16.10.2011 | 14:36
Sígandi lukka er best.
Lengan tíma ætlar það að taka fyrir þjóðina að átta sig á því, að sala á orku frá jarðvarmavirkjunum og þær sjálfar hlíta allt öðrum lögmálum en vatnsaflsvirkjanir.
Þegar fyrsta stóriðjan kom í Straumsvík var vitað fyrirfram hvað orkan yrði mikil í Búrfellsvirkjun og hve mörg tonn af áli væri hægt að framleiða með henni.
Nú er hálf öld liðin og aðstæður gjörbreyttar. Í stað þess að virkja þurfi til að fullnægja innanlandsþörf, snýst nú allt um það hvort hægt sé hér og nú að virkja tíu sinnum meira.
Og engin leið virðist að koma því til skila að eðli jarðvarmaorku er allt önnur en vatnsorku. Þótt hægt sé að áætla gróft um hve mikla orku sé að ræða á hverjum stað, kemur það ekki endanlega í ljós fyrr en nokkrir áratugir hafa liðið.
Þess vegna er galið að selja fyrirfram alla jarðvarmaorku heils landshluta þar sem eina fyrirfram gefna forsendan er að líklega endist hún í 50 ár.
Þar að auki getur slík orka hvorki flokkast undir endurnýjanlega orku né sjálfbæra þróun þótt því sé stanslaust logið að öllum.
Ólafur Flóvenz og Guðni Axelsson upplýstu í Morgunblaðsgrein að það sé hægt að nýta jarvarmaorku þannig að til langframa geti hún talist endurnýjanleg.
En þá þurfi að fara að með gát og vera viðbúinn því að þegar í ljós kemur að orkan muni fara að dvína verði hægt að draga úr orkuöfluninni til að finna jafnvægi.
Rökrétt afleiðing þessa er sú að eina rétta orkusölustefnan sé sú að selja orkuna frekar mörgum smærri fyrirtækjum af varkárni og ábyrgð heldur en að selja hana alla á einu bretti einum stórum kaupanda og eiga enga möguleika á að bregðast við orkuþurrð.
Nú stendur til að virkja í eldvörpum og eyðileggja einu "Lakagíga"-gígaröðina á öllu Suðvesturlandi.
Jarðfræðingar, sem ég hef haft samband við, segja að með því sé verið að sækja í sama orkuhólfið og er í Svartsengi sem þýðir á mannamáli að það á að pumpa hraðar upp takmarkaðri orku til þess eins að hún endist skemur.
Eldvarpavirkjun er því glapræði í tvöföldum skilningi og síðan má bæta því við að hún er hrópandi mótsögn við síbyljunni um endurnýjanlega hreina orku, sem er orðin að trúaratriði áltrúarmanna.
Uppskipun á gagnaveri í Helguvík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.