Sama og um sjávarútvegsfyrirtæki ?

Í íslenskum lögum er útlendingum ekki heimilt að eiga meira en 49% hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum. Hvers vegna? Væntanlega vegna þess að við viljum ekki að sjávarauðlindin komist í hendur útlendinga.  Ég er þeirrar skoðunar og tel raunar að 49% sé skuggalega há prósenttala.

Ég hef hvergi séð gefið upp hve stóran hlut útlendingar eiga í sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Ef farið er að reglunum um eignarhald virðist það vera stefnan að það sé af hinu góða í mörgum tilfellum að fá erlenda fjárfestingu inn í greinina til að örva hana og íslenskt efnahagslíf.

Svo er að skilja að sama reglan um eignarhald í sjávarútvegsfyrirtækjum nái yfir fjárfesta innan EES og utan þess.

Svo er að heyra að Huang Nubo hafi í gegnum kynni sín af Íslendingum kynnst þeim möguleikum, sem einstök náttúra Íslands gefur fyrir ferðaþjónustu á öllum árstímum. Íslendingar sjálfir virðast annað hvort ekki hafa trú á þessu eða geta sinnt því.

Íslendingar hafa frekar vilja selja útlendingum orkuauðlindir á þann hátt að álver og stóriðja í eigu útlendinga eignist í raun heilu landsvæðin í gegnum orkusölusamninga sem fórna miklum náttúrverðmætum í þeirra þágu.

Meðan Alcoa á álverið á Reyðarfirði hefur virkjunarsvæði Kárahnjúkavirkjunar í raun verið afsalað til þessa erlenda stórfyrirtækis með mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöllum, sem hægt var að valda á Íslandi.

Rétt eins og við ömumst ekki við því að útlendingar eigi hæfilega stóran eða öllu heldur lítinn hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum virðist liggja nokkuð beint við að svipað eigi við um hugmyndir Nubos um að leggja fé í ferðaþjónustu á Íslandi.

Hann ætti að geta gert það með því að leigja það land, sem til þarf, en skiljanlegt er ef hann vill frekar vera eigandi þess.

Liggur þá ekki beint við að hann fái að eignast hlut í landi Grímsstaða sem nemi ekki meira en 49% eignarhlut?

Ég fæ ekki séð að hann þurfi svo stóran hlut en segjum að hann keypti 49%, þá gæti íslenska ríkið, sem á þegar 25%  keypt 26% eða meira eftir atvikum þannig að jörðin væri áfram að meirihluta til í eigu Íslendinga.  

Eins og er geta erlendir aðilar innan EES-svæðisins keypt land á Íslandi að vild.  Þetta var mjög umdeilt þegar við gengum inn í EES og margir óttuðust stórfelld uppkaup útlendinga á íslensku landi.

Sem betur fer varð sú ekki raunin, en á sama hátt og Danir, sem eru innan ESB, hafa í lögum sínum stórfelldar takmarkanir gegn uppkaupum útlendinga á sumarhúsum ættum við að huga að því að taka upp varnir gegn þeirri hættu að við missum land og auðlindir í hendur útlendinga.

Aðstæður gætu breyst sem yrðu til þess að þarna þyrfti að hafa varann á.

Sá misskilningur er útbreiddur að Grímsstaðir séu hluti af ósnortnum víðernum Íslands. Það eru þeir ekki.

Þetta er bújörð inni í bæjaröð, sem endar suður í Möðrudal. og jörðin er mun lengri á vestur-austur veginn en norður-suður. Hún nær að Jökulsá á fjöllum en ekki lengra í vestur, og suður að Grímsstaðanúpum og Núpaskoti, sem eru um tíu kílómetrum fyrir sunnan bæinn.

Á þessari landareign hefur verið mikill uppblástur, sem hefur að mestu leyti stafað af ofbeit sauðfjár af mannavöldum.

Þegar horft er yfir Grímsstaði í átt til Herðubreiðar og Kverkfjalla, víðernanna norðan Vatnajökuls, er 65 kílómetra bein loftlína til Herðubreiðarlinda, og bærinn Möðrudalur er 40 kílómetrum sunnar en Grímsstaðir.

Það svæði, sem þarf að vera innan Vatnajökulsþjóðgarðs, ætti að mínum dómi að skilgreina sem ævarandi þjóðareign sem aldrei megi selja né veðsetja.  Þetta svæði þyrfti að ná ákveðinn kílómetrafjölda inn á austurbakka Jökulsár á fjöllum, sem yrði friðuð um aldur og ævi.

Ósnortin íslensk víðerni með öllum sínum miklu náttúruverðmætum ætti að skilgreina á sama hátt og Þingvellir eru skilgreindir í Þingvallalögunum frá 1928, sem ævarandi eign þjóðarinnar, sem aldrei megi selja né veðsetja. Þannig er reyndar ætlunin að það verði  samkvæmt frumvarpi Stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá.

Af þeim sökum þarf að skilgreina jörðina Grímsstaði minni en hún er nú, sem nemur því svæði sem verði skilgreint svona.

Ef Huang Nubo eignast hlut í jörðinni sem er örugglega minna en helmingshlutur er vandséð af hverju það ætti ekki að nægja bæði honum og sömuleiðis ætti það að nægja okkur Íslendingum að eiga örugglega góðan meirihluta í þessari sameign.

Eða hvað? Á að gilda annað um þetta en sjávarútvegfyrirtækin? Á að gilda annað um fjárfesta utan EES-svæðisins en innan þess?


mbl.is Fær svar innan fárra vikna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Huang Nubo hefur viðskiptasambönd í fjölmennasta ríki heims og telur sig geta nýtt sér það á Grímsstöðum. Er það ekki bara hið besta mál?

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.9.2011 kl. 14:42

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Það er gott að vera einfaldur. Sá aðili sem eignast jörð á Íslandi og hefir nóg að pening getur stofnað sitt eigið ríki samkvæmt lögum sameiniðuþjóðunum. Þetta hafa menn gert og t.d. gerið ástralskur stór landaeigandi það í ÁSTRALÍU þegar þeir ætluðu að setja kvótalög á ræktun hans. Þetta ríki er gangi með sína stjórn og ráðherra. Sjáið einföldu Íslendingar hér er veldi að kaupa jörð sem gengur erfðum mann frá manni og til ríkis þess lands sem hann tilheyrir eð hann lendir í krísu. Þetta verður allt veðsett fyrir pening. verið ekki svona auðtrúa og þið eru búin að horfa á bankamenn sverja að allt sé í himnalagi 2009 þegar ríkisstjórnin ákvað að afhenda þeim milljarða sem björgunar pening. Það að fjárfesta í byggingu hótels er í góðu lagi ef það stenst lög okkar. Magmna stóðst ekki lög og í dag er HS orka sjálfsagt veðsett fyrir framkvæmdum Magma/alterra eða hvað haldið þið..???   

Valdimar Samúelsson, 26.9.2011 kl. 15:34

3 identicon

Og hver laug þessu að þér Valdimar?  Á Íslandi gilda íslensk lög.  Enginn getur, hvort sem er í krafti peninga eða annars, stofnað hér sjálfstætt ríki.  Enginn.  En ef þú ert sannfærður um þetta rugl er rétt að þú vitnir í þau lög og alþjóðasáttmála sem þetta heimila.  Sömuleiðis væri fróðlegt að vita meira um þetta meinta fríríki í Ástralíu; til dæmis hvað forsætisráðherrann heitir og hvort ríkið er hluti af breska heimsveldinu.  Já eða bara hvað það heitir.

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 26.9.2011 kl. 18:09

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þorvaldur. Það er nú hálf súrt að vera kallaður lygari og spyrja svo hvort þetta sé satt. Þú gætir sent fyrirspurn til sameiniðuþjóðanna því ég efast um að þú trúir mér þótt ég segði þér nánar. Ég skal samt færa þér upplýsingar hér á eftir.

Valdimar Samúelsson, 26.9.2011 kl. 19:14

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þorvaldur kíktu á þessa slóð en þetta sjálfstæða land heitir Hutt river svo skal ég segja þér hvernig þú gerir þetta en þú gerir sama og forseti palístínu. 

http://en.wikipedia.org/wiki/Principality_of_Hutt_River

Valdimar Samúelsson, 26.9.2011 kl. 19:27

6 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Valdimar Samúelsson, 26.9.2011 kl. 19:47

7 identicon

Jæja.  Þú verður að fá þér ný gleraugu, ágæti Valdimar, ef þú lest út úr orðum mínum að ég hafi verið að kalla þig lygara.  Hins vegar er það misskilningur að einhver geti stofnað sjálfstætt ríki á Íslandi, eins og þú heldur fram hér:  „Sá aðili sem eignast jörð á Íslandi og hefir nóg að pening getur stofnað sitt eigið ríki samkvæmt lögum sameiniðuþjóðunum.“  Og ég spurði einfaldlega: „Hver laug þessu að þér?“  Þau dæmi sem tekin eru á síðunum sem þú birtir eru fjarri því að vera þess eðlis að til slíks gæti komið hér auk þess sem „sameiniðuþjóðunum“ gefa engum leyfi til svoleiðis aðgerða. En úr því þú heldur öðru fram ættirðu að vísa í texta sem „sameiniðuþjóðirnar“ hafa gefið út sjálfar, en ekki bullsíður þar sem hver sem er getur haldið hverjusemer fram. Dæmin sem þú talar um eru þannig til komin að fyrir margt löngu var ákveðið að stofna ríki í gömlum nýlendum og þá voru dregin landamæri eftir reglustiku þvert á þjóðamörk.  Nú er verið að leiðrétta slíkar gloríur.  Og „sameiniðuþjóðirnar“ munu hafna aðildarumsókn Palestínu svo tæplega dugir að fara að dæmi forseta hennar.

Hvað snertir „fríríkið“ í Ástralíu er það hvergi viðurkennt nema sem ámóta fyrirbæri og Latibær og nýtur svipaðrar virðingar á alþjóðavettvangi, amk. ef marka má wikipedíusíðurnar sem þú bendir á.  Örugglega gætum við farið til Kolbeinseyjar og lýst hana sjálfstæða og fengjum vafalaust að sitja þar þangað til einhver nennti að koma með spennitreyjur til að flytja okkur í land.  Og bara til að hnykkja á: Ég efaðist hvergi um að þetta fyrirbæri væri til en langaði til að vita um hvað þú værir að tala, enda kom í ljós að það er að sönnu til en þó aðallega í kollinum á stofnandanum.

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 26.9.2011 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband