31.7.2011 | 14:37
"Bara nokkrir dropar..."
Það hefur verið spaugilegt að heyra í mótshöldurum víða um land nú um helgina. "Bara nokkrir dropar..." sagði sá sem talaði frá Eyjum og á öðrum mótshöldurum mátti skilja að nú væri í gangi blíðviðriskeppni á öllu landinu.
Það vill svo til að hægt er að fylgjast með raunverulegu veðri t. d. hér á mbl.is og einnig veðurspá og þá kemur allt annað í ljós. Enginn þessara mótstaða hefur sloppið við rigningu og í öllum þeim landshlutum, sem ég hef komið í um helgina hefur rignt, meira að segja líka uppi á norðurhálendinu.
Veðurfræðingar eru undir pressu að tala varlega, því að eitt orð á ská gæti kostað einhvern mótshaldarann eða jafnvel þá flesta milljónir króna.
Nú stefnir í að með veðrinu í helgarlok muni rigning og rok ná einhvers konar endasprettshámarki, og er hætt við að ekki dugi alls staðar að segja: "Bara nokkrir dropar, annars logn og blíða".
Ekki eru fjölmiðlar undir minni pressu, heldur steðjar að þeim einhver mesti "plöggtími" ársins svo notað sé orðalag þeirra sem hafa úti allar klær vikum saman á undan þessari miklu ferða- og skemmtanahelgi, þar sem peningaveltan er númer eitt, tvö og þrjú.
En, eins og Jón Ársæll segir, "þetta er Ísland í dag".
Rigning og rok á Þjóðhátíð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar.
"Veðurfræðingar eru undir pressu að tala varlega, því að eitt orð á ská gæti kostað einhvern mótshaldarann eða jafnvel þá flesta milljónir króna."
Gætu veðurfræðingar þá verið skaðabótaskyldir, ef það falla fleiri en nokkrir dropar? Eða er það bara almenningur sem verður látinn bæta "tjónið" eins og vanalega?
Þórdís Bachmann, 31.7.2011 kl. 15:15
Nei, þeir geta með engu móti gert að því þótt það sé erfitt að spá rétt og einkum er erfitt fyrir þá að spá um veðrið á einstökum stöðum.
Til dæmis sagði mér Jón Logi, bóndi í Vestrari Garðsauka við Hvolsvöll að Hekla og Eyjafjallajökull hefðu verið bjartir um miðjan dag í dag á meðan það rigndi og blés á mestöllu suðvesturhorni landsins.
Bogomil Font afgreiddi veðurfræðinga með laginu "Veðurfræðingar ljúga" fyrir nokkrum árum þannig að viðurkennt er að spár þeirra geta orðið rangar.
Ómar Ragnarsson, 1.8.2011 kl. 19:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.