Bót í máli.

Árum saman hefur því verið haldið fram að gnægð orku í Þingeyjarsýslum tryggi það að álver geti risið á Bakka. Þótt fyrir liggi að slíkt álver geti ekki  orðið arðbært nema það framleiði 340 þúsund tonn á ári, hefur ekki mátt minnast á aðra möguleika, nema viðkomandi sé talinn "óvinur Húsvíkinga" og "á móti atvinnuuppbyggingu og móti rafmagni".

Öll þau tæplega fimm ár, sem ég hef haft á þessu opinbera skoðun, hef ég haldið því fram fyrir daufum eyrum að stóriðjustefna sem byggist á álverum sé fráleit séð frá öllum sjónarhólum og hægt sé að ná miklu betri árangri með því að velja smærri kaupendur sem skapi fleiri og betri störf á hverja orkueiningu og borgi þar að auki hærra orkuverð. 

Þar á ofan þýði álver að allri fáanlegri jarðvarma- og vatnsorku norðausturlands með tilheyrandi náttúrufórnum verði ráðstafað í einn kaupanda og eggin því öll í sömu körfunni. 

Nú loksins hillir undir það að álverastefnan sé að láta undan síga. Það er strax bót í máli ef valdir verða fleiri og smærri kaupendur og farið að öllu með gát og fyrirhyggju. 

En líklega mega áltrúarmennirnir ekki heyra á neitt slíkt minnst. 


mbl.is Landsvirkjun undirritar viljayfirlýsingar um orkusölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Stefánsson

Ég veit að almennt eru menn hlynntari því að fá fleiri smærri orkukaupendur heldur en einn stóran.

Svo er það ekki þannig að menn hafi bara viljað álver...... það var bara ekkert annað í boði og ekki um neitt annað að velja.

Ómar, manstu nokkuð eftir því þegar verið var að byggja Kárahnjúkavirkjun og þú varst að mótmæla og lagðir það til að hætt væri við framkvæmdina og að virkja frekar jarðhitann í Þingeyjarsýslu og flytja orkuna austur?

Stefán Stefánsson, 12.9.2011 kl. 20:52

2 identicon

Hér hefur orðið breyting á Ómar. Flestir, ef ekki allir, eru hættir að tala um álver, búnir að átta sig á því að slík verksmiðja er of orkufrek, miðað við þá orku sem svæðið bíður upp á og ekki síst við þau störf sem myndu skapast. Nú er útlit fyrir að minni verksmiðjur komi, með minni orkuþörf, en þó meiri verðmætissköpun. En ekki skamma okkur Húsvíkinga, við vorum börn okkar tíma, eins og þú Ómar, þegar þú varst í "childish" kappakstri (rally), tætandi upp viðkvæman gróður.

 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 12.9.2011 kl. 21:12

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Á heimasíðu Landsvirkjunar eru athyglisverðar upplýsingar sem ekki hafa verið birtar áður:

Meðaltekjur af raforkusölu til stóriðjunnar eru tæpir 27 bandaríkjadalir fyrir MW stundina. Við erum að borga 12-15 krónur fyrir kwst þannig að stóriðjan borgar nálægt 3000 fyrir MWst eða um 3 kr fyrir kwst.

Þarna er augljóst að þessi gríðarlegi munur leiðir til þess að tekjur Landsvirkjunar eru enn sem komið er að mestu frá almenningsveitum.

Rök stóriðjumanna eru þau, að rafmagnsnotkunin er nánast stöðug en ekki rokkandi eins og er í heimilisrafmagnsnotkun.

Við gætum selt gróðurhúsabændum umtalsvert magn af raforku á lægra verði en til almenningsveitna. Þar væri væntanlega um nokkuð stöðugt magn þó svo að árstíðasveiflur eru á. Gufuaflsvirkjanir eru heppilegar til að mæta slíkum sveiflum enda skerpist á gufuaflinu á vetrum. Ástæða þess er að kólnun frá yfirborði jarðar dregst verulega saman en eykst á vorin og yfir sumarið.

Góðar stundir

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 12.9.2011 kl. 23:31

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það var illskárri kostur að virkja í Þingeyjarsýslum og flytja orkuna austur en að reisa Kárahnjúkavirkjun með mestu mögulegu umhverfisspjöllum á Íslandi. 

Á þeim tíma hafði verið fullyrt í nokkur ár að með djúpborunum mætti fimm- til tífalda orkugetu jarðvarmasvæðanna og að þessi tækni væri um það bil að detta inn. 

Annað hefur komið í ljós og það ætti að kenna okkur að trúa ekki á hluti, sem ekki eru fastir í hendi.

Ómar Ragnarsson, 12.9.2011 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband