3.7.2011 | 19:25
Orkan þar og orkan hér.
Víst er Yeollowstoneáin falleg, um það get ég vitnað eftir að hafa ferðast meðfram henni á löngum köflum.
Og Yellowstonefossarnir og gljúfrin eru líka fögur smíðisverk náttúrunnar. Fossarnir búa yfir mikilli orku en samt kemur ekki til greina að virkja þessa miklu vatnsorku, hvað þá að snerta við einum einasta af tíuþúsund hverum þjóðgarðsins.
Þetta myndu vera taldar hreinar öfgar og afturhald ef Íslendingar hefðu um þetta svæði að segja, því að hinn eldvirki hluti Íslands, þar sem talið er sjálfsagt að virkja allt sundur og saman, er nú talinn eitt af helstu náttúruundrum heims, en Yellowstone kemst ekki einu sinni á blað.
Nú er keppst við það hér á landi að sækja að náttúruperlum lands okkar, nú síðast með því að hefja fjárfestingar vegna undirbúnings Búlandsvirkjunar og með því að hefja boranir vegna rannsókna á Grændal.
Ástæðan er einföld og svínvirkar: Ef eytt er nógu miklum peningum í þessar undirbúningsframkvæmdir, helst hundruðum milljóna eða mörgum milljörðum, verður ekki aftur snúið, því að ef það er reynt, verður hægt að saka "öfgamenn" um það ef þeir dirfast að andmæla þessu og "eyðileggja" með því þá peninga sem búið er að eyða.
Vegna orkunotkunar liggur olíuleiðsla undir Yellowstoneána og þegar hún brast varð áin olíumenguð.
Ef Íslendingar væru þarna við völd yrði nú heimtað að virkja ána með þeim rökum að það sé í þágu þess að hamla gegn hlýnun loftslags vegna gróðurhúsalofttegunda, því að þá yrði hægt að hætta við að nota olíuna sem leidd hefur verið neðanjarðar um þetta svæði.
Einnig væri að sjálfsögðu fyrir löngu búið að leyfa "rannsóknarboranir" og milljarða rannsóknir á svæðinu.
Það verður hins vegar ekki gert. Allt slíkt er bannað, ekki aðeins í Yellowstone, heldur á svæði umhverfis þjóðgarðinn, sem er álíka stórt og Ísland.
Í hópi þeirra "öfgamanna" sem ekki vilja leyfa þarna það sem sjálfsagt þykir hér á landi, eru allir forsetar Bandaríkjanna síðustu 130 ár!
Olíubrák á náttúruperlu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það má geta þess að Laurel er hluti af borginni Billings sem er stærsta borg Montana fylkis og liggur í Yellowstone dal og þar rekur Cenex olíuhreinsunarstöð sem framleiðir bæði bensín og dísil, en íbúar eru rétt rúmlega 6000. Ekki langt frá þessum bæ er svo annar sem heitir Columbus og er frægur fyrir framleiðslu á silfur gripum undir nafninu Montana Silversmiths sem framleiða mikið af beltissylgjum og öðru skarti sem höfðar til Kúreka tískunnar. En allir þessir bæir eru við Yellowstone ána.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 3.7.2011 kl. 20:44
Rétt er það, enda liggur Yellowstone þjóðgarðurinn í norðvesturhorni Wyoming og af fjórum leiðum inn í hann liggur ein úr vestri frá Idaho og önnur úr norðri frá Montana.
Ómar Ragnarsson, 3.7.2011 kl. 23:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.