Hvað þýddi "eigi víkja ?

Kjörorð Jóns Sigurðssonar voru: "Eigi víkja!"  Sá misskilningur er þó býsna útbreiddur að kjörorð hans hafi verið: "Aldrei að víkja!"

Ástæðan er líklega sú að orðin "...aldrei að víkja!"... koma fyrir í söngnum "Öxar við ána..." sem allir kunna og syngja nokkuð oft. 

Til eru þeir sem telja að í þessum orðum felist það beint, að ítrustu kröfur komi einungis til greina varðandi gjörðir manna, sem berjast fyrir ákveðnum málefnum. 

Ég lít hins vegar svo á að annað felist í ljóðinu þegar horft er á ljóðlínuna í heild: ..."Fram! Fram! Aldrei að víkja!"...

Í henni felst samkvæmt mínum skilningi hreyfing fram á við þar sem ávallt skuli haft í huga hvert sé stefnt, en ekki það að öllu sé hafnað, sem ekki færir mönnum strax uppfyllingu á ítrustu kröfum. 

Þegar litið er á ástandið sem Jón Sigurðsson lifði við, blasir það við að gersamlega útilokað var að ná í einu vetfangi þeirri ítrustu kröfu og markmiði að Ísland yrði algerlega sjálfstætt og fullvalda ríki. 

Raunar er hugsjón hans og staðfesta enn meira aðdáunarefni en ella vegna þess að alla ævi hans var það í raun algerlega útilokað að á Íslandi gæti verið sjálfstætt og fullvalda ríki. 

Síðustu æviár Jóns hófst mikill fólksflótti frá landinu og framtíðardraumurinn fjarlægðist frekar en hitt. 

En Jón missti aldrei sjónar á stóra takmarkinu og þessi staðfasta trú hans og sýn endurspeglaðist í kjörorðum "eigi víkja!" 

Mér sýnist að með því hafi hann átt við það að á langri og strangri leið framundan mættu menn ekki, hvað sem á dyndi, víkja út af leiðinni í áttina að takmarkinu, sem náðist ekki fyrr en 65 árum eftir hans dag.

Það þýddi hins vegar ekki að á hverjum tíma tækju menn þau skref, stór eða smá, sem mögulegt væri að taka á þessari vegferð, frekar en að hanga svo fast á ítrustu kröfum að aldrei þokaðist þess vegna. 

Þessi vegferð gekk misvel en hver áfangi skilaði þjóðinni í rétta átt, heimastjórnin 1904, íslenski fáninn 1915, frjáls og fullvalda þjóð í konungssambandi við Danmörku 1918. 

Aldrei var vikið frá stefnunni að takmarkinu þótt það næðist ekki til fulls í hverju þessara skrefa.


mbl.is Margir viljað eigna sér Jón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef maður hefur einhverja "sýn" ("vision" eins og það kallast á ensku), þá er ekki hægt að víkja frá því markmiði.  Þetta þýðir það, að allt sem þú gerir, miðast við að ná settu marki.  Að maður skuli halda ótrauður áfram, þá er átt við að eigi skallt þú taka eitt skref aftur, og tvö skref fram ... eigi skallt þú semja burt hluta af sýn þinni, til að ná einum hluta.  Ef þú hefur eitthvað að berjast fyrir ... þá ertu baráttumaður, og gefur ekki eftir ... af því þig langar til að eiga bíl.

Mig langar aftur á móti til að eiga bíl, bát, flugvél og hús.  Mér er andskotans sama um alla aðra, á meðan ég sjálfur get eignast þetta. Ég, um mig, frá mér, til mín ... geng fyrir öllum öðrum, enda í fararbroddi.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 15.6.2011 kl. 17:06

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er rangt hjá þér, hygg ég, Ómar. Aldrei að víkja! er upprunalegra hjá Jóni. Ég veðja kannski ekki höfðinu fyrir þetta, en svona næstum því! Man ekki hvar ég las um þetta, en einhvern tímann á síðustu mánuðum.

Og hvar stendur þú gagnvart þeirri Esb.ásælni sem gerir kröfu til þess að við snúum til baka frá þeirri stefnu Jóns Sigurðssonar að ná löggjafarvaldinu aftur inn í landið? Ert þú fylgjandi því, að Alþingi og þjóðin framselji mestallt og æðsta úrslita-löggjafarvald úr landinu, að þaðan í frá fáum við næstum öll okkar lög frá Brussel og Strassborg og að Esb.-lög verði (eins og skrifað er upp á í aðildarsamningi) látin ráða, ef þau ríða einhvers staðar í bága við íslenzk lög?

Og svaraðu nú einu sinni, maður! Ertu Esb.sinni eða fullveldissinni?

PS. Og hvað ertu yfirleitt að gera í þessu ólögmæta stjórnlagaráði?

Jón Valur Jensson, 16.6.2011 kl. 03:14

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já já.  Þetta er einhver misskilningur.  þetta var þannig að Jón var að skrifa bréf um daginn og veginn og sagði meðal annars að umdeildur embættismaður  ,,eigi að víkja" og þá í þeirri merkingu að hann ætti að fara frá eða yfirgefa sitt embætti.  þetta einhvernveginn misskildist smám saman og varð eins og kunnugt er. 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 16.6.2011 kl. 10:59

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Rugl eins og fleira frá þér, Ómar Bjarki. En við bíðum svara siðuhöfundar.

Jón Sigurðsson notaði bæði kjörorðin.

Jón Valur Jensson, 16.6.2011 kl. 11:16

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég mun taka afstöðu til ESB-aðildar þegar samningur um það liggur fyrir og ég hef fengið tækifæri til að kynna mér hann og taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um það. 

Þetta gerðu Norðmenn tvívegis og ég hef marg sagt þetta áður. Sé ekki að norska leiðin, sem endaði með því að samningar voru felldir tvívegis, feli í sér að maður sé "landráðamaður" eða "á móti fullveldi". 

Ég vil gagnspyrja þig, Jón Valur : Telur þú að allir þingmenn og ráðherrar, sem verið hafa á Íslandi frá stofnun lýðveldis hafi gerst sekir um landráð og hefðu átt að fara í fangelsi fyrir allt það afsal á fullveldi, sem fram hefur farið síðustu 65 árin, meðal annars í formi eftirtaldra gerninga:

Aðildar að SÞ  þar sem við göngumst undir ákvarðanir Öryggisráðsins, meðal annars hernaðaraðgerðir í Kóreu, Kosovo o. s. frv., ákvæði Hafréttarsáttmála, barnaverndarsáttmála, mannréttindasáttmála, Alþjóðadómstóls í Haag, skuldbindinga gagnvart aðild okkar að Alþjóða flugmálastofnuninni, Alþjóða siglingamálastofnuninni, Stríðsglæpadómstólnum o. s. frv, aðild okkar að NATO, varnarsamningum við Bandaríkin, EFTA og EFTA-dómstólnum, Evrópuráðinu og Evrópudómstólnum og Mannréttindadómstólnum í Strassborg, afsal hluta íslensku handritanna til Dana, aðildar að Ríósáttmálanum og Kyotosáttmálanum, Árósasáttmálanum ...o.s. frv..o. s. frv, því að upptalningin gæti verið næstum endalaus?

Ef þú og fleiri telji það að Alþingi skipaði nefnd til að endurskoða stjórnarskrána hafi verið ólöglegt, af hverju hafið þið ekki kært það til Hæstaréttar? 

Og ef þetta var ólöglegt, var þá ekki ólöglegt að skipa allar hinar fyrri nefndir til að endurskoða stjórnarskrána? 

Og er þá ekki hreinlega ólöglegt að Alþingi skipi yfirleitt nokkrar nefndir? 

Ómar Ragnarsson, 16.6.2011 kl. 15:55

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Uppt., svara seinna þínum misskiln.

Jón Valur Jensson, 16.6.2011 kl. 18:21

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sæll aftur, Ómar. Ég hef verið að vinna mikið; gef mér nú tíma til að halda áfram.

Þú kaust að gagnspyrja mig, en áttir samt eftir að svara ærlegri spurningu:

"Hvar stendur þú gagnvart þeirri Esb.ásælni sem gerir kröfu til þess að við snúum til baka frá þeirri stefnu Jóns Sigurðssonar að ná löggjafarvaldinu aftur inn í landið? Ert þú fylgjandi því, að Alþingi og þjóðin framselji mestallt og æðsta úrslita-löggjafarvald úr landinu, að þaðan í frá fáum við næstum öll okkar lög frá Brussel og Strassborg og að Esb.-lög verði (eins og skrifað er upp á í aðildarsamningi) látin ráða, ef þau ríða einhvers staðar í bága við íslenzk lög?"

Ég sé ekki eitt einasta svar við þessum tveimur spurningum mínum í innleggi þínu.

Það er rugl og moðreykur að líkja aðild okkar að Sameinuðu þjóðunum (o.fl. alþjóðastofnunum og samningum) við það allsherjar-framsal ÆÐSTU LÖGGJAFARRÉTTINDA YFIR LANDI OKKAR, sem samþykkt yrði í "aðildarsamningi". Þar er samþykkt að taka við ÖLLUM LÖGUM Esb. sem til eru orðin, ÖLLU lagaverkinu með reglugerðum og tilskipunum og ÖLLU ÞVÍ SEM Á EFTIR AÐ BÆTAST VIÐ, án þess að við gætum hreyft legg né lið við því. (Skýr heimild fyrir þessu sést í tenglinum nokkrum línum ofar!)

Þú bætir ekki úr skák fyrir þér sem "stjórnlagaráðsmanni" að afhjúpa það hér, að einhverjum í nefndu stjórnlagaóráði hafi tekizt að relatívisera svo fullveldisafsalið í löggjafarmálum í þínum augum, að þú teljir það á einhvern hátt aðild okkar að Alþjóða-flugmálastofnuninni, Alþjóða-siglingamálastofnuninni, Stríðsglæpadómstólnum o. s. frv. -- jafnvel aðildin að NATO gaf því ekkert löggjafarvald yfir okkur, enda er það ekki frekar en flest af þessu með neitt löggjafarvald!

Svarið við spurningu þinni um eventuel landráð fyrri þingmanna vegna nefndra alþjóðasamninga er eitt stórt NEI. Og svara þú mínum tveimur spurningum nú BEINT, Ómar!

Hins vegar stendur eftirfarandi í 86. gr. landráðabálks alm. hegningarlaga: "Hver, sem sekur gerist um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með [...] svikum að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð, eða að ráða annars einhvern hluta ríkisins undan forræði þess, skal sæta fangelsi ekki skemur en 4 ár eða ævilangt." Í 87. gr. sömu laga er einnig lagt bann við því að menn "geri samband við stjórn erlends ríkis [...] til þess að skerða sjálfsákvörðunarrétt íslenska ríkisins" á einhvern hátt, og "varðar það fangelsi allt að 8 árum." En að þessu stefnir einmitt umsókn um inntöku í Evræópusambandið: hún myndi skerða sjálfsákvörðunarrétt íslenzka ríkisins.

Meira seinna!

PS. "Afsal hluta íslensku handritanna til Dana"! --Þú ert fyndinn, Ómar, að nefna þetta í samhengi með ábendingum mínum um, að stórríkið Esb. ætlast til að verða alrátt um löggjafarmál, þar sem og þegar það svo vill við hafa.

Jón Valur Jensson, 18.6.2011 kl. 05:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband