Kerfið sér um sig.

Bandarísk stjórnvöld misstu tökin á fréttaflutningi og myndbirtingum í Vietnamstríðinu og það var ein meginástæðan fyrir því að bandarískur almenningur snerist smám saman gegn því þegar honum var ljóst hvers eðlis stríðið var.

En valdakerfið lærði af þessu og síðan hefur ekki aftur verið háð stríð í fjölmiðlum nema að mjög takmörkuðu leyti, því miður.

Wikileaks hefur gegnt afar mikilvægu hlutverki og lyft Grettistökum í bráðnauðsynlegri upplýsingamiðlun sem er ómetanlegur hluti af því hlutverki fjölmiðla heimsins að miðla lífsnauðsynlegum upplýsingum um staðreyndir og mismunandi sjónarmið og skoðanir.

Það er því harmsefni og aðför gegn lýðræðinu ef valdakerfi auðræðisins hefur tekist að stöðva starfsemi Wikileaks. Því að lýðræði er markleysa ef fólkið fær ekki réttar og nauðsynlegar upplýsingar og aðgang að mismunandi sjónarmiðum.  

Þótt ekki sé nefnt annað en myndskeiðið fræga af árás herþyrlu á saklausan almenning á götu í Bagdad nægir það til að sýna í hnotskurn hvaða hlutverki Wikileaks hefur gegnt.

Þessi uppljóstrun minnti um margt á það þegar Dreyfus-málið var afhjúpað fyrir rúmri öld. Munurinn er hins vegar sá að réttlætið sigraði að lokum í Dreyfus-málinu en þeir sem drápu varnarlausa og saklausa borgara í Bagdad þurftu ekki að axla ábyrgð á gerðum sínum.

Framundan á næstu árum og áratugum er hrun auðlinda heimsins og fjármálakerfis sem lífsnauðsynlegt er fyrir mannkynið að bregðast strax við og milda eins og hægt er til þess að bjarga því sem bjargað verður.

En valdakerfi auðræðisins munu streitast við að stjórna  þessu sjálft, og því hatrammlegar mun það berjast sem nauðsynlegra verður að opna upplýsingastreymið í stað þess að loka því.

Valdakerfinu virðist hafa tekist að svínbeygja kortasamsteypurnar með hótunum og fjárkúgun og beita öllum þeim löglegu og ólöglegu og siðlausu ráðum, sem það hefur fundið til að loka sér.

Kerfið sér um sig, - það sannast hér enn og aftur.


mbl.is Wikileaks hættir að birta skjöl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er ástæða fyrir því að lokað hefur verið á fjárstreymið og hún er sú að wikileaksmenn hafa birt trúnaðarskjöl sem stefnt hefur "saklausu" fólki í voða.

Julian Asagne er ekki hugsjónamaður, það hlýtur hver maður að sjá.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.10.2011 kl. 14:15

2 identicon

Hvað meinarðu með að hann sé "ekki hugsjónamanður"? Ef þú ert ósammála honum eða heldur að hann sé ekki að gera rétta hluti, þá er það ekki vegna skorts hans á hugsjónum.

Danni (IP-tala skráð) 24.10.2011 kl. 14:19

3 identicon

Gegnsæi og upplýsingar eru af því góða, en höfum í huga, þar eru einnig "limits".

Þá er ég sammála Gunnari Th., flest bendir til þess að Julian Asagne sé total vanhæfur til að fara fyrir stofnun eins og Wikileaks.  

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 24.10.2011 kl. 15:11

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mjög margt af því sem komið hefur frá wikileaks er hið besta mál. Við Haukur erum samt sammála um að Julian sé vanhæfur.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.10.2011 kl. 18:52

5 identicon

Ég er ekki í vafa um að Julian hafi í byrjun verið fullkominn hugsjónamaður.

En einhverstaðar á leiðinni virðist þessi ágæti maður hafa tapað "neistanum", eftir því sem frægð Julians reis þá virðist hégómi hans hafa stigið á sama hraða.

Ef vitnað er í samskiptavandamál Julians við sína samverkamenn hjá Wikileaks, þá virðist líklegt að Julian dagsins í dag ekki vera sami Julian og ferðina hóf.

Þetta er reyndar klassískt dæmi um hve hratt frægð og drambsemi einstaklinga í kjölfar frægðarinnar breytir mörgu fólki til hins verra, sorgarsaga sem á sér þúsundir hliðstæðna á hverjum degi..því miður.

Julian á þó skilið hrós fyrir það sem hann hefur afrekað, vonandi nær hann sér á strik að nýju því brýn er þörfin fyrir fólk í hans fagi.

runar (IP-tala skráð) 24.10.2011 kl. 19:00

6 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Það var á fleiri sviðum en fjölmiðla sem skrúfað var fyrir tjáningarfrelsi. En þetta er annar heimur og náttúrulega hefði enginn skilið hvað vefsíða var á árum Víetnam stríðsins. Mjög margir fá sínar fréttir af netinu, þar sem ennþá er hægt að tjá sig.

Spurningin er hvað það endist lengi og hvenær verður skrúfað fyrir vefsíður frjáls upplýsingaflæðis. Wikileaks rakst á þetta sem vandamál þegar þeirra upplýsingamiðlun var stoppuð á vefsíðum stórra auðhringa.

Ólafur Þórðarson, 24.10.2011 kl. 20:11

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er sammála þér, Gunnar, hvað það varðar að ákveðnar upplýsingar geti skapað hættu fyrir saklaust fólk. En ég hef ekki séð nefnd ákveðin dæmi um að svo hafi verið og vitað er að Wikileaks lét vera að aflétta leynd af fjölmörgum atriðum sem svo háttaði um.

En skortur á nauðsynlegum upplýsingum á eftir að valda miklu fleira fólki tjóni þegar upp verður staðið heldur en færðar hafa verið sönnur á að upplýsingagjöfin hafi valdið.

Ómar Ragnarsson, 24.10.2011 kl. 20:48

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Reglan sem þú tiltekur er allmennt kölluð varúðarreglan, og eins og þú sérð þá er sönnunarbyrðin aðeins á anann veginn, ekki hinn: Framkvæmdaraðilinn verður að sanna að framkvæmdin hafi ekki alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Af þeim sökum hefur verið talað um að náttúran njóti vafans, - sönnunarbyrðin er framkvæmdaraðilanna.

Ómar Ragnarsson, 24.10.2011 kl. 20:58

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fyrirgefið, að ég ruglaðist á pistlum. Ofangreindar athugasemdir áttu að vera við næsta pistil á undan !

Ómar Ragnarsson, 24.10.2011 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband