3.7.2011 | 22:46
Forsætisráðherrann gömul tölva.
Fyrir 45 árum, árið 1967, var árið 2012 langt frammi í hulinni framtíð og tíminn þangað til leit út eins og heil eilífð, vegna þess að um var að ræða að flytja sig í huganum úr miðri öld í lok árþúsunds og vel yfir á næstu öld í nýju árþúsundi.
Þegar við Magnús Ingimarsson settum saman textann "Árið 2012" þótti okkur líklegt að tölvurnar og vélmennin myndu taka öll völd þegar komið yrði vel fram á næstu öld.
Um það leyti sem textinn var gerður, var svonefnd Háskólatölva langfullkomnasta tölva samtímans.
Hún tók næstum heilt herbergi en nú myndi lófatölva afkasta því sem hún gerði.
Við erum orðin miklu meira háð tölvunum en við gerum okkur grein fyrir. Vatnsveður í Kaupmannahöfn hefur til dæmis slegið út dönsku veðurstofunni og kom þar vel á vondan.
Smá bilun í tölvukerfi hér heima stöðvaði öll bankaviðskipti nýlega og viðskipti hundraða fyrirtækja, ekki bara við bankakerfið, heldur við hvert annað, lágu niðri klukkustundum saman.
Þess vegna var spá okkar Magnúsar um margt ótrúlega rétt og svo kann að verða að veruleikinn í myndinni Transformers þegar vélmennin taka allt yfir verði ekki bara kvikmynd heldur raunveruleikinn í sínu hæsta veldi.
Í textanum 2012 sögðum við:
"...allt var orðið breytt,
því vélar unnu störfin og enginn gerði neitt."
Það var nokkur sannleikur í þessu því að við erum nú algerlega háð tölvum og vélum og við myndum varla þurfa að gera neitt nema vegna þess að milljónir manna vinna við að framleiða, selja og gera við allar þessar tölvur og vélar.
Áfram héldum við:
"Og ekki hafði neitt að gera útvarpsstjóri vor
því yfirmaður hans var gamall vasatransistor
og þingmennirnir okkar voru ei með fulle fem
því forsætisráðherrann var gamall IBM."
Við reyndum að fara á sem mest flug í ímyndununum sem textinn átti að vera fullur af, en frekar datt okkur í hug að forsætisráðherrann árið 2012 yrði gömul tölva en gömul flugfreyja.
Við notuðum orðin vasatransistor og IBM yfir tölvurnar, tölvukerfin og tölvutæknina og þegar grannt er skoðað hefur þessi tækjakostur þegar tekið að stórum hluta til ráðin af okkur.
Það eina sem virðist ætla að verða nokkuð óbreytt árið 2012 frá því sem var 1967 er þetta með þingmennina, sem eru ei með fulle fem.
Við sáum fyrir mesta fíkniefnavandann: "Er dóninn tók upp sprautu, þá flýtti ég mér út..."
og sáum líka fyrir gríðarlegar framfarir í læknavísindunum, svo tæknfrjóvganir, þegar við sögðum:
"Mig dreymdi´að ég væri giftur þeirri sömu sem ég er.
Hún sagði: Ó, mér leiðist þetta barnaleysi hér.
Ég gerðist nokkuð bráður og vildi bæta úr því strax.
"Nei, bíddu," sagði´hún, "góði, við notum pillur nú til dags."
Veruleiki spádóms textans "Árið 2012" er kannski ekki kominn fram nema að hluta, en kannski verður hann kominn allur fram árið 2112 eða jafnvel árið 2067, þegar textinn á aldarafmæli.
Vélmennin taka yfir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já Ómar, þú hefur lengi verið framsýnn og réttsýnn, enda sérðu heiminn í víðara samhengi en flestir. Þú sérð heiminn frá hærra sjónarhóli - enda alltaf að fljúga í háloftunum!
Það sést líka á hugsjónum þínum og verkefnavali.
En ertu ekki í stjórnlagaráðinu? Ég er eiginlega hissa á að þú eigir tíma aflögu fyrir bloggið!
Sigurður Alfreð Herlufsen, 4.7.2011 kl. 00:17
Man vel eftir þessum texta. Að forsætisráðherran væri gömul tölva, var í mínum huga að framfarirnar væru orðnar svo miklar,. Að gömul tölva væri nóg. Við getum ekki sagt að Jóhanna sé gömul tölva, en gömul dráttarvél kannski?
Bar mikla virðingu fyrir henni hér áður fyrr eins og stór hluti þjóðarinnar, en ekki meir.
Sigurður Þorsteinsson, 4.7.2011 kl. 00:23
Kemst alltaf í gott skap að hlusta á Villa syngja þetta lag og þennan texta
Jenný Stefanía Jensdóttir, 4.7.2011 kl. 00:40
En smá leiðrétting: Lófatölvur eru þúsund sinnum öflugri en Háskólatölvan var á sínum tíma; 6kb og 4Mhz, ef ég man rétt. En textinn er samt sem áður einstakur. Háskólatölvan kæmist fyrir í tölvuúri frá c.a. 1990.
Skorrdal (IP-tala skráð) 4.7.2011 kl. 07:54
Mér var sagt að gamla PC vélin mín, sem var 486 og 33 mhz hafi verið öflugri en tölvukerfi NASA við Appolo-prógrammið.
En annars, - það væri gaman að hafa allan textann og hlekk á lagið með Vilhjálmi, ef að það er einhvers staðar til á netinu.
Jón Logi (IP-tala skráð) 4.7.2011 kl. 15:50
Ef farið er inn á tonlist.is er hægt að hlusta á lagið, sem er að finna á nokkrum plötum.
Um daginn rakst ég á einhverja vefsíðu sem birtir texta en man ekki hver hann er.
Ómar Ragnarsson, 4.7.2011 kl. 20:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.