21.8.2011 | 13:18
"Þegar Bryndís fánann fellir..."
Það er ekki nýtt fyrirbæri að flaggað hafi verið flíkum á fánastöngum. Ég veit um tvö dæmi þess.
Einhvern tíma á áttunda áratugnum kom ég fljúgandi ofan af hálendinu til Akureyrar og þurfti að hafa hraðann á við setja bensín á vélina og halda sem snarast áfram suður.
Á hálendinu hafði ég farið í ullarnærfatnað og fór úr honum í flýti á Akureyrarflugvelli og flaug síðan rakleiðis upp í Kerlingarfjöll.
Þegar ég var á bakaleiðinni náði ég sambandi við flugturninn á Akureyri, en æringinn Húnn Snædal var þá á vakt.
Húnn sagði mér að hann ætlaði að flagga í tilefni af væntanlegri komu minni.
Ég taldi það nú fullangt gengið en hann sagðist samt ætla að gera þetta og að ég hefði enga ástæðu til að vera vanþakklátur. Ég sagðist ekki skipta mér af þessu, hann hefði völdin á vellinum.
Þegar ég kom inn til lendingar brá mér í brún. Húnn hafði dregið bláleitar síðar ullarnærbuxur að húni á flaggstönginni og sá ég það þetta voru nærbuxur sem ég hafði gleymt í flýtinum nyrðra fyrr um daginn!
Húnn sagðist hafa gert þetta af geiðasemi við mig svo að ég gleymdi nærbuxunum ekki öðru sinni og ég þóttist vita að það hlakkaði í honum að geta svarað forvitnum flugfarþegum, sem komu til flugstöðvarinnar, um það hvers vegna þessi viðhöfn væri höfð.
Í þætti hjá Hemma Gunn á sínum tíma kom fram að Jón Baldvin Hannibalsson hefði gert það sér til gamans eitt kvöld í Edinborg að draga nærbuxur Bryndíar Schram að húni á flaggstöng við Edinborgarkastala.
Þegar hagyrðingurinn Jóhannes Benjamínsson heyrði þetta gerði hann tvær eftirfarandi stökur á stundinni, og skal tekið fram að ekki er víst að ég muni þá fyrri þeirra nákvæmlega upp á orð:
Ástir krata ættu´að skána,
einkum þó hjá þessum hrók,
ef hann notar fyrir fána
frúar sinnar undirbrók.
Voðalegir verða smellir.
Víst er þetta herleg sjón:
Þegar Bryndís fánann fellir
flaggstöngina reisir Jón.
Flaggaði flík um miðja nótt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.