"...það er óviðjafnanlegt..."

Ég var svo lánsamur hér fyrr á árum að eiga þess kost að sigla á nokkrum stöðum meðfram strönd Íslands.

Fyrsta skiptið var það sigling frá Siglufirði til Akureyrar í júnílok 1959 með bátnum Drangi frá héraðsmóti Sjálfstæðisflokksins á Siglufirði á leið á héraðsmót flokksins á Akureyri.

Ég hef óteljandi sinnum flogið inn og út Eyjafjörðinn og ekið með ströndum hans en það jafnast einfaldlega ekkert á við að sigla inn fjörðinn.

Í apríl 1962 fór ég aftur með skipi og í þetta sinn frá Sauðárkróki yfir til Akureyrar á leið frá Sæluviku Skagfirðinga til Skíðalandsmótsins á Akureyri.

Einnig hef ég siglt með varðskipi frá Ísafirði til Hornbjargsvita og enda þótt ég hafi flogið ótal sinnum þessa leið er það svo stórkostlegt að sigla meðfram Kögri, Hælavíkurbjargi og Hornbjargi að það er einhver mesta upplifun sem ég hef notið í íslenskum ferðalögum.

14 ára gamall naut ég þess láns að sigla á skipinu Dronning Alexandrine frá Reykjavík til Kaupmannahafnir og var siglt bæði á útleið og leið heim um færeysku sundin til Klakksvíkur, Þórshafnar og Trangisvogs á Suðurey í blakalogni og heiðskíru veðri.

Þetta var svo stórkostlegt að ég er enn hikandi við að fara aftur til Færeyja vegna þess að samanburðurinn við siglinguna 1955 verði óhagstæður.

Ég hef einnig siglt frá Hornafirði til Vestmannaeyja og frá Reykjavík til Vestmannaeyja, og ekki svíkur sú sigling né heldur siglingar um Breiðafjörð, bæði með Baldri og með Tryggva Gunnarssyni í Flatey.

Í Noregi er "Hurtigruten" afar vinsæl siglingarleið og varð um daginn óvænt einhvert vinsælasta sjónvarpsefnið þar í landi þegar sjónvarpað var beint frá siglingunni.

Spurningin er hvort eitthvað hliðstætt gæti gengið á Íslandi og fyrst útlendingar geti þolað sjólagið við landið á erlendum skemmtiferðaskipum geti Íslendingar og útlendingar þolað það og notið þeirrar einstöku upplifunar sem sigling á stóru og góðu skemmtiferðarskip er.

Enda þennan pistil með textanum "Að sigla inn Eyjafjörðinn" sem Ragnar Bjarnason söng fyrir mig með undirleik Grétars Örvarssonar fyrir sjónvarpsþáttinn "Fólk og firnindi - Á slóð Náttfara."

Lagið er að finna á CD og DVD diskunum "Ómar lands og þjóðar".

 

AÐ SIGLA INN EYJAFJÖRÐINN.  (Lag: Cruising down the river)

Að sigla´inn Eyjafjörðinn

það er yndislegt um vor

í björtu veðri´er býr sig fugl

við bjarg og klettaskor.

Er sólin heit í heiði

baðar dali´og haf og fjöll.

Í háum hamrabjörgum

heilsa okkur þjóðfræg tröll.

Hrísey, fjarðardjásnið frítt

mót fagurgrænum dal.

Við  Múlann vaggar bátur blítt

við bjargsins hamrasal.

Um háu hamraskörðin

hoppa lömb í friði´og spekt.

Að sigla´inn Eyjafjörðinn

það er óviðjafnanlegt.

Allir hér nú afar vel

una sínum hag

á skemmtiferðaskipunum

sem skríða inn í dag.

Þar ferðamannahjörðin

kyrjar frjáls í ró og spekt:

Að sigla´inn Eyjafjörðinn

það er óviðjafnlegt!

 


mbl.is Farþegum fjölgar með skemmtiferðaskipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

hurtigruten kostar milljarða fyrir nojara á ári hverju, þeir halda henni úti af þrjósku og til að viðhalda sterkum menningararfi.. á íslandi er þessi hugsunarháttur óhugsandi.. en hurtigruten er eitt af því sem maður VERÐUR að gera einu sinni í lífinu..

Óskar Þorkelsson, 5.7.2011 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband