27.9.2011 | 21:10
"Ameríski draumurinn" ekki lengur Bandaríkin?
Þegar straumur innflytjenda var sem mestur til Bandaríkjanna sáu menn landið og möguleikana þar í hillingum. Það var talað um "ameríska drauminn" þar sem allir gátu neytt eigin verðleika til að verða ríkir og hamingjusamir. "Fame and fortune".
Bandaríkjamenn sjálfir hafa líka alla tíð verið iðnir við að setja samasemmerki á milli Ameríku og Bandaríkjanna. Þegar þeir tala um "America" og "Americans" eiga þeir yfirleitt við Bandaríkin, enda Kanadíska þjóðin aðeins litli bróðir á við norðanverðan útjaðar byggilegs land í Norður-Ameríku.
Þegar við tölum um "Kanann" eða "Kanana" eigum við alltaf við Bandaríkjamenn en ekki við Kanadamenn.
Kanadamennirnir, sem gegndu hér herskyldu á stríðsárunum voru aldrei kallaðir "Kanar" heldur Kanadamenn.
Nú sýnir könnun á viðhorfi almennings til fimmtíu landa víðs vegar í heiminum, að Kanada er efst á blaði og Svíþjóð rétt á eftir.
Bæði eru þessi lönd vetrarköld og liggja á norðurslóðum. Það rímar ekki við það að fólk vilji yfirleitt leita til hlýrri landa heldur er það þjóðfélagið sjálft sem vegur þyngst.
Er þá einhver munur á Kanada og Bandaríkjunum, svo mikill munur að Bandaríkin eru miklu neðar á vinsædlalistanum en Kanada?
Ójá, á mörgum sviðum. Öryggi fólks vegur áreiðanlega þungt. Byssueign er margföld í Bandaríkjunum miðað við það sem er í Kanada og morð og glæpir miklu fátíðari. Velferð og auður verða meira virði ef friðsæld og öryggi fylgja með.
Bandaríkin gjalda þess að vera skotspónn og stuðpúði vestrænna ríkja vegna hins sjálfskipaða lögreglu-, forystu- og yfirvaldshlutverks sem þau hafa smám saman tekið sér í alþjóðamálum.
Það er áreiðanlega mikill munur á velvilja almennings í heiminum til hins tiltölulega friðsæla lands Kanada, sem er svo miklu minna upp á kant við aðrar þjóðir en stóri bróðir í suðri. Hæfilega fámenn og fjarlægt til að halda sig til hlés og slá ekki mikið um sig.
Flestir kostir Vesturheims eru fyrir hendi í Kanada og færri ókostir. Maður á oft afar erfitt með að sjá muninn á því að vera á ferð fyrir norðan eða sunnan landamærin og lífskjörin eru svipuð peningalega.
Svipað er áreiðanlega hægt að segja um þau Norðurlönd, sem komast ofar á vinsældalistann en margfalt fjölmennari og öflugri ríki sunnar í Evrópu, þar sem þó er hlýrra veðurfar.
Best að eiga heima í Kanada | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fólk vill lága glæpatíðni og ekki stjórnmálalegan óstöðugleika. Mannréttindi virt og persóufrelsi. Jafnræði meðal þegna til náms og heilsugæslu. Fólk vill ekki heldur búa í öfgafullum samfélögum hvort sem um er að ræða trúaröfgar, pólitískar eða menningarlegar.
Ég er líklega bara að tala fyrir sjálfan mig. Ég vil röndótt samfélag, allra þjóða og ólíkra menningarheima enég held að flestir séu svo til eins hvað það varðar að vilja líða vel þar sem þeir búa. Kanada er held ég svolítil blanda af Bandaríkjunum og Evrópu. Þeir eiga geggjaða músíkanta sem eru þó nokkuð evrópskari og agaðri en kollegar þeirra í BNA. Þeir geta samt reykspólað margir.
Gunnar Waage, 27.9.2011 kl. 23:37
Vil minna á að Ameríka nær allt suður til Argentínu.
Lárus Viðar (IP-tala skráð) 30.9.2011 kl. 04:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.