Denver, mjög áhugaverður kostur.

Denver í Kólóradóríki í Klettafjöllunum er afar áhugaverður kostur sem áfangastaður vegna þess að þaðan er hentugt að hefja ferðir um suðvestanverð Bandaríkin, sem Íslendingar eiga eftir að uppgötva sem eitthvert magnaðasta og skemmtilegasta ferðamannasvæði Vesturheims.

Frá Denver er hægt að aka upp á Pikestind, einn af hæstu tindum Bandaríkjanna, hærri en Mont Blanc, og njóta útsýnisins sem varð kveikjan af ljóðinu "America the beautiful", en það er ígildi "Hver á sér fegra föðurland?" eða "Blessuð sértu sveitin mín" hjá okkur. 

Síðan tekur við röð af fjölbreyttum náttúrufyrirbærum eins og Sandöldurnar miklu, Svartagljúfur, Mesa Verde, Miklagljúfur, Brycegljúfrið, Minnismerkjadalur, Zion, Bogaþjóðgarðurinn, Giljalönd - og vestar bíða Yousemeteþjóðgarðurinn, elstu tré heims og Dauðadalurinn, - en norðar sjálfur Yellowstone þjóðgarðurinn. 

Inn á milli eru síðan einstæð og fjölbreytt mannvirki og borgir, Las Vegas, Salt Lake City, Hoover- og Glen Canyon stíflurnar, Route 66, - og á leið til baka til Denver fjalla- og skíðabæirnir Aspen og Avon. 

Ef menn hafa tíma er ekki svo langt að teygja ferðina alla leið vestur til Los Angeles eða jafnvel San Fransisco. 

Ekki má gleyma því að afar þægilegt er að ferðast um þetta svæði á eigin bíl, með bestu fáanlega tónlist í eyrum eftir smekk, tiltölulega lítinn ferðakostnað og fjölbreytt úrval gististaða. 

Af ferðum mínum með Helguvíða um heim eru ferðirnar um Klettafjöllin og Suðvesturríkin einna minnisverðstu gimsteinarnir í fjársjóði minninganna. 


mbl.is Icelandair boðar aukin umsvif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála. Ég man eftir þegar ég fyrst ók um eyðimörkina kringum Las Vegas hafði ég að orði að ýmsir staðir, að minnsta kosti úr fjarlægð, minntu mig á Reykjanesið. Íslenski sveitamaðurinn alltaf með í ferðinni.

Verð að bæta við að Kalifornía er eitthvert það merkilegasta landssvæði sem ég hef kynnst. Rosalega stórt fylki með ótrúlega fjölbreytt landslag, staðarhætti og verðurfar. Þú getur ferðast þvers og kruss um Kaliforníu vikum saman og aldrei verið í sama landslagi nema dag eða tvo í einu. Ég kemst ekki hjá því að halda að fólk sem kom til Kaliforníu snemma á tuttugustu öldinni (og fyrr) hafi haldið að það hafi fundið hið eina sanna Gósenland.

Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 14.9.2011 kl. 17:49

2 Smámynd: Jón Óskarsson

Takk fyrir þessa fróðleiksmola Ómar.   Þetta er mjög áhugaverður áfangastaður, í mínu tilfelli svo áhugaverður að ég er að hugsa um að éta ofan í mig að ég ætli aldrei til Bandaríkjanna :)  Þetta er nákvæmlega það svæði í Bandaríkjunum sem mér þykir hvað áhugaverðast að skoða og upptalning þín er það góð og skemmtileg að sennilega fæ ég að taka mér það bessaleyfi að prenta þetta blogg út ef og þegar ég fer með Icelandair til Denver :)

Jón Óskarsson, 14.9.2011 kl. 21:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband