Setti Grettir afhoggið höfuð Gláms við "þjóðina"?

Í Grettis sögu segir frá því, eftir því sem mig minnir (60ár síðan ég las söguna) eitthvað á þessa leið: "Hjó Grettir höfuðið af Glámi og setti  það við þjóin", það er við rassinn á honum.

Nú þarf að fara endurskoða þessa frásögn og tilgang þessa verknaðar Grettis ef marka má það orðalag sem notað er í frétt á mbl.is um þjóhnappa Pippu og annarra frægra kvenna, því að þeir eru hvað eftir annað kallaðir "þjóðhnappar" í fréttinni.

Er það auðvitað miklu virðulegra heiti en þjóhnappar og hefur rassi kvenna verið lyft með þessu til aukinnar virðingar, því orðið þjóð felur í sér talsverða virðingu.

Grettir hugðist gera Glámi það til háðungar og niðurlægingar að segja haus hann við þjóin en ef hin nýja merking þessa líkamshluta ryður sér til rúms hefur hann sett afhogginn hausinn við þjóðina og þá viljað gera þetta ljóta höfuð að þjóðargjöf, hvorki meira né minna !

P. S.  Nú sé ég að búið er að breyta þjóðhnöppum í þjóhnappa í frétt mbl. is og er það vel, eins konar þjóþrifaverk, sem er ágætis nýyrði yfir sögnina að skeina.


mbl.is Þjóhnappar Pippu vinsælastir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Tók einmitt eftir þessu og hélt að þetta væri kannski nýtt tískuyrði. Jafnvel átt við spékoppa og þess vegna væri mynd af brosi með fréttinni. Eða eitthvað tattú mál, hvað veit maður. En nú er búið að leiðrétta.

----- -----

Nýyrðið þitt "þjóðþrifaverk" er algjör snilld

Haraldur Hansson, 29.9.2011 kl. 00:08

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þarna dastu í sama pottinn og þeir hjá mbl.is, - settir óvart ð í orðið þjóþrifaverk.

Ómar Ragnarsson, 29.9.2011 kl. 00:52

3 identicon

Gömul vísa úr áramótaskaupi fyrir löngu, kveðið er í orðastað Geirs Hallgrímssonar á þeim tímapunkti er Þorsteinn Pálsson tók formannsstólinn.

Fljúga hvítu fiðrildin

fyrir utan hólinn

þarna læðir Þorsteinn inn

þjóhnöppum í stólinn

minn

Jón Logi (IP-tala skráð) 29.9.2011 kl. 07:32

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Það hefur vísast ekki bara verið til háðungar sem Grettir setti höfuðið við þjóinn heldur einnig til þess að varna því að Glámur héldi áfram að vaða uppi sem draugur. Alla vega þekktist það mjög víða að þetta væri gert við látið fólk einmitt til þess að það kæmi ekki til baka sem afturgöngur, þar sem engin afturganga vildi valsa um með hausinn í rassinum.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 29.9.2011 kl. 08:01

5 identicon

Hins vegar hefði farið betur á að Grettir hefði sett afhöggvið höfuð Gláms við þjó honum.

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 29.9.2011 kl. 08:47

6 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Þetta er bara íslenskan í þróun. En nú er búið að breyta þessu aftur í gamla ritháttinn. Mbl er greinilega tvístígandi varðandi þessa málþróun.

Jón Pétur Líndal, 29.9.2011 kl. 09:39

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður nafni.

Grettir hjó höfuð af draug, draug sem þú hefur reynt að höggva.

En þú sást aldrei samhengið milli ofurskulda ICEsave og að ICEsave væri forsenda Gláms hins nýja, ofurstóriðju án nokkurrar tengingar við arðsemi eða skynsamlegrar nýtingar orkuauðlinda.

Fyrir utan að ICESave fylgja Gláms hefði kostað þvílíka fjármuni að velferð sem við þekkjum í núverandi mynd, væri sagan ein.

Nafni, guð gaf þér vit til að höggva Glám í annað sinn.

Eitthvað sem þú hefur ekki alveg höndlað.

En munt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.9.2011 kl. 10:25

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fyrir sextíu árum, þegar fólk glímdi enn við berkla, var sagt um það fólk, sem þurfti að fara í sérstaka aðgerð, sem fólst í miklum holskurði: Hún/hann  var hoggin/n.

Þetta var alltaf sagt og ég hef aldrei fyrr heyrt að þessi mynd sagnarinnar að höggva sé röng.

En kannski hefði hún átt að vera höggvin/hoggin eins og berklarnir sjálfir.

Ómar Ragnarsson, 29.9.2011 kl. 13:54

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nýjustu fréttir: 

Viðurkennt er að allar þrjár myndir sagnarinnar,  -  höggvið /  hoggið /  höggið  teljast vera réttar.

Ómar Ragnarsson, 29.9.2011 kl. 14:09

10 identicon

Höggva.  Enn skal hoggið í sama knérunn finnst mér vera ófagurt mál.  En sinn er siður í landi hverju og ekki skal því mótmælt að öll dæmi Ómars eru í samræmi við hefð, enda hélt ég því ekki fram að hoggið væri rangt, en ég er þó sammála sjálfum mér í því að höggvið sé ólíkt fallegra en hoggið.  Í minni sveit var aldrei talað um að berklasjúklingar hefðu verið hoggnir en algengt að þeir væru höggnir. 

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 29.9.2011 kl. 15:15

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sammála Þorvaldi um að höggvið sé fallegast. En það sem réði hjá mér var einungis það að ég ólst upp við hina orðmyndina og hún datt því í gegnum lyklaborðið, enda ekki rangt mál.

Ómar Ragnarsson, 29.9.2011 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband