Allt í besta lagi, - hefðbundin gripahús.

Það er nokkuð umliðið síðan ég birti með myndum hér á blogginu hvað væri að gerast við jarðvarmavirkjanir hér á landi, svo sem vegna affallsvatns. 

Enn lengra er síðan ég hef fjallað um affallsvatnið sem rennur frá Nesjavallavirkjun í átt að Þingvallavatni og nú síðast hef ég bent á að affallsvatn hefur runnið um nokkurt skeið óhindrað frá Hellisheiðarvirkjun.

Þetta hefur auðvitað verið alger óþarfi og ekki vakið nein viðbrögð, af því að öllum virðist skítsama og affallsvatn hið besta mál. 'I góðu lagi að mengað vatn komist í Grjótagjá og síðar niður í Mývatn. 

En nú rennur upp fyrir fólki að í síðasta tilfellinu er um að ræða verðmætasta vatnsverndarsvæði landsins fyrir austan Reykjavík og að í húfi geti verið fyrirbæri, sem snertir þá sem eiga heima innan þeirra endimarka heimsyndarinnar sem er vestan við Ártúnsbrekku.  

Komið hefur fram að á sínum tíma reisti Landsvirkjun smalahús á norðlenskum heiðum og lagði þar  vegi fyrir heimamenn þegar Blönduvirkjun var komið á koppinn.

Við Þjórsá bauð fyrirtækið heimamönnum GSM samband og borgun kostnaðar vegna skipulagsvinnu.

Þegar Mörður Árnason missti orðið mútur út úr sér varðandi þetta ætlaði allt vitlaust að verða af hneykslun yfir orðavali hans.

Eins gott að nefna engin slík orð þegar áfram er haldið á sömu braut og í gerðum samningi boðin lýsing á tugi kílómetra þjóðvegar, ljósleiðari heim í hvert hús og hin hefðbundnu gripahús auk fleiri gylliboða eins og gert hefur verið við íbúa sveitarfélagsins sem hefur skipulagsvald á virkjunarsvæðinu á Hellisheiði.

Þetta hefur verið viðurkennd aðferð í áratugi hér á landi og sjálfsagt mál.

Málið er hins vegar aðeins flóknara á Hellisheiðarsvæðinu en það hefur verið áður vegna þess að nú kemur í ljós skipting "heimamanna" í tvo flokka: Annars vegar hinir æskilegu og "góðu" heimamenn sem eru til í stóriðjutuskið og hafa yfirrráð yfir virkjanasvæðinu og hins vegar aðrir "heimamenn" sem eiga heima mun nær virkjanasvæðinu en hafa engin yfirráð yfir því og mega því éta það sem úti frýs. 

Yfir þessa heimamenn í Hveragerði er valtað og hagsmunir þeirra og daglegt líf ekki virt viðlits en reynt að hygla hinum "heimamönnunum" sem mest má verða.

"Follow the money" segir bandarískt máltæki um það hvernig eigi að öðlast skilning á ýmsum málum, "rektu slóð peninganna."

Slóð peninganna í þessu máli liggur um Þrengslaveginn frá Reykjavík til Þorlákshafnar. Þess vegna eru ákvæði í samningi um að lýsa upp Þrengslaveginn en ekki miklu fjölfarnari þjóðleið og varasamari sem liggur yfir Hellisheiði. Í vondum og köldum vetrarveðrum mega þeir mörgu sem um þann veg fara éta það sem úti frýs.   

Það hlálega við þetta er að árum saman hefur án árangurs verið þrýst á að fá lýsingu á Hellisheiðarveginn en síðan kemur það upp að fyrir liggur samningur um að lýsa upp margfalt fáfarnari veg.

Þetta mál er eitt af mörgum sem sýnir í upp á hvaða ógöngur núverandi fyrirkomulag í sveitarstjórnarmálum getur boðið oft á tíðum.


mbl.is Mengað affallsvatn í grunnvatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Í viðtali Kastljóssins við Bjarnba Bjarnason sem er jarðfræðingur að mennt, kom fram að hann hefði viljað fara mildari og varfærnari leið að markmiðinu: að virkja jarðhitann.

Stjórnmálamennirnir á hægri kantinum hafa gerst offari: þeir vaða áfram við að lofa til vinstri og hægri og núa síðan þeim stjórnmálamönnum um nasir að grafa undan atvinnuuppbyggingu þó þeir séu uppteknir upp fyrir haus að moka skítaflórinn eftir loforðaveisluna.

Því miður er þessi þjóð ekki nógu gagnrýnin á fagurgalann. Lýðskrumið hefur verið ær og kýr vissra stjórnmálamanna og þeir virðast ekki átta sig einu sinni á gjörbreyttum forsendum í umhverfinu sínu, hvorki sínu nánasta né því alþjóðlega. Þeir blása eins og hvalir þó þeir Alkóamenn telji sig ekki hafa lengur áhuga fyrir fleiri álbræðslum á Íslandi. Það borgar sig ekki lengur nema Íslendingar séu því vitlausari að afhenda orkuna þeim hagkvæmar og að þeir séu kannski tilbúnir að vinna fyrir lægra kaup.

Í fréttum á dögunum segir að álvinnsla hafi aukist um 6% í heiminum, mest í Kína. Í Bandaríkjunum eru menn að vakna upp við vondan draum við að öskuhaugar þeirra eru að fyllast. Þaðan er litið til norður og vestur Evrópu með undrun hve endurvinnsla á áli gengur þar vel og unnt að ná betri hagkvæmni.

Hvað segir þetta okkur? Loksins er að koma til endurmats á stöðu þessara mála, eitthvað sem hvorki Framsóknarflokkurinn og þaðan af síður Sjálfstæðisflokkurinn eru tilbúnir að taka afstöðu til. Í hugum þessara manna er aðeins eitt: virkja meira, það þarf ekkert að hugsa um verðmæti náttúrunnar, hún hefur hvort sem er verið talin einskis virði.

Vonandi rennur nýr dagur upp í umhverfisvitund allra Íslendinga. Ekki aðeins meðal andstæðinga álbræðsluáhugamanna heldur einnig meðal þeirra sem fram að þessu hafa talið álbræðslur eina framtíðarmöguleika Íslendinga. Ljós megi renni upp fyrir þeim að þetta var eins og hvert annað mýraljós eins og Mörður Árnason líkti þessari álglýju svo vel á dögunum.

Góðar stundir!

GJ

Guðjón Sigþór Jensson, 19.10.2011 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband