Leiðir af sjálfu sér en þarf samt auglýsingu.

Fjallabaksleið nyrðri liggur í 700 metra hæð yfir sjó þar sem vegurinn fer hæst. Þegar ekið er inn á leiðina að vestanverðu blasir strax við ökumönnum að vegurinn er niðurgrafinn troðningur eða slóð en ekki venjulegur vegur.

Þetta kemur ekki alveg eins fljótt í ljós þegar ekið er í hina áttina upp úr Skaftártungu, en gamanið tekur fljótlega að kárna.

Blindhæðirnar eru margar alveg sérstaklega krappar og þröngar og verður að fara þar fetið.

Ef vegagerðartæki verða á ferð á leiðinni gætu óheppnir ökumenn ekið fram á þau á afar hættulegum augnablikum.

Eins og vegurinn er nú er hann víða alveg sérstaklega holóttur svo að ökumenn á bílum með lága hjólbarða verða að aka mjög hægt til að eiga ekki á hættu að sprengja hjólbarða.

Fólk verður því að taka sér afar góðan tíma til að fara þessa leið og reynslan sýnir, að enda þótt leiðin sé merkt með bókstafnum F á kortum sem hálendisvegur, er fáfræði stórs hluta þjóðarinnar um landið okkar stundum með ólíkindum og full ástæða hjá Vegagerðinni að benda fólki á þetta.

Sem dæmi má nefna að í spurningakeppninni "Gettu betur" var spurt um skriðjökul, sem lægi austan við Öræfajökul.

Svöruðu nemendur því til að þetta væri Mýrdalsjökull. Verður að ætla að fáfræði af þessu tagi sé útbreidd fyrst nemendur sem taldir eru búa yfir mestri þekkingu í framhaldsskólum vita ekki meira um landið.


mbl.is Fjallabaksleið er hálendisvegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband