Lokað þar, - opnað hér.

Fréttir um röskun á flugi, bæði hér heima og erlendis, hafa nú verið á sveimi í nokkrar vikur, nú síðast vegna eldfjallaösku í lofti yfir Ástralíu. P1010167

Þess vegna er kannski allt í lagi, svona til tilbreytingar, að segja frá því að í gær var farin sérstök skoðunarferð til Sauðárflugvallar á Brúaröræfum til að kanna ástand vallarins. P1010702

Þeir Arngrímur Jóhannsson og Húnn Snædal flugu þangað á Piper Super Cub flugvél Arngríms, lentu á vellinum, könnuðu hann og gáfu þá umsögn að hann væri þurr, sléttur og harður og þar með opinn til umferðar fyrir allar flugvélar eftir að hafa verið lokaður í mestallan vetur vegna snjóa. 34 great iPhotos

Þetta var viss áfangi í sögu þessa flugvallar, því að hinn 5. maí síðastliðinn kom út handbók flugmanna, AIP, þar sem flugvöllurinn var kominn á skrá með öðrum skráðum, vottuðum og viðurkenndum flugvöllum landsins ásamt starfsleyfi.

Langflestar flugvélar landsins eru aðeins tryggðar á flugvelli, sem eru skráðir og viðurkenndir af Isavia, og því var þessi lending sú fyrsta sem fram fer á vellinum eftir að hann náði þessum áfanga og bættist í hóp stærstu flugvalla landsins.  

Ég ætla að henda inn þegar ég hef tíma, myndum, sem teknar voru í gær, en tvær efstu myndirnar voru teknar 6. júní í fyrra þegar völlurinn var orðinn fær og hann búinn að fá starfsleyfi, en skorti skráningu í handbók Isavia, AIP.

Reyndar kemur nú í ljós, að af tæknilegum ástæðum næ ég myndum úr ferð þeirra Arngríms og Húns ekki út úr umslagi sem þær eru í, merkt "34 great photos". Bæti því við einni eða tveimur loftmyndum og sé til á morgun.

Í AIP er völlurinn skilgreindur sem hálendisflugvöllur (660 m hæð) og því háð árstíðum hvort hann sé fær.

Nú hef ég sem ábyrgðarmaður vallarins tilkynnt svonefndri NOTAM-skrifstofu Isavia að völlurinn sé fær og verði það væntanlega allt til októberloka og þar með völlurinn opinn öllum flugvélum, allt upp í Fokker 50, en tvær af fjórum brautum vallarins eru nothæfar fyrir Fokker 50, önnur 1300 metra löng og hin 1000 metra löng.

Þetta er mikilvægt öryggisatriði því að völlurinn er sá eini á öllu hálendinu sem hægt er að nota fyrir þessar stóru flugvélar ef þörf krefur.

Síðan eru enn tvær brautir, 800 metra langar hvor þannig að ekki eiga að vera vandræði vegna hliðarvinds og því síður hindrana við lendingar og flugtök þarna.

Völlurinn er algerlega náttúrulegur og hefur ekki þurft að nota svo mikið sem skóflu eða malarspaða hans vegna.


mbl.is Röskun á flugi í Ástraliu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með AIP-ið Ómar.

Vonandi kemst maður einhvern tímann þangað uppeftir.

Jón Logi (IP-tala skráð) 22.6.2011 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband