Rétt skal vera rétt.

Hvernig getur það verið að hæsti foss landsins "uppgötvist" á þeirri miklu tækniöld sem við lifum á?

Svarið er einfalt: Minnkun jökla landsins afhjúpar landslag, sem áður sást ekki. 

Ég minnist þess að fyrir næstum fjörutíu árum gerði ég sjónvarpsþátt um Skeiðarárhlaupið 1972 og sýndi meðal annars það, hvernig Morsárjökull steyptist fram af háu klettabelti og hélt síðan áfram að renna niður í Morsárdal fyrir neðan klettabeltið. 

Þegar ég gekk fyrst inn í Morsárdal sumarið 1957 mátti heyra háa bresti þegar stór stykki jökulsins féll niður af hamrabrúninni. 

Síðan þá hefur jökullinn neðan við hamrabeltið þynnst og lækkað mikið og æ stærri hluti hamrabeltisins komið í ljós, svo að það blasir nú við í allri sinni dýrð. 

Nú þarf að finna nafn á þennan hæsta foss landsins, sem er eini fossinn í Morsá. 

En hvort á nafn fossins að vera í eintölu eða fleirtölu úr því að fossarnir eru margir og samhliða. 

Þetta getur verið á hvorn veginn sem er. Hraunfossar eru margir samhliða fossar en fossinn Glymur í Þjórsá er líka safn margra fossa, þótt samheitið sé eitt. 

Því kemur bæði til greina að kalla fyrirbærið Morsárfossar eða Morsárfoss. 

Morsárdalur og Kjósin, stórbrotinn og djúpur dalur sem gengur til vesturs frá botni Morsárdals, er einhver hrikalegasti fjallasalur landsins og aldeilis óviðjafnalegt að upplifa þessa dýrð þegar jökullinn féll í stórum stykkjum fram af hamrabeltinu jafnframt því sem hann rann í sveig fram hjá því og meðfram því. 

Í stað þessara aðstæðna stefnir nú í að jökullinn nái ekki fram á hamrabrúnina og þá hverfur það sjónar- og heyrnarspil, sem verið hefur þarna. 

En á móti hefur okkur verið færður hæsti foss landsins. 


mbl.is Flyst hæsti foss landsins búferlum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Morsárfossar".

Skemmtilegt fyrir útlendinga að spreyta sig á þessum tungubrjót

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.6.2011 kl. 11:00

2 identicon

Morfossar

-þeir eru fjölmargir = morandi

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 15.6.2011 kl. 11:04

3 identicon

Morsárfossar finnst mér rétt nefnt.

Hversu erfitt er annars að komast þangað?

Jón Logi (IP-tala skráð) 15.6.2011 kl. 12:43

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú er orðið svo langt síðan ég gekk með Öræfingum inn í Morsárdal, fyrst að austan og síðan inn eftir að vestan frá Bæjarstaðaskógi. 

Það er líklega undir rennsli vatnsfalla og getu og áræði göngufólks komið hve langt inneftir er hægt að ganga, en gönguferð, styttri eða lengri inn í þennan einstæða dal er ógleymanleg upplifun. 

Ómar Ragnarsson, 15.6.2011 kl. 13:50

5 identicon

Eins og oftast er kannski best að kanna þetta úr lofti ;)

Þessi mynd er annars alveg ótrúlega flott. Menn fara til suður-Ameríku til að skoða svona rosa-fossa, - og því þá ekki þessa? Og ekki minnkar möguleikinn þegar jökullinn er í hopun.

Jón Logi (IP-tala skráð) 15.6.2011 kl. 19:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband