Réttar tölur uppi á borðinu!

Ef Alþingi samþykkir þingsályktun um Rammaáætlun um virkjun vatnsafls og jarðvarma þar sem 20 hugsanleg virkjanasvæði verða sett í verndarflokk hefur unnist stærsti áfanga-varnarsigurinn í íslenskri náttúruverndarbaráttu.

Verndun Þjórsárvera og björgun fossanna fyrir neðan þau að mestu (búið er að taka 30- 40% af þeim) markar endalok 40 ára baráttu. Ég á mér samt þann draum að opnast muni síðar möguleikar til að láta Dynk, flottasta stórfoss Íslands, fá aftur aflið sem haf honum hefur verið tekið.

Þegar hins vegar er sagt að 22 séu í "nýtingarflokki" (rangnefni, nýting getur líka falist í verndun, samanber Gullfoss) gleymist að þegar hafa 28 stórar virkjanir litið dagsins ljós á Íslandi og þar með er meiri hluti allra virkjanakosta (50 af 97) kominn inn á borð virkjanafíklanna.

Skiptingin hefur nefnilega hingað til verið í svipuðum dúr og þegar uglan skipti ostbitanum í dæmisögunni góðu, - það er alltaf látið í veðri vaka að skiptingin sé jöfn þótt þegar sé búið að taka bróðurpartinn til annars aðilans. 

En hlutfall verndaðra svæða er enn minna en ofangreindar tölur sýna, því að enn á eftir að taka 32 virkjanakosti til meðferðar. 

Alls 129 kostir, þar af 50 með grænt ljós, búið að virkja eða á að gera það. 

28 þegar virkjaðir. 

22 í "nýtingarflokki"

27 í biðflokki

32 óafgreiddir

20 í verndarflokki. 

Af þessu sést að af 129 kostum gerir þingsályktunin aðeins ráð fyrir að 20 verði settir í verndarflokk eða aðeins 15,5 % 

Ekki hefur fengist fram vernd á Skaftársvæðinu, heldur það sett í biðflokk. Það er slæmt, þótt slagurinn sé ekki endanlega tapaður. 

Og meðal þeirra kosta sem á eftir að fjalla um eru Askja, Kverkfjöll og fleiri af allra helstu náttúruundrum Íslands. 

Þótt Gjástykki sé í orði bjargað, fer það eftir skilgreiningu hvort eldstöðvunum frá Kröflueldum er í raun bjargað, því að virkjanafíklar nota sér úrelta skilgreiningu landamerkja til að fá það fram að virkja í Vítismó, sem sannanlega er óaðskiljanlegur hluti í þeirri landslagsheild, sem Gjástykki-Leirhnjúkur er. 

Vítismór er núna flokkaður undir viðbót við Kröfluvirkjun og fær grænt ljós! 

Af fréttum má ráða að ekki eigi að virkja á Torfajökulssvæðinu en samt er óákveðið með Reykjadalli, sem eru hluti af þeirri landslaugsheild.

Nú þarf aðeins að hnykkja á því að framkvæma ályktun landsfundar Samfylkingarinnar um að allt ósnortna svæðið milli Suðurjökla (Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls) og Vatnajökuls verði friðað. 

Virkjun Hólmsár og Skaftár yrði inni á þessu svæði og því má það ekki gerast að ráðist verði í þær.

Þegar Bretum tókst á ævintýralegan hátt að bjarga 338 þúsund hermönnum yfir Ermasund úr herkví í Dunkirk vorið 1940 í stað þess að þeir féllu í hendur Þjóðverjum fögnuðu margir þessu óvænta kraftaverki. 

En Churchill sagði eitthvað á þá leið að óvæntum höppum í undanhaldi bæri að vísu að fagna en jafnframt hafa í huga að "ekkert stríð vinnist með vel heppnuðu undanhaldi".   

Enn hefur 101 af 129 virkjanakostum Íslands ekki verið slegnir af, eða 84,5%. Ef einhver heldur að baráttan fyrir íslenska náttúru sé á enda er það mikill misskilningur, rétt eins og það reyndist mikill misskilningur að vel heppnað undanhald frá Dunkirk 1940 hefði tryggt sigur yfir nasistum. 


mbl.is Samstarfinu við AGS lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Soldið barnalegar yfirlýsingar hjá Árna Finnssyni í fréttum áðan.

.

Fannst ótrúlegt að sjá að Hrúthálsar og Fremri-Námar eru ennþá inni á Rammaáætlun.

Ég sé ekki fyrir mér virkjanir, vegi og tilheyrandi háspennulínur í kálgörðunum hjá þjóðarfjallinu, Herðubreið, takk fyrir!

Hrútur (IP-tala skráð) 19.8.2011 kl. 21:07

2 Smámynd: Hörður Einarsson

ÞÚ; Ómar ættir ekki að tjá þig um náttúru eða verndun hennar. Ég hef fylgst með bloggi þínu um tíma og er kominn á þá skoðun að, ÞÚ ættir EKKI að tjá þig um nein málefni, af neinu tagi.

Þú telur þig "SÉRFRÆÐING" á öllum sviðum hvort sem um er að ræða náttúru eða eitthvað annað. Lokaðu þínu bloggi og láttu þínar skoðanir vera fyrir þig, Það er með þig og þína líka, að, allt sem þið tjáið ykkur um, getur ekki orðið til annars en að við verðum að flytja aftur í moldarkofana og kaupa okkur Kerti. "kanski gerð úr hval-lýsi.

Hörður Einarsson, 20.8.2011 kl. 00:11

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

En hvað það er gaman að heyra gömlu rökin um að ég og mín skoðanasystkin viljum að við flytjum aftur inn í torfkofana.

Nú um stundir framleiðir þjóðin fimm sinnum meira rafmagn en hún þarf til venjulegra nota og til stendur að framleiða tíu sinnum meira en við þurfum sjálf. 

Þeir sem gera athugasemdir við þetta og vilja fara hægar eru taldir vera á móti rafmagni. 

Það er skoðanafrelsi í þessu landi og ég hef sama rétt og þú, Hörður til að tjá skoðanir mínar. En þú virðist vera í flokki með þeim sem vilja þagga niður í þeim sem ekki hafa "réttar skoðanir! og hafa stundum náð allmiklum völdum í stórum löndum. 

Ef þú vilt að bloggsíðu minni verði lokað skaltu færa fyrir því rök og leita til þeirra sem standa að blog.is en þeir geta lokað einstökum bloggsíðum ef þeir telja ástæðu til. 

Ég hef aldrei talið mig "SÉRFRÆÐING" á neinu sviði eins og þú staðhæfir og ef aðrir dómar þínir um innihald bloggsíðu minnar og skrif mín eru eftir þessu þarftu bitastæðari rök fyrir því að svipta mig skoðanafrelsi. 

Ómar Ragnarsson, 20.8.2011 kl. 14:05

4 Smámynd: Gísli Gíslason

Ég er nú ekki alltaf sammála Ómari en mér finnst orð og innlegg hans góð og raunar nauðsynleg bæði í þessari umræðu sem og mörgu öðru í okkar samfélagi.  Ólík sjónarmið og gagnkvæm virðing á ólíkum sjónarmiðum er forsenda þess að samfélagið komist að góðri niðurstöðu.  Ég vona að Rammaáætlunin sé grunnur að því að sátt náist um virkjana kosti. 

Gísli Gíslason, 21.8.2011 kl. 00:48

5 Smámynd: Jón Óskarsson

Hver er skoðun þín Ómar á vindorku ?   Af nægu er að taka í okkar vindasama landi.   Því miður koma ný rök fram gegn þessu þar sem menn taka um sjónmengun.   Mér finnst það reyndar alveg með ólíkindum þar sem velja má nútímalegum vindmyllum þannig staði að þær séu ekki áberandi, auk þess sem nútímalegar vindmyllur hafa það útlit að vera ekki óþarflega áberandi.

Jón Óskarsson, 26.8.2011 kl. 15:36

6 identicon

Það má gera vinmyllubúgarð á Merakkasléttu.  Engin missir þar.  Ásamt stórri höfn fyrir öll skipa umsvifin sem munu stór aukast þegar norð austur leiðin verður opin allt árið um kring.
Tölum nú ekki um Olíuna sem er fyrir austan.  Hafa þetta allt saman á sléttunni og vandamálið er laust.

Nema að auðvitað að græningjarnir verði alveg brjálaðir yfir því að hafa sjónmengun yfir allri þessari "fallegu" möl :D

Og eitt er víst að EF að við viljum auka störf hér á landi OG þá á ég við föst störf til framtíðar.  Þá verðum við að virkja.  Það er nú bara þannig.  Alveg sama hvað það er þá verður að búa til rafmagn til að skapa störf.  Mér er andsk. sama hvaðan raforkan kemur.  Hún þarf að koma.  Svo einfalt er það.

Jón Ingi (IP-tala skráð) 26.8.2011 kl. 17:54

7 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Ómar.

Þú mætti hringja inn í Þjóðvakaarm Jóhrannars og spyrja um borðið sem allt átti að vera uppá.

Óskar Guðmundsson, 26.8.2011 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband