17.8.2011 | 21:30
Sinnuleysi um mestu verðmæti Íslands.
Íslendingar hafa verið mörgum áratugum á eftir öðrum þjóðum í umhverfis- og náttúruverndarmálum.
Þingvellir voru friðlýstir sem þjóðaraeign 1928 en það var ekki fyrr en meira en 60 árum síðar sem fyrsti íslenski þjóðgarðsvörðurinn fór til útlanda til að kynna sér rekstur þjóðgarða. Það var Steingrímur Hermannsson sem beitti sér fyrir því að séra Heimir Steinsson færi til Yellowstone í þessu skyni.
Íslendingar undirrituðu að vísu Ríósamninginn um sjálfbæra þróun og það að náttúran skyldi njóta vafans en sú undirskrift hefur ekki verið pappírsins virði, enda hefur þess verið vandlega gætt að þegnar landsins hefðu ekki hugmynd um hvað þessar skilgreiningar þýddu.
Þegar ég kom til Íslands eftir fyrstu ferðir mínar um þjóðgarða og virkjanasvæði erlendis 1999 var ég í áfalli, svo miklu, að ég íhugaði að flytja af landi brott frekar en að horfa upp á það ástand sem ríkti hér heima.
Áfallið var enn meira fyrir þá sök að ég stóð frammi fyrir því að hafa gersamlega vanrækt og brugðist frumskyldu fjölmiðlamannsins sem er sú að kanna mál í víðu samhengi og koma þeirri vitneskju á framfæri.
Umgengnin og sinnuleysið gagnvart hellum landsins, sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is er ein birtingarmynd þess á hvaða stigi við erum.
Á sínum tíma sveið Jónasi Hallgrímssyni hvernig komið var fyrir menningu, sjálfstæði og reisn afkomenda landnámsmanna Íslands og orti mögnuð ljóð til þess að stugga við sofandi þjóð sinni.
Hann hafði legið tæpa öld í gröf sinni þegar afrakstur herhvatar hans varð að veruleika, því að sjálfstæðið, sem þjóðin hafði misst, var þó, þrátt fyrir allt, afturkræft.
Því miður höfum við ekki nándar nærri svona mikið svigrúm varðandi helstu náttúrugersemar Íslands, vegna þess að eyðilegging þeirra er langoftast óafturkræf á því augnabliki sem hún er framkvæmd.
Hjalladal með hjöllum sínum, gróðurlendi, fossum og gljúfrum, verður aldrei hægt að fá aftur vegna þess að dalurinn fyllist hratt upp af aurframburði Jöklu og Kringilsár.
Nýrunnið hraunið á Gjástykkis-Leirnhnjúkssvæðinu verður ekki hægt að færa í fyrra horf eftir að jarðýturnar hafa mulið það niður.
Eitt af því sem vandlega er sneytt hjá að fjalla um varðandi náttúruvernd er hugtakið "afturkræft" og "endurnýjanlegt".
Fáfræði um helstu hugtök umhverfismála er landlæg hér á landi og sjálfur uppgötvaði ég það eftir að hafa verið að flækjast um fjöll og firnindi þessa lands áratugum saman að ég hafði allan tímann verið skelfilega fáfróður um þessi efni, "fjallheimskur" í þess orðs fyllstu merkingu.
Náttúrufyrirbæri á heimsvísu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ef þú hefðir verið hér fyrir þegar Ingólfur Arnarson kom hvar hefðir þú leift honum að byggja,varla við Faxaflóa?
gissur jóhannesson (IP-tala skráð) 17.8.2011 kl. 21:49
Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að æska landsins væri mestu verðmæti Íslands! Mestu eyðileggingar- og niðurrifsöfl Íslands er náttúran sjálf; vatns- og vindrof, eldgos og sjávargangur, en auðvitað þarf Ómar að njóta vafans eins og venjulega.
Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 17.8.2011 kl. 23:06
Hvar værum við án þín Ómar.
Sigurður Haraldsson, 18.8.2011 kl. 00:57
Kommon gissur og Hilmar. Þið hljótið að sjá mun á því að byggja borg á sléttum Patagóníu og Torres del Paine? Á sprengisandi eða Dimmuborgum? Við faxaflóa eða á Þingvöllum? Og þið hljótið að sjá mun á eyðileggingu sprengigosa og kjarnorkusprengja.
Athugið að náttúruleg eyðileggingaröfl eru sömu öflin og hafa mótað jörðina í núverandi mynd. Á meðan kjarnorkusprengjur hafa ekkert mótað nema sorg og kertafleitingar og kárahnjúkavirkjun hefur ekkert mótað nema peninga og steipuklump þá hafa sprengigos mótað fyrirbæri eins og Yellowstone og Dunau Toba og loftsteinar hafa hrundið framrás spendýra í gagn (umdeilanlegt hvort það hafi verið góður hlutur). Mannlegur harmleikur (eins og kárahnjúkavirkjun) er ekki það sama og náttúrulegur harmleikur (eins og útdauði risaeðla)
Rúnar (IP-tala skráð) 18.8.2011 kl. 01:01
En til hvers að hafa þessa hella og aðrar nátturuperlur ef við megum ekki skoða þær?
Nátturuundur eru ekki fyrir nátturuna að njóta, eru þau ekki eingöngu til einhvers fyrir okkur mannfólkið?
Teitur Haraldsson, 18.8.2011 kl. 19:35
Til hvers að leyfa öllum að skoða einstæðan helli ef það verður til að hann eyðileggist?
Til hvers að hafa hinn einstæða stað, Gjástykki-Leirhnjúk, þar sem hægt er að standa í sporum marsfara framtíðarinnar eða sjá eina staðinn í heiminum þar sem sjá má meginlöndin færast í sundur og nýtt land koma upp, ef búið er að umturna svæðinu með borholum, gufuleiðslum, háspennulínum og stöðvarhúsi?
Í Yellowstone má sjá hvernig tvær milljónir manna skoða náttúruperlur án þess að skemma þær. Ekki er talið nauðsynlegt að virkja einn einasta hver eða lítra af fallvatni til þess að standast straum af þessu.
Slík væri vel hægt á svæðinu Gjástykki-Leirhnjúkur en í staðinn er aðgengi frá Kröflu að svæðinu haldið lokuðu með keðju, af því að hér á landi er talið að eina leiðin til að skapa aðgengi að honum sé að umturna honum fyrst fyrir virkjun, sem gefið gæti 20-30 störf í álveri í 70 kílómetra fjarlægð.
Ég fullyrði að nýting svæðisins á borð við það sem gert er í Yellowstone myndi getað skapað mun fleiri og verðmætari störf.
Ómar Ragnarsson, 18.8.2011 kl. 20:07
Undanfarin 20 sumur hefi eg verið á ferð um landið okkar með þýskumælandi ferðamenn. Það er alltaf mjög áhugavert að „upplifa“ íslenska náttúru með þessu ágæta fólki sem mörgu finnst við mjög undarlegir hvað viðhorf til náttúruverndar áheyrir. Mörgum Íslendingum finnst sjálfsagt að fórna fossum og fögrum stöðum í þeim tilgangi að afla orku í þágu stóriðju. Nú er t.d. Dynkur í Þjórsá nánast dauðadæmdur, - sjáum við þar að baki einum fegursta fossi landsins fyrir nokkrar krónur í þágu stóriðjudraugsins.
Ef minnst er á að gróðursetja t.d. tré í Skaftáreldahraun til hagsbóta Skaftfellingum og öðrum landsmönnum þá verða margir mjög hneykslaðir. Fyrir nokkru var eg á ferð um Skaftáreldahraun og geri stuttan stans við gróðurreit Guðmundar Sveinssonar í hrauninu, skammt vestan við leiðina inn að Laka. Nú er stafafuran byrjuð að sá sér út um allt og greinilegt er að þetta er mjög dugleg trjátegund. Einn í hópnum, embættismaður í einu af ráðuneytunum í Berlín, vakti athygli mína á því, að ekki væri að sjá að Íslendingar hefðu neitt gagn af þessu gríðarlega hraunflæmi, sem sennilega vekur engar góðar minningar nema síður sé. Þarna væri greinilega unnt að rækta mikinn og arðsaman skóg, héraðinu til mikils gagns og nytja. En viðhorf margra landsmanna til skógræktar einkum erlendra trjátegunda byggist oft fremur á tilfinningalegum rökum en raunsæi. Við erum alls ekki að eyðileggja síðasta útsýnisstaðinn með skógrækt.
Furðulegt má það heita að sennilega er auðveldara að fá leyfi að byggja og reka álbræðslu en að halda hreindýr í gerði til að sýna ferðamönnum. Oft er eg spurður, meira að segja þráspurður hvar unnt sé að skoða hreindýr á Íslandi. Einu staðirnir eru í Klausturseli og er það töluverður krókur þegar ekið er um Jökuldal eystra. Sjaldan gefst tækifæri að fara króka enda ferðaáætlun oft nokkuð stíf. Hinn staðurinn er Húsdýragarðurinn í Reykjavík og halda flestir að verið sé að hafa fólk að fíflum að segja frá því!
Við Íslendingar þurfum að hugsa margt upp á nýtt. Ferðaþjónustan þarf mun meira olnbogarými en henni hefur verið ætlað. Stóriðjan hefur því miður gengið fyrir, rétt eins og vissir stjórnmálamenn vilji fremur að hún dafni og vaxi sem mest, en þá á kostnað annarra atvinnuuppbyggingar í landinu.
Góðar stundir!
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 18.8.2011 kl. 22:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.