Eins og hjá alkanum.

Þegar áfengissjúklingurinn eyðileggur allt í kringum sig og stendur eftir í rústunum, er það oft það besta sem gat komið fyrir hann, úr því sem komið var.

Í athyglisverðu viðtali við Einar Dagbjartsson flugstjóra í Kvöldgestum Jónasar Jónassonar í fyrrakvöld sagði hann að orð fengju ekki lýst því böli, sem alvarlegt þunglyndi væri, en af því þjáðist hann orðið alvarlega síðustu árin áður en hann fór í áfengismeðferð. 

En svíðan bætti hann því við að þrátt fyrir hina hræðilegu kvöl þunglyndisins hefði hún verið það skásta sem fyrir hann hefði komið, því að vegna þess hefði hann orðið að fara í meðferðina og átta sig á hinum raunverulega vanda, sem var ekki þunglyndið, heldur áfengissýkin, sem olli þunglyndinu. 

Í þessum orðum fólst sá sannleikur sem margir alkar hafa sagt frá, að megingrundvöllur áfengissýkinnar er afneitunin og lygin að sjálfum sér og öðrumm. 

En hvað kemur þetta orðum Gyrðis Elíassonar við um að Hrunið hafi verið það besta sem gat gerst á Íslandi?  Jú, það rímar við það sem ég benti á í blogginu mínu strax eftir Hrunið, að það góða við þessi ósköp hefði verið að útilokað var að viðhalda þeirri vitleysu sem hafði viðgengist í aðdraganda þess. 

Hrunið var eina vonin til þess að menn köfuðu ofan í ástæðurnar fyrir því og höguðu sér í samræmi við þá lærdóma, sem hægt var að draga af því. 

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var dýrmæt afurð Hrunsins, en því miður virðist vera að fenna ansi hratt yfir hana og stefna í sama farið aftur, jafnvel verra, því að nú er hvað sem er afsakað með því að nú sé svo mikil kreppa að allt sé leyfilegt. 

Það yrði dapurlegt ef afleiðingar Hrunsins yrðu þær að ýta undir enn meira ábyrgðarleysi og skammsýni en olli Hruninu. 


mbl.is Hrunið það besta sem gat gerst á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband