19.7.2011 | 23:08
Hve lengi sleppum við?
Það er ekki á almanna vitorði, að ég held, að vegna fjarlægðar Íslands frá öðrum löndum og afar ákveðinna viðbragða íslenskra sóttvarnarlækna, höfum við hingað til nær alveg sloppið við svonefndar MOSA smit, sem fara hraðvaxandi í öðrum löndum.
Þessi smit, sem hafa tífaldast í Danmörku, hafa ekki numið land hér, þótt vitað sé um einstaka tilfelli.
Til dæmis fékk dótturdótir mín svona smit og var umsvifalaust sett í sóttkví heima hjá sér en ekki á sjúkrahúsi, því að mikið er lagt upp úr því að koma í veg fyrir að þessir sýklar sleppi og leiki lausum hala á sjúkarhúsum.
Aukið ónæmi sýkla gegn sýklalyfjum tengist öðru heilbrigðisvandamáli, fíkniefnaneyslu.
Enginn hópur þjóðfélagsþegnanna veldur jafn miklu tjóni á þessu sviði vegna þess að það er helst þegar fíkniefnaneytendur fá sýklalyf, sem misbrestur verður á því að taka þau samfellt þann tíma sem læknar fyrirskipa.
Í vímunni vill þetta gleymast og við þessar aðstæður drepast sýklarnir ekki, heldur lifa af og ávinna sér ónæmi gegn sýklalyfjunum.
Önnur stór ástæða er tilhneiging margra til að taka sýklalyf í tíma og ótíma, en þessi ofnotkun hefur líka hraðað styrkingu sýklanna.
Sýklarnir efla mátt sinn að þessu leyti hraðar en læknavísindin, sem reyna að elta þá, en verða fyrir bragðið að hanna æ sterkari lyf, sem reyna mun meira á sjúklinginn sjálfan en gömlu lyfin.
Æ oftar gerist það að líffæri sjúklingsins sjálf þola ekki lyfin og get ég þar talað af reynslu. Þegar ég fékk sýkingu á leið til Bandaríkjanna, sem óx afar hratt, átti ég um tvo kosti að velja: Að leggjast inn á sjúkrahús þar og taka áhættuna af því að verða þar innlyksa vikum saman með tilheyrandi kostnaði, því að ef um MÓSA smit var að ræða var ekki um það að ræða að koma aftur heim fyrr en sýkingunni væri að fullu eytt.
Ég ákvað að taka áhættuna af því að fara undir hnífinn hér heima og tapa tveimur dögum fyrir bragðið þar sem sýkingin gat grasserað á fullu.
Ekki reyndist um MÓSA smit að ræða en þó afar illvíga sýkla sem aðeins sterkasta sýklyf dugði við.
Læknirinn sem skar mig var hreinn snillingur en ef ég hefði verið skorinn í Bandaríkjunum hefði sýkingin verið mun minni og viðráðanlegri og á þorrablótinu, sem ég var að skemmta á, var einn gesta Örn Arnar læknir, sem hefði vafalaust fengið handa mér topp lækni.
Hugsanlega gerði ég mistök þarna miðað við það sem á eftir fór en þetta dæmi sýndi mér hve vandasöm glíman við skæðar sýkingar er orðin.
Vonandi verður sú staðreynd að Ísland er eyja langt norður í höfum til þess að auðvelda okkur að halda þessari vá frá okkur.
MÓSA smitum fjölgar í Danmörku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sú staðreynd að Ísland er eyja langt norður í höfum hefur engin áhrif á útbreiðslu sýkla, hvorki MÓSA né annarra. Það eina sem hefur áhrif á því sviði eru ferðir fólks og þar sem fólksflutningar til Íslands og frá eru mjög miklir er ekki auðvelt við að eiga. Það sem við hins vegar getum gert er að reyna eins og unnt er að halda þessum ófögnuði frá sjúkrahúsunum eins og í dæminu sem þú nefndir. Ennfremur að auka mjög áróður fyrir handþvotti því að ekkert vopn er öflugra í baráttunni við sýkla sem berast á milli manna frá hönd til handar. Hvergi er meira um slíka sýkla en á hurðarhúnum, peningum lyklum og tölvulyklaborðum (þ.e.a.s. hlutum sem oft eru handleiknir og sumir skipta oft um eigendur eins og peningar.)
Magnús Óskar Ingvarsson, 20.7.2011 kl. 07:30
Það er ekki magn flutninga fólks um landið sem skiptir máli heldur hvernig ferðamátinn er.
Í Evrópu og Bandaríkjunum er flæði fólks yfir landamæri miklu meira en hér og fólkið fer gangandi, hjólandi, akandi og fljúgandi.
Mestu skiptir að hér hafa sóttvarnaraðgerðir verið mjög harðar, en smæð þjóðarinnar og einhæfni fólksflutninga hafa hjálpað mjög mikið við það.
Það er ekki tilviljun að tíðni MÓSA smita á Íslandi er hin lægsta sem þekkist og að enn sem komið er hafa þau ekki farið úr böndum eins og í öðrum löndum.
Ómar Ragnarsson, 20.7.2011 kl. 09:30
Ómar, hvaðan hefur þú þetta með að fíkniefnasjúklingar séu stórir valdar af útbreiðslu fjölónæmra baktería? Mér þætti gaman að fá tilvísun í einhverjar heimildir, því þetta hljómar vægast sagt hæpið að svona pínulítill þjóðfélagshópur geti verið sekur að þessu, enda þarf maður ekki að vera fíkill til að gleyma að taka lyfin sín.
Erna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 20.7.2011 kl. 20:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.