4.7.2011 | 11:42
Spurning um mannréttindi barna og jafnrétti kynjanna.
Ég er áhugamaður um vernd og viðgang íslenskrar tungu og tel mannanafnasið okkar frábæran og segi útlendingum frá honum með stolti.
Eitt af því sem hefur veitt þessum sið ákveðna ógn er hinn útbreiddi siður að nefna börn tveimur nöfnum.
Ástæðan er sú að í mörgum tilfellum vill nafn foreldrisins detta niður og jafnvel gleymast þegar rætt er um viðkomandi manneskju.
Af þessum sökum bera öll börn okkar hjóna aðeins eitt nafn hvert.
Ég hef auk þessa býsna róttækar skoðanir hvað varðar það að öll börn eigi helst að kenna við móður sína en ekki föður.
Það minnir mig á ákveðinn meting sem fram kom í máli tveggja þekktra Íslendinga fyrir um 80 árum þar sem annar stærði sig af því að vera kominn í beinan karllegg frá einum þekktasta Íslendingi 19. aldar.
Hinn benti þá á það að hann væri kominn í beinan kvenlegg af heldur minna þekktari Íslendingi.
Sagði þá hinn fyrri að sín ættfærsla leiddi sig til þekktari Íslendings og væri sín ættfærsla því merkilegri.
"En mín er öruggari" svaraði þá hinn.
Þrátt fyrir nokkuð harða afstöðu mína gagnvart nauðsyn þess að varðveita íslenska tungu og mannanafnasið hennar tel ég að mannréttindasjónarmið eigi að vera í fyrirrúmi við úrskurði um mannanöfn og einkum mikilvægt að koma í veg fyrir að börn séu nefnd nöfnum sem beinlínis verði þeim til trafala og geti jafnvel ýtt undir það að þau verði fyrir einelti.
Stundum finnst mér úrskurðir mannanafnanefndar orka tvímælis og til dæmis, varðandi nafnið Castelius, erfitt að halda því fram að stafurinn c sé ekki notaður í íslenskum nöfnum á sama tíma og hann er leyfður í eldri nöfnum eins og til dæmis ættarnafninu Thorlacius.
Mig grunar að ættarnafnasiðurinn sé það sem ógnar hinum dásamlega íslenska mannanafnasið sem vinnur gegn nútíma hugmyndum um jafnrétti kynjanna að því leyti að kona verði að taka upp ættarnafn manns síns við giftingu.
Ef allir þeir sem bera ættarnöfn viðhalda þeim, mun hann útrýma föður/móðurnafnasiðnum, og teldi ég miður ef svo færi.
Ef veita á íslenskum nafnasið vernd neyðist mannanafnanefnd til að sporna gegn ættarnöfnum þótt það skapi misræmi á milli þess sem viðgekkst áður og þess sem menn vilja taka upp í formi nýrra ættarnafna og mannanafna.
Castiel hafnað - Kastíel leyft | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér finnst að það ætti að afnema þessi ættarnöfn. Þetta er eitthvað snobb sem stóð til boða um nokkurra ára skeið fyrir 100 árum og allir sem keyptu þau eru löngu farnir yfir móðuna miklu.
Lagabreyting þannig að fólk gæti ekki tekið upp ættarnöfn svo að þau myndu bara deyja út á einni öld í viðbót væri frábært plan.
Halldór Rúnarsson (IP-tala skráð) 4.7.2011 kl. 12:20
Mig minnir að lögin séu þannig á Íslandi, að kona getur ekki tekið upp ættarnafn manns síns.
Báðir synir mínir bera ættarnöfn feðra sinna, en þeir eru báðir erlendir í aðra ættina en eiga íslenskar mæður. Báðir vildu þeir frekar að börnin fengju ættarnöfnin, og gaf ég þeim þessa ákvörðun alfarið, þar sem það yrði nafn eða fjölskyldunafn föðursins sem barnið fengi, en ekki mitt.
Yngri sonur minn ber t.d. nafnið "Brown". Þetta er ósköp algengt nafn kannski, og í augum íslendings kannski ekki eins merkilegt og "Axelsson" eða "Axelsdóttir" sem fyrir okkur gefur beina skírskotun í hvaðan við komum, frekar en daufa.
En fyrir manninn minn, er þetta svakalega merkilegt nafn. Hann er, sjáðu til, ættaður frá Skotlandi og á ættingja sem búa bæði þar og í Suður Afríku sem við höldum mikið samband við. Þessi fjölskylda getur rekið ættina sína jafn langt aftur og margir íslendingar, og á fjölskyldan sitt eigið "tartan" sem og annað sem það deilir með stærra og sameinuðu clani.
Þessi arfleifð er manninum mínum mjög mikilvæg, og er hún eitthvað sem hann vill halda í, og gefa áfram til sonar okkar.
Á meðan ég er rosalega stolt af íslenskum nafnasið, veit ég samt að ættarnöfn, hvort sem það erlent eða íslenskt, er kannski mikilvægt í augum þeirra sem þau bera.
Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 4.7.2011 kl. 13:12
Mínar dætur eru nú bara með föðurnafnið sitt, með góðu samþykki konunnar. Þær hafa ættarnafn hennar (hún er erlend) sem millinafn.
Að nota móðurnafn er nýtilkomið ekki rétt, og náttúrulega pottþétt. Eins og aðenginn telst fullkomlega Gyðingur nema móðir hans sé það.
Ég get nú sem betur fer, samt ekki þrætt fyrir dæturnar, þær eru of líkar....
Jón Logi (IP-tala skráð) 4.7.2011 kl. 15:30
Ég er afar sammála þér með tvínefnasið Íslendinga. Að sjálfsögðu er ég ekki að dæma persónuleika fólks sem heitir tveim nöfnum, bara þessar síauknu vinsældir þess að nefna börn tveimur nöfnum. Það heyrir næstum til undantekninga að ungt fólk heiti bara einu nafni. Öll frændsystkini mín heita tveimur nöfnum, sem og öll frændsystkini mannsins míns (öll 12).
Ég ætla mér að gefa mínum börnum bara eitt nafn, ef/þegar þau koma
Rebekka, 4.7.2011 kl. 18:15
Ég viðurkenni að tvínefni geti verið þægileg til aðgreiningar ef fyrsta nafnið og eftirnafnið eru mjög algeng eins og til dæmis Jón Guðmundsson eða Guðrún Jónsdóttir.
Þó hygg ég að þetta sé ekki svo slæmt, samanber það að Jón Sigurðsson "bassi" og Jón Sigurðsson "í bankanum" voru afar þekktir á svipuðum tíma en lítið um að ruglast væri á þeim.
Á sínum tíma var það þægilegra fyrir mig að börnin hétu aðeins einu nafni af því að þá var nafnið Ómar frekar sjaldgæft. Þar að auki eru fjögur nöfn barna minna frekar óalgeng, en börnin heita í aldursröð:
Jónína, Ragnar, Þorfinnur, Örn, Lára, Iðunn og Alma.
Ómar Ragnarsson, 5.7.2011 kl. 11:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.