9.8.2011 | 00:38
Safaríkar upplýsingar.
Lyndon Baines Johnson var einhver litríkasti forseti Bandaríkjanna og var hermt að persónuleiki hans spannaði allt litrófið á mill svarts og hvíts. Hann var einlægur hugsjónamaður varðandi réttarbætur handa svertingjum og afar lipur í samningaviðræðum og samskiptum.
Á hinn bóginn var hann grófur og ruddalegur sóðakjaftur þegar svo bar undir og þótti slóttugur með afbrigðum.
Þótt mestöll dýrðin af réttarbótum í mannréttindabaráttu blökkumanna léki í kringum John F. Kennedy var það samt Johnson sem með sinni miklu slægð og lagni kom mestu af því í verk.
Hefur líkast til enginn Bandaríkjaforseti á síðustu öld afrekað jafn miklu á því sviði.
Fáir hafa staðið Johnson á sporði hvað varðar snilldi í hrossakaupum og baktjaldamakki á Bandaríkjaþingi og þótti hann ekki alltaf vandur að meðölum.
Þar var staða hans svo sterk, að Kennedy valdi hann sem varaforsetaefni sitt þótt hann hefði litlar mætur á persónu hans.
Þegar komið var í Hvíta húsið settu Kennedybræður Johnson út í kuldann, svo að eftir var tekið.
Ekki er að efa að Johnson hafi sviðið það að hafa verið hent eins og notaðri tusku eftir kosningarnar.
Þegar allt þetta er haft í huga er eðlilegt að margir hafi grunað hann um græsku vegna morðsins í Dallas í sjálfu heimaríki Johnsons.
Sé það rétt, sem Jackie Kennedy heldur fram, að Johnson og hópur auðjöfra frá Texas hafi bruggað Kennedy banaráð, voru það líklega mistök hjá Kennedybræðrum að setja hann svona rækilega út í kuldann sem varaforseta, ekki hvað síst ef Johnson hefur talið sig sjá það fyrir að Robert Kennedy ætlaði að taka við af bróður sínum 1968 og sitja þá til 1976.
Johnson hefur vafalaust talið John Kennedy hafa skuldað sér þakkir fyrir þann greiða að stuðla að kjöri hans 1960 og verið afar sár og bitur.
Johnson var veill fyrir hjarta og gat ekki vænst þess að vera í fullu fjöri 1976, enda dó hann 1973.
Kennedyarnir máttu alls ekki vanmeta Johnson heldur búast við hverju sem væri af hans hendi.
Hvað snertir framhjáhöld forsetahjónanna er þar ekki um sérstaklega nýjar fréttir að ræða. Er ljóst að Jackie heldur aldrei getað komist með tærnar í þeim efnum sem þeir bræður höfðu hælana, - eða eigum að segja ekki komist tærnar þar sem þeir bræður höfðu brækurnar.
Taldi að Johnson hefði myrt JFK | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég er nú ekki viss um það að Johnson hafi verið einhver sérstakur hugsjónamaður í baráttunni fyrir réttindum svertingja.
Eitt sinn sagði hann: I’ll have those niggers voting Democratic for the next 200 years.
Það er spurning hvort setningin hafi verið lipurlega sögð eða ruddaleg.
Þórhallur (IP-tala skráð) 9.8.2011 kl. 01:02
Mig minnir að Johnson hafi verið tilbúinn að taka forsetasæti Kennidys innan við klukkutíma eftir morðið! Það vakti athygli! Ég man líka að þegar ég var barn (fæddur 1960) fór um mig kuldahrollur á sjá smettið á Johnson á mynd eða skjá. Bragð er að þá barnið finnur! Furðuleg leynd hvílir líka yfir skjölum varðandi morðið (mig minnir heild öld)! Upp komast svik um síðir!
Hrúturinn (IP-tala skráð) 9.8.2011 kl. 01:36
LB Johnson 'einlægur hugsjónamaður' Ómar. Kanntu annan?
LB var einn mesti gangster sem Texas hefur alið - og hafa þeir þó margir komið frá 'The Great State of Texas', smbr. t.d. George W Bush.
Þetta var harðsvírarður glæpamaður af verstu sort og hefði passað vel inn í íslenska fjórflokkinn.
Það færi betur að þú kynntir þér söguna í stað þess að semja hana Ómar.
Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 9.8.2011 kl. 01:39
Ég sé satt best að segja ekki hvers vegna LBJ getur ekki hafa verið bæði "gangster" og hugsjónarmaður, bæði séð haginn í því að veita svörtum réttarbætur og réttlætið. Þetta hljómar vissulega þversagnakennt en í raunveruleikanum þá er fólk svoleiðis.
Óli Gneisti (IP-tala skráð) 9.8.2011 kl. 10:35
Þetta minnir mig annars á atriði úr sjónvarpsmynd (eða míníseríu) um LBJ þar sem mig minnir að Randy Quaid hafi leikið hann. Þar voru LBJ og mótframbjóðandi hans að skiptast á skotum um kosningasvindl og annar þeirra segir "Í austur-Texas er fólk svo hrifið af mótframbjóðanda mínum að þeir mæta snemma og kjósa hann síðan aftur og aftur" en hinn svaraði "í vestur-Texas elska menn mótframbjóðanda minn svo mikið að dauðir rísa til að geta kosið hann".
Óli Gneisti (IP-tala skráð) 9.8.2011 kl. 10:41
Það er staðreynd, Hilmar Þór, að Johnson kom meiru til leiðar í mannréttindamálum í Bandaríkjunum en nokkur annar forseti.
Hvernig gat hann það ef hann var ekki trúr þeirri hugsjón? Og hví skyldi þessi litríki persónuleiki ekki hafa lumað á bæði góðu og vondu? Það er svo margt sinnið sem skinnið.
Johnson sór ekki eið sem forseti Bandaríkjanna fyrr en um borð í "Air Force one" á leið til Washington. Ég á erfitt með að sjá neitt grunsamlegt við það og efast um að það hafi verið aðeins hálftíma eftir morðið.
Þess ber að gæta að þegar svona gerist verður að hafa hraðar hendur til þess að landið sé ekki án æðsta embættismannsins.
Ómar Ragnarsson, 9.8.2011 kl. 22:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.