16.9.2011 | 23:25
Eins og hundar á roði...
Áltrúarmenn eru búnir að hanga á álveri á Bakka eins og hundar á roði síðustu fjögur ár þótt allan tímann hafi legið fyrir hve galið það var að stefna að álveri þar sem þarf að vera með minnst 350 þúsund tonna ársframleiðslu til að bera sig.
Það þýðir þörf á upp undir 700 megavöttum, sem fjarlægt er að náist að útvega nema virkja öll jarðvarmasvæði í topp og bæta við jökulsánum í Skagafirði, Skjálfandafljóti og jafnvel helmingnum af orku Dettifoss.
Jafnframt þýddu þessi áform að öll orka Norðurlands og Austurlands yrði sett í hendur einu álfyrirtæki og ekkert eftir handa neinum öðrum.
Í þessum trylltu áldraumum hefur reiknað með orku frá stækkun Kröfluvirkjunar þótt ekki hafi eftir 35 ára streð verið búið að leysa úr sýruvandamálum þar og einnig hafa menn gefið sér að þrítugfalda orkuframleiðslu Bjarnarflags, sem þegar er farin að skila affallsvatni í átt að Mývatni, svo að tært vatnið í Grjótagjá er orðið gruggugt.
Nú lýsa menn yfir vonbrigðum með það að fundist hafi smærri kaupendur sem bjóðast til að borga hærra orkuverð og skapa fleiri störf á orkueiningu.
Mikil vonbrigði með rólega og trygga uppbyggingu í stað geggjaðra draumóra orkubruðlsfíkla.
Álver á Bakka komið út af kortinu? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nokkuð samála þér Ómar því að við getum ekki endalaust byggt álver og hafa það sem aðal atvinnugrein okkar margt annað kemur til greina eins og segir í málhættinum margt smátt gerir eitt stórt.
Sigurður Haraldsson, 17.9.2011 kl. 00:10
Farir þú í logni og sól í fjörur Höfuðborgarsvæðinsins, og horfir
vandlega ofan í sjóinn, þá sérðu mikið af litlum fiskum, jafn stóra
litla putta.
Þetta eru þorskur og ufsi sem komu úr eggjum í vor, og lifa þarna
góðu lífi, í skjóli af þara og grjóti.
Strandlengjan frá Grafarvogi inn í Hafnarfjörð er ca. 50 kílómetrar,
ég hef veitt þar á mörgum stöðum í sumar, og allstaðar er mikil sílamergð.
Mér sýnist að það geti auðveldlega verið 400 síli á hvern lengdar
meter, og ef 50.000 metrar eru margfaldaðir með 400 sílum þá fást
20.milljón síli. Fái þessi 20. milljón síli að vaxa í 10 kg. fiska
verður útkoman 200 þúsund tonn. Eins og staðan er í dag eiga þessi síli enga von, en bönnuðum við dregin veiðarfæri og loðnuveiðar,
þá væri gaman að vera Íslendingur.
Ómar, frjálsar handfæraveiðar leysa byggða, fátæktar og atvinnu
vanda Íslendinga, afléttum oki líú, komum með nýja hugsun við
fiskveiðarnar og umgengnina um fiskimiðin okkar.
Aðalsteinn Agnarsson, 17.9.2011 kl. 00:57
Hvað er orkubruðlsfíkill ????????? Er ekki fíkill einhver sem tekur eitthvað til sín, en bruðlari sá sem eyðir ? Passar ekki í sama orðið.
Ólafur Ágústsson (IP-tala skráð) 17.9.2011 kl. 08:49
Drykkjumaður er oft á því stigi að hann fær mest út úr drykkjunni með því að svolgra í sig úr hálfum og heilum flöskum í einum rykk frekar en að njóta vímunnar hægt og bítandi.
Fíknin snýst um að bruðla með áfengið.
Eftir að hugtakið "orkufrekur iðnaður" var gert að því jákvæðasta í atvinnu- og efnahagsmálum Íslendinga fyrir 50 árum, hefur hugarástandi þjóðarinnar verið stýrt þannig með þessari síbylju, að hún slefar eins og hundar Pavlovs í hvert sinn sem hugtakið er nefnt.
Í síðasta stóra fylleríinu þegar Alcoa undirritaði samninga um álverið 2002 hófst þensla daginn eftir í þjóðfélaginu upp á um 30 milljarða króna á núvirði. Samt hófst vinnan við virkjunina ekki fyrr en árið eftir og við álverið enn seinna.
Einn af hagfræðingum Seðlabankans tók sig til og rannsakaði það, hvernig svona þensla gæti orðið til úr engu og niðurstaðan var sú að meira en 80% hennar fólst í því að auka yfirdrætti á kortum upp í topp og taka sér lán til að auka neyslu, kaupa bíla o. s. frv.
Með öðrum orðum: Þegar fólk heyrði orðin "álver", "virkjanir" og "orkufrekur iðnaður, fór hún umsvifalaust á mesta mögulega lánafyllerí, sem síðan fór stigvaxandi í bankabólunni sem sprakk 2008.
Ómar Ragnarsson, 17.9.2011 kl. 09:10
Mikið er ég sammála þér, Ómar. Það er þegar orðin of mikil áhersla á álvinnslu í þjóðfélagi okkar. Einhverntíma var talið varasamt að hafa of mörg egg í sömu körfunni. Sú stefna, sem sýnist vera að verða ofan á varðandi nýsköpun í atvinnulífi Þingeyingar, á eftir að sanna sig sem mun heppilegri en álvinnsla, enda koma nokkur tiltölulega smá fyrirtæki, sem þurfa hlutfallslega marga starfsmenn á stofnkostnaðareiningu, til með að veita miklum mun meira atvinnuöryggi til lengri tíma litið. Svo megum við ekki gleyma því, sem þú hefur stundum minnst á, Ómar, að samgöngur okkar hér á Íslandi þarf að knýja með einhverri innlendri orku. Þar hlýtur raforkan að vera lang efst á blaði. Til þess að hún verði ekki óhóflega dýr, verðum við að skilja eftir eða taka frá hagkvæma virkjunarkosti beinlínis í þeim tilgangi að knýja samgöngukerfið.
Geronimo (IP-tala skráð) 17.9.2011 kl. 10:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.