Margar hliðar á þessu máli.

Það eru margar hliðar á því máli að kínverskur auðjöfur hafi keypt eina af landmestu jörðum Íslands, Grímsstaði á Hólsfjöllum.  

Ég heyri eðlilega miklar tortryggnisraddir hjá ýmsum. 

Hlálegt er samt að heyra suma tala á þennan veg, sem áður hafa talið sjálfsagt að þegar virkjanaframkvæmdir valda mestu óafturkræfu umhverfisspjöllum fyrir álver sé það hið besta mál í raun afhendum við útlendum auðfyrirtækjum gríðarleg náttúruverðmæti til eyðileggingar og heilu landshlutana til orkuöflunar. 

Því að ágóðinn af til dæmis álveri rennur út úr landinu og er margfalt meiri en nemur ávinningi okkar í orkusölu og störfum við álverið. 

Kínverjar eru stórveldi sem hagar sér líkt og stórveldi hafa alltaf gert. Kínverskir auðmenn eru ekkert öðruvísi en aðrir auðjöfrar. Í landinu ríkir alræðisstjórn. 

Um daginn sóttu tíu Kanadamenn um ríkisborgararétt og vildu kaupa hér nýtingarrétt á orku landsins.  Báru fyrir sig ást á landinu og miklum umhverfishugsjónum.

Farsakennt viðtal við talsmann þeirra í Kastljósi varð til þess að ekki hefur heyrst um þetta síðan. 

Fyrir alþjóðleg risafyrirtæki og stórveldi er Ísland með sínar rúmlega 300 þúsund hræður auðveld bráð.  Hér á landi er reynsla fyrir því hve auðvelt er að kaupa sveitarstjórnir og landeigendur.

Þetta verður að hafa í huga þegar sú þróun sýnist vera að hefjast að erlent auðræði seilist til þess að eignast land okkar og auðlindir þess. 

Á hinn bóginn er það grátlegt að það skuli vera útlendingur hinum megin af hnettinum sem setur fram og sér þá möguleika sem felast í varðveislu íslenskra náttúruverðmæta og ferðaþjónustu sem tengist hinni einstæðu ósnortnu náttúru landsins. 

Ég hef um áraraðir reynt að benda á þessa möguleika, nú síðast varðandi svæðið Leirhnjúkur-Gjástykki en talað fyrir daufum eyrum og fengið að heyra háðsglósurnar um "eitthvað annað", "fjallagrös" og "lopapeysur. 

Varðandi möguleika til vetrarferða á þessu svæði hafa menn haft allt á hornum sér. "Það rignir oft í Mývatnssveit á veturna og jörð auð" er ein staðhæfingin hjá þeim, sem virðast aldrei hafa farið norður í Gjástykki að vetrarlagi eða horft yfir svæðið þegar það er alhvítt allan veturna þótt autt geti verið á köflum við Mývatn. 

"Grímsstaðir á Fjöllum eru í 400 metra hæð yfir sjó. Það er svo oft kalt þarna. Þetta er svo langt frá Reykjavík." 

Slíkar mótbárur eru færðar fram og sömuleiðis hvað það taki langan tíma að byggja upp ferðaþjónustu.  Það sé nú munur heldur en þegar undirritað sé samkomulag um virkjanaframkvæmdir og álver. Þá hefjist þegar í stað peningaþensla, jafnvel ári áður en framkvæmdir hefjast. 

Ég hefði kosið að hinn kínverski fjárfestir hefði haft þetta svipað og til dæmis Friðrik Pálsson hefur þetta á Hótel Rangá. Hann keypti ekki jörðina Lambhaga en rekur sína ferðaþjónustu af myndarbrag og dugnaði öllum til hagsbóta. 

Ef Kínverjinn hefur svona mikla trú á ferðaþjónustumöguleikunum þarna, bæði að vetri og sumri, af hverju þarf hann að kaupa heila jörð? 

Fyrirfram hefðu fáir talið það mikið vit að hafa lúxushótel "uppi í sveit" eins og Hótel Rangá er í sumra augum. 

Staðreyndin er nefnilega sú að ríkir fjáraflamenn og fyrirtæki hafa í rólegheitum verið að komast yfir heilu dalina og sveitirnar hér á landi með landakaupum. 

Oft er erfitt að henda reiður á hverjir eru hinir raunverulegu eigendur heilla landssvæða og getur verið stutt í það að menn vakni upp við það að útlendingar hafi eignast bestu landssvæði og auðlindir okkar. 

Því miður höfum við farið þannig að ráði okkar og farið þannig með land okkar og náttúruverðmæti að af tvennu sé skárra að útlendingur með skilning á varðveislu og verndu eigi þau heldur en að Íslendingar níði þessi verðmæti og skemmi. 

Það er hin mikla mótsögn okkar tíma. 

 


mbl.is Tugmilljarða fjárfesting á Fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Æ já Ómar minn stundum fyllist maður vonleysi að vita hvað stjórnvöld á hverjum tíma eru miklir kjánar í sambandi við erlenda fjárfesta.  Sennilega þarf þegar við loksins höfum vit á að gera rétt eins og Mugabe forseti taka til okkar eignir auðvaldsins til þess að nýta þær fyrir þjóðina.  Það koma þeir dagar það er nokkuð víst, því alltaf þrengir að matarbirgðum fyrir jörðina okkar, og það eigum við miljón möguleika.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.8.2011 kl. 00:22

2 Smámynd: Dexter Morgan

Og áður en við vitum að verður hann búinn að virkja á þessu svæði, enda hans landareign og hluti af því að gera þetta "lúxushótel" arðbært og enginn getur sagt neitt við því.

Íslendingar eru sannalega kjánar í þessum efnum, nú var frétt um það að ekki megi byggja laxastiga eða rennu við einhvern steinboga í Jöklu. Náttúruverndarráð bannaði það. En það mátti reisa heilt skrímsli rétt ofan við þenna stað sem við þekkjum sem Kárahnjúkastíflu. Íslendingar eru klikk...

Dexter Morgan, 26.8.2011 kl. 00:31

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Þvílík hræsni!!!!

Fyrir nokkrum vikum pissar Ómar Ragnarsson á sig þegar rasisti drepur nokkra tugi ungmenna í Noregi. Vissulega út úr öllu korti. Í Evrópu er hins vegar gagnrýnt m.a. af Merkel kanslara Þýskalands, að fólk utan Evrópu taki sér bólfesu, án þsss að ger tilraun til þess að aðlagsast samfélögunum. Þessa gagnrýni kalla margir jafnaðarmenn, m.a. hérlendis sem rasimsma. Ómar Ragnarsson gagnrýndi morðin í Norgegi á grundvelli andstöðu við hugmyndafæði fjölþjóðamenningarinnar.

Svo líða nokkrar vikur og þá gerist kínverji sekur um að fjárfesta á íslandi. Þvílík synd og skömm. Nú veit ég ekki hvort þessi kínverji er skáeygður, sem hann sjálfsagt er, en hann gæti líka verið svartur og það væri eflaust til  þess að glæpurinn væri fullkomin. Þetta blogg sannfærir mg um að Ómar Ragnarsson er endanlega genginn í samfylkinguna. 

samfylkinginarfélagar hafa lengið haft sérstakt hatur á bændum, sjómönnum, landsbyggðarmönnum og nú kínverjum. 

Ómar Ragnarsson þú ættir að skammast þín!!!  

Sigurður Þorsteinsson, 26.8.2011 kl. 01:09

4 identicon

Það verður víst ekki hjá því komist að fasistar kommenteri á opnar síður. Við hin erum hinsvegar ekki í vafa um hver það er sem á að skammast sín.

Sauðarhaus (IP-tala skráð) 26.8.2011 kl. 06:06

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sauðarhausar eru ekki verri en aðrir hausar. Þeir mættu vera fleiri á Íslandi.

Árni Gunnarsson, 26.8.2011 kl. 08:36

6 identicon

Ég tel litlar líkur á að kínverjinn sé eitthvað verri en td útrásarvitleysingar og elíta íslands.
Vonandi verður þetta okkur öllum til hagsbóta.

DoctorE (IP-tala skráð) 26.8.2011 kl. 10:04

7 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það kemur ekki á óvart að fjárfestir sem sérhæfir sig í ferðaþjónustu hafi áhuga á að byggja upp á þessu svæði. Og engar líkur eru á að hann vilji fara að virkja eitthvað enda þarf hann væntanlega að greiða markaðsvexti af þeim lánum sem hann tekur og einbeitir sér því að arðbærri starfsemi.

Þorsteinn Siglaugsson, 26.8.2011 kl. 11:17

8 Smámynd: Landfari

Ég verð nú að taka undir með Ómar að mér liði betur ef núnginn hefði tekið svæðið á leigu en ekki keypt það. Eins og gengið er núna er ekki stór mál fyrir suma erlenda auðjöfra að hreinlega kaupa upp landið. Fyrir þessa al ríkustu skiptir reyndar engu máli hvernig gengið er.

Landfari, 26.8.2011 kl. 11:25

9 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það hefur verið mikið haldið á lofti gæðum þessa Kínverja. Hvort satt er veit ég auðvitað ekki en hitt veit ég að menn verða ekki milljarðamæringar af gæðunum einum saman. Það þarf ref til að safna svo miklu fé og oftast beyta þeir menn frekar óhefðbundnum aðferðum til þeirrar söfnunar. Það eru tiltölulega fá ár síðan kínverjar gátu farið að safna sér fé, áður var allt í eigu ríkisins. Því má ætla að maðurinn hafi auðgast á skömmum tíma.

Ekki vil ég halda fram að auðsöfnun hans sé með svikum fengin en hitt er ljóst að eitthvað hefur valdið því að hann á milljarða og ekki er það af gæskunni einni saman.

Gunnar Heiðarsson, 26.8.2011 kl. 11:44

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mér sýnist viðræðurnar um þennan Kínverja stefna í að vekja upp þá ályktun að kannski hefðum við átt að hafa manndóm til að taka umræðuna um erlenda fjárfesta og innflytjendur. Og líklega hefðum við átt að hafa manndóm til að klára þá umræðu með niðurstöðu.

Mig rekur minni til þess þegar frambjóðendur Frjálslynda flokksins gerðu þessa tilraun í aðdraganda kosninga og fengu rasistastimpilinn umbúðalaust og án þess að koma vörnum við. 

Það stefndi nefnilega í dágott fylgi í skoðanakönnunum og andstæðingar flokksins nýttu sér þá hysterisku sveiflu sem þeim tókst að vekja á skömmum tíma.

Hvergi örlaði þó á kynþáttahyggju. Það var aðeins bent á það að við Íslendingar værum ekki á nokkurn hátt við því búnir að taka við þessu fólki með sóma.

Og þá var átt við sóma innflytjenda sem og okkar sjálfra, jöfnu báðum.

Steingrímur J. Sigfússon afgreiddi okkur frjálslynda í fyrsta sjónvarpsspjalli eftir kosningar.

Frjálslyndir væru "ekki stjórntækir fyrir sakir afstöðunnar í garð innflytjenda".

Árni Gunnarsson, 26.8.2011 kl. 13:07

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já Árni það svíður ennþá undan þessari lygi og andstyggilegheitum. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.8.2011 kl. 13:29

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég bið Sigurð Þorsteinsson afsökunar á því að ég skil hvorki upp né niður í bloggpistli hans.

Ómar Ragnarsson, 26.8.2011 kl. 13:35

13 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

,,Ég bið Sigurð Þorsteinsson afsökunar á því að ég skil hvorki upp né niður í bloggpistli hans."

Tek undir það.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 26.8.2011 kl. 14:01

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það kom líka í ljós í viðtali í dag að hann ætlar að bora eftir heitu vatni til og með.  Svo menn ættu að tala varlega um að hann sé ekki að hugsa um slíkt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.8.2011 kl. 16:02

15 identicon

Sigurður Þorsteinsson flokkast undir bloggmengun

Jonas kr (IP-tala skráð) 26.8.2011 kl. 17:55

16 identicon

TEK UNDIR MEÐ DEXTER MORGAN ER BLOGGAR HÉR ´´No 2,,

Númi (IP-tala skráð) 27.8.2011 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband