28.9.2011 | 11:06
Endurreist ?
KB-höllin í Kaupmannahöfn var eitt þeirra fyrirbæra sem fangaði huga 14 ára íslensks unglings sumarið 1955 þegar hann dvaldi í sex vikur á heimili góðra danskra hjóna skammt frá höllinni í þeim hluta borgarinnar, sem tilheyrði Friðriksbergi, og teygaði í sig andrúmsloft Borgarinnar við Sundið.
Þá var stærsta íþrótta- og sýningarhús Íslands hermannabraggi við býlið Hálogaland, ekki langt þar frá sem Vogaskóli er núna.
Ég var á ferli daglega í könnunarferðum um borgina og finnst ég æ síðan ævinlega vera kominn heim, ef ég staldra við í Höfn á leið til Íslands frá fjarlægari löndum.
Allt var svo framandi og miklu stærra en heima, trén, húsin, umferðin, strætin. Líka hitinn, enda var sumarið 1955 eitt það sólríkasta og heitasta, sem komið hafði í Kaupmannahöfn, en sumarið 1955 var hins vegar eitt mesta rigningasumar, sem komið hefur á Suðurlandi.
Reykjavík var þá lágreist 50 þúsund manna bæjarfélag, hæstu íbúðar- og skrifstofubyggingar aðeins 4-6 hæðir, og aðeins tveir turnar í borginni, Sjómannaskólaturninn og turn Landakotskirkju.
Meirihluti gatna í Reykjavík voru malargötur og braggahverfi enn víða um borgina.
Siglingin frá Íslandi allt inn að hafnarbakka í hjarta Kaupmannahafnar var ævintýri.
Á þessum tíma fóru íslensk börn og unglingar yfirleitt ekki til útlanda. Flugið hafði ekki öðlast sinn núverandi sess og það var talað um að fara í siglingu, þegar fullorðna fólkið fór í utanlandsferð.
Íslenskt alþýðufólk átti þar að auki þess yfirleitt ekki kost að fara til útlanda nema þá helst sjómennirnir og farmennirnir.
Það eina á Íslandi, sem var stærra en í Danmörku, voru bílarnir, sem flestir voru stórir amerískir bílar heima, en hins vegar litlir evrópskir í Danmörku og reiðhjólin yfirgnæfandi í umferðinni, svo að stóru göturnar sem lágu að Ráðhústorginu voru oft þaktar reiðhjólafólki á álagstímum.
Þegar ég sagði Dönunum frá amerísku bílunum heima trúðu þeir mér varla.
Kókakóla fékkst ekki í Danmörku, aðeins danskur kóladrykkur, Jolly Cola.
Eitt hinna eftirminnilegu fyrirbæra í Höfn var KB-höllin, risasmíð á þess tíma mælikvarða.
Danir rækta vel menningarsögu sína og er gott dæmi um það hvernig þeir fluttu upphaflegu flugstöðina á Kastrup um set og settu niður á nýjum stað þegar þeir reistu aðra í staðinn.
Vonandi verður KB-höllin endurreist með bættum brunavörnum, en það hlýtur að verða rannsóknarefni hvernig hægt var að tala um stórbættar brunavarnir í húsi sem brann svo gersamlega, að slökkviliðsmenn gáfust upp við að reyna að berjast við eldinn.
KB-hallen verður ekki bjargað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Á þessum tíma fóru íslensk börn og unglingar yfirleitt til útlanda."
Á þetta að vera svona Ómar? Vantar ekki eitt orð í þennan texta?
Landfari, 28.9.2011 kl. 11:36
Jú, búinn að leiðrétta það.
Ómar Ragnarsson, 28.9.2011 kl. 12:47
Svona villur þarf varla að leiðrétta, þær eru svo augljósar. Hefði Ómar hinsvegar skrifað, "á þessum tíma fóru íslensk börn og unglingar yfirleitt ekki erlendis", hefði verið þörf á athugasemd. En þetta "að fara erlendis" sést og heyrist mjög oft í dag. Ótrúlega oft.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.9.2011 kl. 13:12
„En þetta "að fara erlendis" sést og heyrist mjög oft í dag. Ótrúlega oft.“
Og ætli eitthvað sé athugavert við það? Í Fjölni frá 1843, í minningargrein um Tómas Sæmundsson, skrifar Jónas Hallgrímsson: „En er herra Steingrímur varð að fara erlendis vetrarlangt að taka biskupsvígslu í Danmörku kom hann Tómasi í Bessastaðaskóla.“ Hver er sá sem ætlar sér að gera Jónas Hallgrímsson að bögubósa?
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 28.9.2011 kl. 14:11
Ég hef góðar minningar frá þessari frábæru ferð sem farin var ef ég man rétt á vegum samtakanna WFF (World Friendship Federation). Fyrsta ferð mín til útlanda án þess að foreldrarnir væru með í för og manni fannst mikið til um margt sem maður sá þarna í danaveldi, ekki síst íþróttahöllina og Bakken.
Sigvaldi Friðgeirsson, 28.9.2011 kl. 16:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.