Óvenjulegt ástand í fyrradag og í gær.

Síðan Veðurstofan tók upp sjálfvirka símsvarann 9020600 fyrr allmörgum árum hef ég reglulega, oft daglega eða oftar, hringt í hann til að fá upplýsingar, meðal annars um flugveðurskilyrði.

Í upphafi þess sem lesið er um þau, er tilgreindur vindur í 5000, 10000 og 18000 feta hæðum og geta tölurnar til dæmis verið þessar:  5000 = 270gr/20 hnútar, 10000 = 300/40  og 18000 = 320/70

Aldrei í öll þessi ár hefur verið logn í öllum þessum þremur hæðum fyrr en í fyrradag. Þá var gefin upp "variable 5 hnútar" í þeim öllum sem þýðir áttleysa. Þetta var aldeilis dæmalaust en af þessu mátti ráða það að loftmassinn yfir landinu væri hreyfingarlaus og að af því leiddi að sólfarsvindar myndu ná sér á strik síðdegis þegar sólin hitaði upp miðju landsins, heita loftið stigi þar upp og þar með myndi svalt loft streyma inn á land frá sjónum.

Greinilegt var að Veðurstofan treysti sér ekki til að spá því hvar þetta loft myndi fyrst streyma inn en síðdegis byrjaði þoka að streyma inn frá Faxaflóa og var með naumindum að ég slapp í loftið af flugvellinum á Tungubökkum í Mosfellsbæ, áður en hann lokaðist.

'i gærmorgun réði þessi þoka ríkjum í Reykjavík framundir hádegi en afar athyglisvert var að fylgjast með því hvernig einstök hverfi í Reykjavík og jafnvel einstakar flugbrautir Reykjavíkurflugvallar fóru út úr því.

Ég komst um það bil 30-60 mínútum fyrr í loftið en ella vegna þess að ég gat veitt mér þann munað að nota hvaða braut sem var, þótt smágola væri á sumum þeirra á eftir mér.

Ég fékk að nota vestur-austur-brautina og það var þétt þoka á vesturendanum, þar sem ég hóf flugtaksbrunið. Þegar komið var inn undir miðja braut létti til og síðan var klifrað í björtu veðri yfir Öskjuhlíðina og austur yfir borgina þar sem sólin skein í heiði.

Vélarnar sem þurftu að nota norður-suður-brautina urðu að fá blindflugsheimild og hurfu upp í þokuna við suðurendann í 30 metra hæð.


mbl.is Milt og gott veður um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband