22.10.2011 | 00:00
Spádómar lagsins "Árið 2012" að rætast.
Fyrir 45 árum var gerð tilraun til að skyggnast fram til ársins 2012, sem mönnum þótti ógnarlangt frammi í framtíðinni í textanum "Árið 2012" sem Vilhjálmur Vilhjálmsson söng með frábærum undirleik og útsetningu Magnúsar Ingimarssonar.
Magnús var ekki aðeins frábær hljómlistarmaður heldur einnig ágætur textasmiður samanber textinn "Marína" sem hann gerði og er afar lipurlega og vel gerður.
Við settumst saman niður nótt eina á þáverandi heimili mínu að Rauðalæk 12 til að hespa af texta, sem ég var byrjaður á og þoldi enga bið, því að komið var að því að fara í hljóðver og syngja hann inn á plötu.
Skoðum nokkrar hendingar í þessu spádómakvæði frá 1967:
"....Og ekki hafði neitt að gera útvarpsstjóri vor
því yfirmaður hans var lítill vasatransistor
og þingmennirnir okkar voru ei með fulle fem
því forsætisráðherrann var gamall IBM."
Á þessum tíma þurfti heilan sal til að koma fyrir tölvu, sem gæti leyst hluta af þeim verkefnjum sem örsmáar lófatölvur og farsímar leysa nú en okkur grunaði að rafeindatækni framtíðarinnar myndi gerbylta öllu og létum því gamminn geysa í textanum og gáfum í skyn að þessi tækni myndi í raun taka flest verkefn, störf, úrlausnarefni og völd af ráðamönnum heimsins.
Við þekktum auðvitað ekki framtíðarheiti eins og Microsoft, Macintosh eða snjallsíma svo að nærtækast var að nota orðið transistor og IBM úr því ekki var annað að hafa.
Netið, Facebook og YouTube voru lika hugtök sem við að sjálfsögðu gátum ekki nefnt en látið okkur gruna að eitthvað í þá áttina yrði til.
Ýmislegt fleira úr þessum texta hefur ræst og jafnvel farið fram úr mestu órum okkar.
Við sáum fyrir okkur að fólki þyrfti ekki að fjölga með hefðbundnum aðferðum samanber þessar hendingar:
*....Mig dreymdi ég væri giftur þeirri sömu sem ég er.
Hún sagði: "Ó, mér leiðist þetta barnaleysi hér."
Ég gerðist nokkuð bráður og vildi bæta úr því strax.
"Nei, bíddu," sagði hún, "góði. Við notum pillur nú til dags."...."
Okkur datt ekkert annað í hug en pillur sem aðferð í þessum efnum til að gera hefðbundnar aðferðir óþarfar en óraði ekki fyrir tilvist klónunar, tæknifrjóvgunar og staðgöngumæðrum.
Ég er að velta fyrir mér hvort hægt sé að gera sams konar texta 45 ár fram í tímann fyrir árið 2057 eða jafnvel fyrir árið 2112 en býður í grun að rétt sé að láta það ógert.
Samfélagsmiðlar mikilvægari en ríkisstjórnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég skora á þig Ómar Ragnarsson að gera nákvæmlega þetta
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.10.2011 kl. 01:07
Sæll Ómar.
Mér hefur lengi fundist þetta yndislega framsýn hugsun í formi texta, og finnst reyndar enn, og ég hygg að áfram skuli menn horfa fram á veginn framfyrir það sem enn er, því það er þörf.
kv.Guðrún María.
Guðrún María Óskarsdóttir., 22.10.2011 kl. 01:10
Ég skora á útvarpsstjóra vorn, að láta gera eitthvert skemmtilegt myndband við þetta lag, (eða jafnvel einhvern tónlistar "þemaþátt" í kringum það) og spila strax á eftir korktappadansinum næstu áramót. Þarf ekkert að vera neitt rándýrt.
Eysteinn Kristjánsson (IP-tala skráð) 22.10.2011 kl. 02:53
Það væri mjög gaman að fá "framhald" af þessu lagi, ég var einmitt að hlusta á það bara fyrir nokkrum dögum í vinnunni.
Hermann Sigurðsson (IP-tala skráð) 22.10.2011 kl. 05:52
Ég er búinn að gera framhald af textanum "Árið 2012" sem þeir Jóhann Vilhjálmsson, sonur Vilhjálms heitins, og Óskar Pétursson ætla að syngja á diski.
Í þessum seinni hluta textans verður tekið fyrir hvað hefur ræst úr spádómum gamla textans, en það er hvað grunnhugsun snertir, ótrúlega margt.
Ómar Ragnarsson, 22.10.2011 kl. 20:54
Spennandi...
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.10.2011 kl. 21:11
"Þeir" eru samt ekki enn búnir að steypa tunglið í hólf og gólf en frábær texti samt og framsýnn að mörgu leyti.
Góð hugmynd hjá Eysteini #3
Gunnar Th. Gunnarsson, 22.10.2011 kl. 22:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.