18.7.2011 | 18:11
Hvernig væri best að hún hagaði sér?
Katla er ein af mikilvirkustu eldstöðvum landsins og hefur hingað til gosið stórum gosum með hálfrar til heillar aldar millibili, líkt og Hekla gerði þangað til fyrir rúmri hálfri öld.
Með hegðunarbreytingu sem fólst í smærri gosum á áratugs fresti sinni dró stórlega úr áhrifum Heklugosa sem betur fer og stórgos með hrikalegum afleiðingum víða um land eins og 1104 eru úr sögunni í bili.
Afleiðingar Kötlugosa hafa oft verið slæmar, bæði vegna öskufalls og einnig vegna hamfarahlaupa niður Mýrdalssand. Gosin 1660, 1755 og 1918 eru góð (slæm) dæmi um það.
Nú er spurningin hvort Katla hafi breytt um hegðun eins og Hekla. Hafi hún gert það verður auðvelt að leysa samgönguvandann yfir Mýrdalssand í kjölfar smágosa með því að reisa stórar og sterkar brýr yfir Múlakvísl og Skálm og láta hlaupin taka veginn á völdum stöðum.
Gallinn er bara sá, að vegna hins langa hlés frá 1918 vitum ekki nema að næsta Kötlugos verði stórgos.
Ef það verður þannig, er frekari bið eftir því afar óheppileg, því að á meðan heldur Katla smíði sterkra brúa á Mýrdalssandi í gíslingu.
Miðað við það að Hekla gaus stórgosi 1947 eftir 103ja ára bið sýnist líklegra að næsta Kötlugos verði stórt, jafnvel þótt 1955 og nú hafi orðið flóð vegna hitans í þeirri gömlu.
Sé óhjákvæmilegt að næsta gos verði stórt væri því illskárra að það gerðist frekar fyrr en síðar, til dæmis í október eins og síðast eða á útmánuðum.
Eftir slíkt gos væri auðveldari sú ákvörðun að reisa rammgerðar brýr á sandinum, því að þá myndi taka marga áratugi fyrir eldstöðina að safna í stórgos.
Skjálftahrina í Kötlu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.