón Logi (IP-tala skráð) 14.6.2011 kl. 12:29
Gleymdi einu.
Fábreytni atvinnulífsins er líklega stærsta orsök þess að margir vilja ekki búa hérna.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.6.2011 kl. 13:35
Einar K. Guðfinnsson sagði mér eitt sinn frá því að hann hefði hitt vel menntaðan útlending, sem hafði ákveðið að setjast að á Sauðárkróki, hvers vegna hann hefði valið þann stað frekar en Reykjavík.
Útlendingurinn svaraði: Ég kem frá borgarsamfélagi milljónaborgar á meginlandi Evrópu og það skiptir ekki máli fyrir mig hvort smábærinn, sem ég á heima í á Íslandi heitir Reykjavík eða Sauðárkrókur.
Aðal víglínan í baráttunnni við að viðhalda byggð í landi okkur liggur nefnilega um Leifsstöð miklu fremur en um Holtavörðuheiði eða Þjórsá.
Ómar Ragnarsson, 14.6.2011 kl. 14:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.