12.9.2011 | 20:15
Eru göturnar á Vatnsendahæð "fjallvegir"?
Vegurinn yfir Ódrjúgsháls liggur upp í 160 metra hæð. Talað er um að þetta sé illfær og erfiður fjallvegur.
Það er að vísu rétt að í austanverðum hálsinum liggur vegurinn niður 16% bratta brekku með tveimur erfiðum beygjum, en auðvelt á að vera að leggja nýjan og betri veg um svonefnda D-leið yfir hálsinn, þar sem þessi erfiða spotta verður útrýmt að öðru leyti en því að ágætt væri að halda honum við sem sögulegum minjum um vegagerð.
Ef nýr vegur verður lagður um D-leiðina verður hins vegar varla hægt að kalla þetta fjallveg lengur, því að vegir og götur á Íslandi liggja á fjölmörgum stöðum í byggð þetta hátt og jafnvel hærra án þess að talað sé um fjallvegi í því sambandi.
Utan í Vatnsendahæð og Vatnsendahvarfi í Reykjavík liggja götur upp í allt að 140 metra hæð yfir sjávarmáli án þess að nokkrum detti í hug að kalla þær fjallvegi. Á Keldnaholti og Grafarholti eru götur og hús í um 100 metra hæð yfir sjó.
Vegurinn um Svínadal milli Búðardals og Gilsfjarðar liggur upp í 220 metra hæð yfir sjó án þess að maður heyri mikið á það minnst hve illfær fjallvegur hann sé.
Gerð vegarins og vegarstæðið skipta hér miklu máli.
Vegurinn um Hjallaháls liggur hins vegar upp í 332 metra hæð. Það er fjallvegur þótt hann sé ekkert sérstkaklega hár miðað við marga aðra.
Komið hefur fram að hægt sé með jarðgöngum að losa menn við fjallveginn Hjallaháls. Vestfirðingar eiga að þrýsta fast á að þau verði gerð, enda hefur verið sýnt fram á að sú lausn sé síst dýrari en að skera Teigskóg eftir endilöngu og þvera tvo firði.
Þeim sem vildu fara þá leið, sem nú er uppi á borðinu, hefur kennt um hve lengi, alltof lengi, hefur dregist að leggja nútíma veg milli Þorskafjarðar og Kollafjarðar.
En alveg eins og jafnvel frekar mætti segja að stífni hinna sem aldrei máttu heyra neitt nefnt annað en þá lausn sem mestum umhverfisspjöllum ylli, hafi valdið þessari töf.
Segja ráðherra ganga gegn vilja íbúa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Smá nudd Ómar, ég held að Vatnsendinn sé enn að mestu í Kópavogi. Fínn pistill annars.
Steini Bjarna, 12.9.2011 kl. 23:49
Ómar, er ekki besta leiðinn þarna á milli Reykjaness og Skálarness, þá komast Reykhólar í þjóðbraut vestur. Dýpið þarna á milli er innanvið 3,5m á stórstrausmfjöru nema á 10 % af leiðinni. Leiðin er örlítið lengri en milli Skálaness og Hallsteinsness. nýlagning vega er í lámarki þar sem hægt er að nota veginn sunnan á Reykjanesinu til að byrja með. Aðal verkið er í grjótgörðum og brú sem þarf að vera löng til að ráða við sjávarföllin sem eru í firðinum. Vísa á slóðina www.vegir.is þar er þessu gerð nokkurt skil.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 13.9.2011 kl. 00:06
Ég veit ekki hvort þú áttar þig á því Ómar að Vatnsendahæð er ekki á Vestfjörðum. Ég hef oft ekið um efri byggðir Reykjavíkur og sömuleiðis þessa umræddu vegi fyrir vestan. Ég líki því ekki saman. Fyrir vestan hef ég oft lent í mjög slæmu færi vegna annarskonar veðurbrigða en á Vatnsenda. Ef þú ætlar að halda trúverðuleika ættir þú ekki að bulla svona. Bókstafs- og ofsatrúarfólk gerir engum trúarbrögðum gott. Ekki heldur í náttúruverndinni. Ég vil ekki trúa því að þú sért einn þeirra. Ekki virðist svo vera þegar þú talar fyrir hálendisvegi. Kannski er þetta bara einhver náttúrurasismi í þér. Ekki sama hvar er.
Arnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 16.9.2011 kl. 16:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.