27.7.2011 | 11:20
Allir máttu vita hvað Hitler ætlaði sér.
Adolt Hitler og Anders Behring Breivik voru firrtir menn sem vissu nákvæmlega hvað þeir vildu og ætluðu sér. Þeir voru svo vissir í sinni sök að þeir leyndu ekkert skoðunum sínum og fyrirætlunum nema að beinlínis væri nauðsynlegt að viðhafa leynd eða blekkingar til að ná markmiðunum fram.
Breivik virðist hafa verið svo sannfærður um réttmæti gerða sinna að hann hirti ekki um að dylja aðild sína að þeim eftir að hann hafði drýgt sitt mikla ódæði.
Hann duldi að vísu fyrirætlan sína, því að annars hefði hann ekki getað framkvæmt hana.
Allir hefðu mátt vita hvað Hitler ætlaðist fyrir. Hann lýsti stefnu sinni og fyrirætllunum í bókinni Mein Kampf næstum áratug áður en hann náði völdum.
Stefnan var skýr og einbeitt. Hún fólst í því að fella Versalasamningana sem "þjóðsvikarar" hefðu gert og krefjast "lífsrýmis" (lebensraum) fyrir Þjóðverja með því að ná yfirráðum yfir hinum miklu kornforðabúrum Ukrainu og Rússlands. Það yrði framkvæmt í "sókn til austurs" (drang nach osten).
Þjóðverjar og "hreinir Aríar" væri yfirburðakynstofn en aðrir kynstofnar óæðri og skyldu því þjóna herraþjóðinni.
Gyðingar væru úrþvætti og höfuðmein mannkyns sem bæri að losa sig við. Hinn "gyðinglegi bolsévismi" væri höfuðóvinurinn. Þetta var einkennilegt að sjá, því að Stalín hafði, eins og Hitler, ímugust á Gyðingum, einkum síðustu árin og fannst hið besta mál að þeir flyttust til Palestínu og síðar Ísraels.
"Aldrei aftur nóvember 1918!" var kjörorð Hitlers, aldrei aftur skyldu Þjóðverjar gefast upp í stríði á jafn smánarlegan hátt og í fyrri heimsstyrjöldinni þegar herir óvinanna voru enn utan landamæra Þýskalands, heldur skyldi berjast til síðasta manns og síðustu stundar.
"Þjóðsvikarar" hefðu staðið fyrir uppgjöfinni 1918 og skyldi slíkt aldrei liðið framar.
Öll atburðarásin frá 1933 til 1945 var staðfesting á því sem Hitler hafði lýst yfir að hann ætlaði sér.
Þess vegna var það svo ótrúlegt, svo hræðilegt, hvernig menn litu fram hjá þessu og reyndu að hafa þennan villimann góðan, fyrst með friðþægingarstefnu (appeasement) Breta og Frakka 1933 og síðar með griðasamningi Hitlers og Stalíns 1939, sem raunar var gerður af illri nauðsyn af hálfu Stalíns, sem treysti ekki lengur yfirlýsingum ráðamanna Vesturveldanna.
Auk þess flækti Rússahræðsla (Russofobia) Pólverja málið, því að eina ráðið til þess að Rússar gætu hjálpað þeim fólst í því að rússneskur her fengi að fara inn á pólskt landsvæði til að berjast við innrásarher Þjóðverja.
Og ofan á allt þetta bættist að þýska þjóðin og allur heimurinn horfðu í raun framhjá voðaverkum Helfararinnar þar til afleiðingarnar blöstu við í stríðslok.
Vissu fljótt að Breivik var sekur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.