Hefði þurft aðvörun.

Ég gæti sagt hér dramatíska og ótrúlega sögu af 53ja ára gamla sögu af því hvernig malbik getur orðið flughált þegar rignir ofan í ryk á því. Hún er hins vegar of löng, en þegar byrjaði að rigna ofan í öskulagið, sem hafði sest á malbikið á götum Reykjavíkur urðu göturnar mjög hálar.

Þess vegna urðu svona margir árekstrar, - ekki vegna þess eins að göturnar urðu blautar. 

Þessi hálkuskilyrði eru miklu varasamari en hálka sem kemur þegar snjór fellur, því að hún sést alls ekki. 

Hér vantar þekkingu og aðgerðir, því að tugir árekstra og jafnvel slysa eru dýrt spaug. 

Í gamla daga þegar Kanaútvarpið var og hét voru gefin upp skilyrðin á götum herstöðvarinnar. Ég man í svipinn aðeins eftir einni skilgreiningunni: "Alfa limited." 

Þegar minnsti grunur er um að hálla sé á götum borgarinnar en venjulega þarf að vera fyrir hendi mæling við bestu skilyrði, til dæmis hemlunarvegalengd, og síðan gefið upp hve mikið hún hafi aukist. 

Annað, sem er mjög slæmt er það að ekki skuli, eins og víða sést erlendis, vera aðvörunarskilti þar sem alveg nýtt og eggslétt malbikslag hefur verið lagt, einkum þegar rignt hefur. 

Mér er kunnugt um býsna alvarleg slys, sem hafa orðið við slíkar aðstæður hér á landi, og einkum eru svona skilyrði hættuleg fyrir vélhjólafólk. 


mbl.is Mörgum varð hált á bleytunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

 Ég fékk símtal fyrr í kvöld út af nákvæmlega þessu máli, þar sem ég var beðinn um álit.  Þetta er ekki bara öskufall, heldur einnig almenn óþrif á götum höfuðborgarsvæðisins.  Eins og allir sjá, er slit á malbiki á Ísland með ólíkindum og ég sé ekki annað eins í nokkru landi og hef komið til margra. 

Ástæðan er margskonar.   Léleg undirbygging, of þunnt malbikslag, íslenskt mjúkt grágrýti, ásamt rangri gerð af biki og hitastigi við lagningu.  Allavega, eitthvað mikið er að.  Malbik á almennum götum virðist ekki endast nema 2 - 3 ár, en t.d. malbikið í Hvalfjarðargöngum er orðið 15 ára gamalt og sér varla á því.  Þar var notað hágæða malbik með norsku kvartz.  Sama á við um malbik á flugvöllum.  Allt samkvæmt ítrustu kröfum um gæði, viðnám styrk og endingu.  Allt þrifið reglulega.  Menn myndu aldrei líða svona drullulag á Keflavíkurflugvelli eða öðrum helstu flugvöllum.  Sé eitthvað að, eru flugmenn varaðir við, eins og þú þekkir.

En. léleg efni og aðferðir er eitt.  Aðalmálið er að götur eru ekki þrifnar.  Slíkt sést yfirleitt aldrei og þá helst á vorin.  Drullan og svifrykið er ekki síst vegna þess.  Götur borga eru þrifnar kerfisbundið.  París oft í mánuði.  Monaco á hverjum degi.  Prag í hverjum mánuði, senda sést ekki þessi drulla.

Bæði í þurru og ekki síst í bleytu verður þetta stórhættulegt og eins og þú nefnir, veit ég um nokkur tilvik þar sem það hefur orðið raunin.  Þá setja embættismenn og pólitíkusar pokann á hausinn og benda bara á viðkomandi ökumann og öll sök sett á hann.

Það er enginn vandi að eiga við þetta eins og þú bendir á að gert hafi verið í NATÓ stöðinn á Keflavíkurflugvelli.  Menn þar voru iðulega varaðir við ef eitthvað var að færð og gengið í að laga stöðuna.  Hérna eru umferðarmannvirki látin dankast og einginn veghaldari virðist bera nokkra ábyrgð á neinu.  Í t.d. Evrópu og Bandaríkjunum er ábyrgð veghaldara mun ríkari og í Hollandi með skaðabótaábyrgð.

Þörf ábending og bestu þakkir,

 Ólafur Guðmundsson.

Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 16.9.2011 kl. 21:27

2 identicon

Á þeim árum þegar Kanaútvarpið var mitt Ríkisútvarp dáðist ég oft að því hve fréttir af veðri og færð voru miklu betri þar en hjá okkur.  Þeir töluðu um veðurskilyrði Alfa, Bravo og Charlie.  Og þar var lítið minnst á hitastig, heldur „Chill Factor", sem er samspil hitastigs og vinds.  Það er einmitt það sem skiptir máli.

 Hörður

Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 17.9.2011 kl. 10:35

3 Smámynd: Jón Þór Helgason

Það er búið að rigna töluvert að undanförnu þannig að þetta er ekki eina skýringinn að götur séu óhreinar. Það má líka kenna um lélegum dekkjum og bremsubúnaði. Yfirleitt eru neytendur ekki að velta fyrir sér hvaða bremsuvarahlutir eru settir í bílana.

Mig grunar líka að föstudagsstressið hafi spilað líka inní.

Jón Þór Helgason, 17.9.2011 kl. 13:36

4 identicon

Það er mjög líklegt að Ómar hitti naglann á höfuðið þarna eins og oft áður með gæði slitlagsins. Því miður er skortur á nógu hörðum steinefnum hér á landi, en gosbergið, sem landið er að mestu leyti gert úr, er yfirleitt með lítil þol gagnvart veðrun og annarri áraun. Á stöku stað hér á landi eru hleifar af djúpbergi, dæmi gabbró og granófýr á Snæfellsnesi, á suðausturhorni landsins,  í Hafnarfjalli, Ásmundarnúp og víðar.  Líklega er þetta berg eitthvað harðara, en þó varla með sama slitþol og t.d. skandinavískt granít. Þetta er afleitt og í hörðum veðurskilyrðum hér, svo sem miklum sveiflum í hitastigi að vetri plús svo álag sem skapast af notkun nagladekkja og harðkornadekkja, verður afleiðingin óeðlilega mikið slit og rykmyndun.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 18.9.2011 kl. 17:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband