Erfiðustu viðfangsefnin.

Vofveifleg andlát og slysfarir eru erfiðustu viðfangsefni þeirra stétta, sem tengjast þeim, svo sem læknum, fjölmiðlafólki, lögreglu og prestum.

Það má ekkert út af bregða og verður að fara sérstaklega varlega og hafa í huga, að tilfinningar aðastandenda og vina eru eldfimar og að reiði getur verið fullkomlega eðlileg viðbrögð þeirra, sem eiga um sárt að binda.

Á löngum ferli mínum sem fjölmiðlamaður þurfti ég að ganga í gegnum það að þurfa í máli og myndum að greina frá verstu stórslysum síðasta fjórðungs 20. aldarinnar, allt frá snjóflóðunum í Neskaupstað til snjóflóðanna miklu 1995.

Það varð að vega og meta hvert orð og hvert myndskeið og aldrei var meiri þörf á því að margtékka á því að hvergi fyndist villa né missögn.

Ég gæti nefnt mörg dæmi um þetta.  Fyrsti fréttastjórinn minn, Emil Björnsson, var prestur, var því reynslunni ríkarii og miðlaði af henni. Ég reyndi mitt besta en slapp þó ekki alveg við að gera mistök.

Tel mig þó hafa verið heppinn, miðað við allan þann fjölda slysa og harmleikja, sem ég þurfti að fást við, að þau voru ekki fleiri né alvarlegri.

Eitt af því sem veldur aðstandendum oft hvað mestum sársauka er það, hvernig þeir frétta af slysinu.  Við þekkjum það öll að stærstu fréttirnar, sem við fáum á lífsleiðinni, eru þannig, að við munum nákvæmlega hvar við vorum þegar þær bárust okkur, og það er alls ekki sama, hvernig það gerist.

Á tímum farsímans og netsins hefur vandinn aukist stórlega og ekki öfundsvert fyrir lögreglu, lækna og fjölmiðlafólk að meta, hvernig eigi að höndla þetta.

Mistökin, sem nú er greint frá að hafi orðið varðandi harmleikinn á Útey, eru ótrúleg og nístandi sár fyrir það fólk sem þau bitna á.

Orðin "aðgát skal höfð í nærveru sálar" eiga sjaldan eins vel við og í þessum efnum.

Sigurveig Jónsdóttir, fyrrum fréttamaður og fréttastjóri, sagði við mig að þegar hún væri í vafa um það hvað ætti að segja og sýna, færi hún eftir því sem "maginn" segði henni, þ. e. ef hún fengi ónotatilfinningu á maganum, ætti að hætta við eða bíða og sjá til.

"Maginn segir mér að við eigum að bíða".

Mín dýrkeypta reynsla var sú að ekki ætti að hika við að taka myndir og afla upplýsinga, þótt það gæti verið afar erfitt og sárt.  Þarna væri um að ræða nauðsynleg gögn.

Það sem skipti máli væri ekki að myndirnar væru teknar, heldur hvort eða hvenær þær yrðu sýndar.

Þetta hafði ég til dæmis í huga þegar ég kom á vettvang hræðilegs slyss og tók myndir þar af illa útleiknu flaki sem var miðpunkturinn á hörmulegasta vettvangi slyss, sem ég hef komið á.

Ég tók fyrst nærmyndir og síðan færði ég mig lengra í burtu og hélt áfram að taka myndir þar til þær síðustu voru orðnar afar víðar og sýndu mjög lítið.

Ég fór síðan yfir myndirnar með fréttastjóranum og við ákváðum að sýna ekki þær myndir, sem teknar voru næst flaki farartækisins, sem um ræddi, og heldur ekki myndirnar sem voru teknar aðeins fjær, heldur myndirnar sem voru teknar það fjarri, að þær sýndu nokkurn veginn nógu mikið til að vera nothæf heimild, en að aðstandendur, sem sæu þær í sjónvarpinu, fengju þá tilfinningu, þegar þeir sæu þær, að við hefðum sýnt þeim tillitssemi í myndbirtingunni.

Þetta tókst, - ég vissi af biturnni reynslu annarra, að þetta var stórmál, og að ekkart mátti útaf bregða.

Niðurstaða: allan efa á að túlka aðstandendum í vil.


mbl.is Sagt að börn þeirra væru á lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband