24.10.2011 | 20:26
Athyglisverð atvik fyrir 15 og 20 árum.
Fyrir um tuttugu árum var ég í fréttaöflunarferð fyrir Stöð 2 í þörpi einu á Snæfellsnesi og komst þá að því, að þar hafði orðið árekstur á götu, sem var merkt með einstefnuakstursmerki.
Tryggingarfélagið, sem bæta þurfti tjónið, úrskurðaði að báðir bílstjórarnir bæru ábyrgð á árekstrinum, líka sá sem ók inn í götuna í þeirri trú að þar væri einstefna.
Rökin á bak við þennan úrskurð voru þau að almennt væri einstefnumerkið ekki virt þarna og að það væri á almanna vitorði í plássinu.
Bílstjórinn sem ók í einstefnuáttina hefði ekki sýnt næga aðgæslu gagnvart því að umferð gæti komið á móti einstefnumerkinu eins og iðulega gerðist þarna.
Sá bílstjóri andmælti þessu á þeim forsendum að hann væri aðkomumaður sem hefði ekki vitað það sem væri á almanna vitorði hjá heimamönnum og hugðist hann fara með málið lengra og sagði mér málavöxtu. Hann stæði í stappi við tryggingafélagið og kannski væri þetta ekki einsdæmi.
Mér fannst málið athyglisvert, tók myndir af vettvangi og byrjaði síðan að tala við málsaðila í því skyni að gera um þetta sjónvarpsfrétt.
Þá brá svo við að tryggingafélagið breytti úrskurði sínum þannig að bílstjórinn sem ekki virti einstefnuakstursmerkið, var gert að bera allt tjónið. Líklega hefur félaginu borist pati af því að málið gæti rataði í fjölmiðla og ekki litist á blikuna að standa í frekara stappi.
Fyrir 15 árum lenti ég í árekstri fyrir utan þáverandi Sjónvarpshús við Laugaveg.
Sendibíll ók lafhægt í austurátt meðfram húsinu og gaf með stefnuljósi til kynna að hann ætlaði að beygja til hægri upp sund við húsið.
Ég hugðist þá renna bíl mínum meðfram sendibílnum, en lenti þá í afar hávaðamiklum árekstri, því að við það að beygja til hægri, sveiflaði sendibíllinn opnum afturdyrahlera til vinstri sem skar upp alla hægri hlið bíls míns eins og beittur hnífur.
Ég hefði kannski séð þennan opna afturdyrahlera ef ég hefði verið á lægri bíl, en hlerinn var örþunnur þannig og vísaði á ská upp í átt til mín þanig að frá mér að sjá var jafnerfitt að sjá hann og örþunnt rakvélarblað, enda skein morgunsól á móti.
Sendibílstjóri, sem er með svona afturhurðarhlera niðri svo að hann stenndur aftur úr bílnum og sveiflar honum til og frá í þéttri föstudagsumferð eins og var í þessu tilviki, þverbrýtur að sjálfsögðu lög og skapar stórhættu í umferðinni.
Svona hleri er eins og risastórt beitt sverð og ég hef séð þetta gerast síðan hjá fleirum.
Samt úrskurðuðu tryggingarfélögin tvö, sem tryggðu bílana, að ég skyldi bera helming tjónsins hvað varðaði sjálfsáhættu, þannig að báðir bílstjórarnir misstu bónusinn, sem þá var inni í tryggingarskilmálum.
Með því að skipta tjóninu og sökinni á milli beggja bílstjóra minnkuðu félögin heildarútgjöld sín vegna árekstsurins.
Ég andmælti þessu kröftuglega á þeim forsendum að engin leið hefði verið fyrir mig við þessar aðstæður að sjá hinn lárétta opna hlera en það var ekki tekið til greina.
Ég benti á að sendibílstjórinn hefði með því að beygja sveiflað hleranum í veg fyrir mig yfir miðlínu vegar en það var heldur ekki tekið til greina.
Ég fór að kynna mér ástand þessara mála og kom í ljós að þetta væri ekki eina dæmi þess að sendibílstjórar þverbrytu lög með því að aka með hlerana niðri.
Aðrir ökumenn, sem höfðu lent í því að verða fyrir hlerunum, höfðu verið úrskurðaðir orsakendur árekstranna að hálfu. Þetta var orðið að hefð eins og að það var orðið að hefð að skipta tjóni fyrir vestan þegar bílar óku á móti einstefnuakstursskilti og lentu í árekstrum.
Ég spurðist fyrir um það hvort ég mætti eiga von á því að vera úrskurðaður valdur að eigin örkumlum ef einn vegfarenda gengi um gangstétt og tæki upp á því að sveifla beittu sverði í allar áttir, sem ekki væri hægt að sjá, og það lenti á mér.
Svarið var að þegar sendibílar ættu í hlut ættu aðrir bílstjórar að vera viðbúnir því að hlerarnir á sendibílunum kynnu að vera opnir. Svipuð röksemdafærsla og vestur á Snæfellsnesi.
Mér sýndist þetta mál geta orðið ágætis umfjöllunarefni í sjónvarpi, en í þetta sinn gat ég ekki gert neitt á þeim vettvangi nema vera sakaður um að misnota aðstöðu mína, jafnvel þótt ég greindi öðrum fjölmiðlamönnum frá þessu. Þeir voru jú kollegar mínir.
Svo fór að ég hafði hvorki tíma né fjármuni til að fara í mál með þetta og lét mig hafa það að borga helming sjálfsáhættunnar í tryggingunni, sem var í kringum 200 þúsund krónur á núvirði.
Fróðlegt væri að heyra álit fóks á atvikum sem þessum.
Harma slys við Dalveg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég lenti í dæmi þar sem um var að ræða stóran breyttan jeppa sem koma á fleygiferð niður Skólavörðustíginn (þar er 30 km hámarkshraði en hann var minnst á 50 km hraða) og gerði sá sem var undir stýri sér greinilega enga grein fyrir umfangi bílsins, enda stóðu dekkin um 20 cm út fyrir brettin sem sjáanleg voru úr bílstjórasætinu. Það þarf nokkuð góða rýmistilfinningu til að meta raunverulega stærð bíls þegar maður sér ekki ystu mörk hans. Dekkin voru álíka há og bíllinn minn.
Skóf hann af mér hliðina með þessum risadekkjum, en minn bíll var orðinn nær kyrrstæður, enda gat ég ekkert sveigt því þá hefði ég farið inn í bílana sem stóðu parkeraðir meðfram götunni. Dekk tröllsins voru smá ksödduð en að örðu leytisá ekki á jeppanum. Ég var heppin að slasa ekki vinstri hendina, en ég get þakkað það góðum viðbrögðum að ekki fór ver. Ég var dæmd til að bera helming tjónsins og mótmælti hástöfum við tryggingarfélagið mitt og krafðist þess að fá að sjá skýrsluna sem lögreglan tók af okkur bílstjórunum. Í skýrslunni stóð að ég hefði lent í árekstri við fólksbíl!! Ekki jeppa, ekki breyttan jeppa, heldur fólksbíl! Spurður um á hvaða hraða jeppinn hefði verið á hafði ökumaður hans svarað (og lögregla samviskusamlega skráð) að hann hefði verið á umferðarhraða!!! Hvað þýðir það nú, spurði ég, hvað er að vera á umferðarhraða t.d. ef allir keyra á 100 km þó leyfilegur hraði sé 60 km???? Er þetta bara eitthvað svona orð sem maður getur notað? Reyndar komst ég að því fljótlega að ökumaður jeppans vann hjá slökkviliðinu og virtist þekkja til lögreglumannanna sem komu á vettvang, og hagræddu staðreyndum málsins talsvert að mínu mati, kunningja sínum í hag. Þessi orð mín er ómögulegt að sanna. Ég reyndi. Það var óumbreytanlegt að ég lenti sem sagt í árekstri við fólksbíl á umferðarhraða!
Tryggingarfélagið var reyndar mjög sympatískt fyrir mínu máli, þó vísað væri í fyrri fordæmi, það hafði nefnilega annað svipað mál á sínu borði þar sem breyttur jeppi hafði lent í árekstri við fólksbíl og sá ökumaður vildi heldur ekki sætta sig við "fordæmis"niðurstöðu tryggingarfélagsins.
Var mér ráðlagt að skrifa erindi til kærunefndar tryggingarfélaganna og Umferðastofu, sem ég og gerði. Allir voru mjög skilningsríkir, töluðu um að það væri alveg tímabært að hefta umferð stórra, breyttra bíla í miðborginni þar sem göturnar eru raunverulega ekki nógu breiðar til að taka við umferð margra slíkra farartækja. En ekkert gerðist.
Ég bar minn hluta tjónsins og enn keyra bílatröllin um hverfið mitt, í einkaerindum og með erlenda ferðamenn, stundum keyra 10 svona jeppar í röð um göturnar í Þingholtunum og á Skólavörðuholtinu. Þetta eru bílar á stærð við landbúnaðarvélar, og ég er ekki viss um að umferð traktora eða jarðýtna væri vel séð, nema af brýnni nauðsyn. Útlendingum finnst mjög skrítið að þetta skuli leyft í borginni.
Í sambandi við ferðamennskuna (sem ég vinn í sjálf á sumrin) þá get ég ekki skilið af hverju er ekki hægt að ná í ferðamennina á hótelin í skutlum og fara með þá í þessa jöklajeppa t.d. upp á Höfða, og eins hvort það er nauðsynlegt að stórar rútur séu að ná í og hleypa fólki út beint fyrir utan hótelið eða gistheimilið, sérstaklega þar sem engin aðstaða er til slíks, eins og oft er áberandi t.d á Laugaveginum og víðar í gamla miðbænum á sumrin. Erlendis þekkist þetta ekki, þar eiga hótelin sjálf litlar skutlur sem eru notaðar til að koma fólki á rútustöðvar eins og BSÍ. Jeppatröllin gætu staðið uppi á Höfða og fólk verið keyrt á minni bílum þangað áður en haldið er út úr bænum.
Ég get líka eytt mörgum orðum á hversu mikið pláss þessi ferlíki taka á bílastæðum borgarinnar, sem eru hönnuð útfrá alþjóðlegum stöðlum um breidd bíla (sem eru líka notaðir í bílaframleiðslu) en þegar bílunum er breytt þá brjóta menn alla slíka staðla (líka öryggisstaðla) og þeir passa ekki í nein stæði. Ég hef einu sinni lent í stæði með minn fólksbíl á milli tveggja svona trölla og ég var virkilega hrædd þegar ég bakkaði út, því ég sá ekkert til hliðanna vegna stærðar bílanna. Ég held að það sé löngu tímabært að takmarka umferð þessara bíla í borginni, að minnsta kosti í miðbænum þar sem göturnar eru ekki hannaðar með svona tröll í huga.
Harpa Björnsdóttir, 24.10.2011 kl. 21:39
Þetta eru svokölluð tryggingasvik.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 24.10.2011 kl. 22:08
Nokkuð algengt var að tryggingafélög komust upp með að ákveða að báðir aðilar bæru 75% tjóns! Neytendavernd hefur aldrei verið hátt skrifuð. En bílatryggingar eru tryggingafélögunum ekki alltaf hagkvæm.
Nú er tilgangur umferðalaga að koma í veg fyrir slys og óhöpp með því að setja fram skynsamlegar og sanngjarnar reglur sem allir eiga að fara eftir. Þannig er lögð sú kvöð á alla vegfarendur að þeir hvorki með athöfnum sínumeða athafnaleysi valdi öðrum tjóni með því að skapa hættu. Þannig ætti ökumaður sendibíls eða vöruflutningabirfreiðar aldrei að leggja af stað öðru vísi en að ganga úr skugga um að vörulyfta eða hleri aftan á bílnum sé þannig frágenginn að hann valdi ekki hættu.
Á sama hátt er bannað að aka fram úr öðru ökutæki hægra megin sem allt of oft sést í umferðinni á Íslandi. Sé ökumaður staðinn að verki við slíka iðju erlendis t.d. í Þýskalandi getur það orðið tilefni að háum sektum og jafnvel meira ergelsi. En hér er því miður allt meira og minna agalaust enda margir sem telja það sé allt í lagi að fara ekki eftir reglum. Allir hinir eiga að gera það. Sýndi það sig ekki á Dalveginum í Kópavogi nú fyrir skömmu þar sem vörubílsstjóri ók vísvitandi gegn einstefnu og olli lífshættulegu tjóni gagnvart öðrum vegfarenda?
Guðjón Sigþór Jensson, 24.10.2011 kl. 23:29
Fyrir nokkrum árum fékk ég rukkun fyrir tryggingunum á bílnum og sé að þær hafa hækkað nokkuð mikið.
Tala við tryggingarfélagið og þar mér tilkynnt að ég hafi valdið tjóni og þess vegna hafi tryggingarnar mínar hækkað. Þar sem ég vissi ekki til að ég hafi valdið neinu tjóni þá vildi fá að sjá skýrslu tryggingarfélagsins um þetta dularfulla tjón. Þar er mér sýnd skýrsla sem undirrituð er af kvenmanni , sem ég veit engin deili á. Ég var auðvitað ekkert sáttur við þetta og vildi fá skýringar tryggingarfélagsins. Þeir nenntu ekkert að hafa samband og voru búnir að borg út eitthvert tjón. Engin undirskrift mín, en það voru stafir skrifaðir á blaðið !
Bíddu við, er bara borgað út peningar frá tryggingarfélögunum á kostnað viðskipavina án þess að þeirra viðskiptavinir eigi nokkurn möguleika að bera við andmælum ?
Eru þið tryggingarfélagið mitt ekki minn umboðsaðili varðandi svona mál ? Og hvers vegna er ekki haft samband við mann þegar svona mál koma upp ?
Þegar þarna er komið þá segir tryggingarfélagið að ég hafi einn möguleika og það er að kæra til lögfræðinganefndar tryggingarfélagana. Ég sætti mig auðvitað ekkert við þetta og sagði tryggingarfélaginu að ég ætlaði að fá mér lögfræðing til að eiga við þá, því ég hafði annað þarfara við tíman minn að gera en eyða í svona vitleysu.
Ég hafði samband við lögfræðing sem ég þekki og við semjum bréf til tryggingarfélagsins. Eftir fjóra daga frá því bréfið er sent er hringt til mín og mér er boðið sátt í málinu. Sáttin fólst í því að ég ætti að taka á mig helming tjónsins sem tryggingarfélagið bjó til á mig ! Ég sagði við manninn frá tryggingarfélaginu að hann mætti alveg senda mér bréf með þessum óskum sínum. Ég hafði nefnilega ekkert fengið í hendurnar annað en rukun fyrir hærri tryggingargjöldum og þess vegna hafði ég enga sönnun á neinu í höndunum. Þarna fékk ég tækifæri til að fá eitthvað í hendurnar.
Nokkrum dögum seinna fékk ég bréf frá tryggingarfélaginu. Þar er ég beðin afsökunar á öllum málatilbúnaðinum og boðið að fá helmingslækkun á tryggingargjöldum !
Þetta er ótrúlegt og ég er enn að velta því fyrir mér hvort þessi kona sem skrifaði undir skýrsluna hafi verið starfsmaður tryggingarfélagsins ?
JR (IP-tala skráð) 25.10.2011 kl. 20:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.