26.10.2011 | 20:26
Ekkert mál á einni helgi 2007.
Álversloftkastalanir, sem voru byggðir upp í græðgisbólunni voru skilgetið afkvæmi þeirrar hugsunar sem spennti hér allt upp úr öllu valdi og olli hruninu.
Í 2007 vímunni var það ekkert mál að ákveða það á einni helgi að vaða út í byggingu álvers sem augljóslega gæti ekki orðið minna en 340 þúsund tonn og þyrfti 700 megavatta orku til þess að verða hagkvæmt að lokum.
Og ekki bara það. Ákveðið var fyrirfram að ana af staðog byrja að byggja í Helguvík þótt verkefnið þyrfti að fara inn á borð hjá tólf sveitarfélögum í formi virkjana, háspennulína, vega og annarra mannvirkja.
Þetta var í hugum áltrúarmanna ekkert mál, - bara slá lán og slá lán og vaða áfram, því að ef einhver fyrirstaða kæmi upp, yrði mönnum stillt upp við vegg frammi fyrir orðnum hlut og leggja sitt af mörkum til að "bjarga verðmætunum."
250 milljarða lán? Ekkert mál, ná í þessa peninga strax!
Þessir menn hafa ekkert lært af Hruninu og orsökum þess heldur trúa því að hægt sé að æða áfram sem fyrr.
Þeir geta heldur ekki séð að neitt sé rangt við þetta heldur eru þeir, sem höfðu athugasemdir fram að færa, úthrópaðir sem "öfgamenn", sem eru "á móti rafmagni, framförum, atvinnuuppbyggingu og vilja heldur fara aftur inn í torfkofana."
Ekki gert á einni helgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ál er heldur meira mál ..dýrt og langsótt.Nær væri að auka fullvinnslu sjávarafurða og er það hundrað sinnum minni fjárfesting miðað við hvert starf.
pollus (IP-tala skráð) 26.10.2011 kl. 20:39
Öllu þessu jafnt er ég bara sammála þér Ómar minn í þetta sinn.
Það var náttúrulega ótrúlega frakkt af þeim að byrja að byggja álver í Helguvík án þess að öll leifi væru í höfn...
Stefán Stefánsson, 26.10.2011 kl. 20:40
Þessir menn hafa ekkert lært af Hruninu og orsökum þess heldur trúa því að hægt sé að æða áfram sem fyrr.
Þeir geta heldur ekki séð að neitt sé rangt við þetta heldur eru þeir, sem höfðu athugasemdir fram að færa, úthrópaðir sem "öfgamenn", sem eru "á móti rafmagni, framförum, atvinnuuppbyggingu og vilja heldur fara aftur inn í torfkofana." //Ómar þú eiginlega svarar þessu sjálfur,við eigum að virkja ekki spurning,annars engin hagvöxtur klára þetta Álver svo ekki fleiri,en selja rafmagnið í arðært ekki veitir okkur af,eða hvaðan kemur gjaldeyrrin Fiskur Álver ferðamennska og hugverk,ef ekki þá hvað/Kveðja
Haraldur Haraldsson, 26.10.2011 kl. 20:43
Þú snertir hérna á brotalöminni. Hér voru tekin erlend lán til uppbyggingar fyrir erlend fyrirtæki, þótt við borguðum lánin. Þessar framkvæmdir juku tölur um þjóðarframleiðslu út úr öllu korti og svo var lánshæfismatið metið eftir því (VLF (GDP)) og allir fengu að lána eins og þeir gátu í sig látið.
Hagnaðurinn af framleiðslunni var hinsvegar fluttur úr landi. Eina sem við fengum voru laun fyrir nokkra verkamenn og svo botnlausar skuldir.
Sér einhver vítiskúluna velta? Af hverju sá það enginn fyrr?
Jón Steinar Ragnarsson, 26.10.2011 kl. 22:29
"Lausafjárstaða Landsvirkjunar hefur aldrei verið sterkari. Forstjórinn segir að áherslan verði nú á Þingeyjarsýslur og staðfestir að samningaviðræður standi yfir við Alcoa.
Ársreikningur Landsvirkjunar sem birtur var í dag sýnir hreinar eignir upp á 188 milljarða króna, sem skiluðu á síðasta ári 26 milljörðum króna í handbært fé, og átti fyrirtækið um áramót 66 milljarða króna í lausu fé, sem er það mesta í sögunni.
Auknar raforkutekjur af álverum skýra aukinn hagnað, en Landsvirkjun segir að þar komi til bæði aukin sala og hærra verð vegna verðhækkana á áli. Þannig hækkaði meðalraforkuverð til stóriðju um 32 prósent milli ára, úr 19,5 upp í 25,7 dollara á hverja megavattstund.
"Nei, þetta eru ekki könnunarviðræður. Þetta eru alvöruviðræður, í fullri alvöru,
Hörður staðfestir að Alcoa er tilbúið að laga sig að orkugetu héraðsins."
Forstjóri Landsvirkjunar, 18. mars2011
Á sumarmánuðum voru settar pólitískar þumalskrúfur á Hörð. Sú aðgerð varð til þess að hann sagði þetta 20. október sl.:
"Forstjóri Landsvirkjunar segir samningaviðræður við Alcoa um raforkukaup vegna Bakkaálvers hafa verið á frumstigi, ólíkt því sem forstjóri Alcoa hefur haldið fram. Alcoa hafi ekki getað lagað sig að orkuframboði "
Þíð getið kallað erlendar stórfjárfestingar á Íslandi "loftkastala", því allar áætlanir um slíkt eru það auðvitað á meðan núverandi ríkisstjórn, "Helferðarstjórnin" er við völd.
Álverið í Reyðarfirði er hins vegar enginn loftkastali.
Gunnar Th. Gunnarsson, 27.10.2011 kl. 00:44
Ég lít inn á síðuna þína nánast á hverjum degi og finn fyrir samhljóm míns og þíns í flestum færsulunum þínum. Gangi þér vel Ómar og lifðu heill.
Björn Jóhann Guðjohnsen (IP-tala skráð) 27.10.2011 kl. 01:09
En Árni Sigfússon og hans hirð situr sem fastast þar í Reykjanesbæ. Hvenær fá þessir menn að taka pokann sinn?
Úrsúla Jünemann, 27.10.2011 kl. 10:12
Jón Steinar, menn og konur sáu þetta fyrir - til dæmis í kennaraverkfallinu 2004, þá átti ég hagsmuna að gæta, og til að vera nú vakandi um efnahagsmálin fór ég oft á heimasíður almennu bankanna og Seðlabankans, og skoðaði þá sérstaklega vísistöluspár þeirra og hagspár fram í tímann.
Þar var gert ráð fyrir 3-4% verðbólgu á ári fram til 2007, þegar hún átti að hækka um ca helming vegna framkvæmda við Kárahnúka og upp í 8-10% árið 2008 vegna sömu framkvæmda, sem áttu þá að vera á lokastigi. Þannig að í þessum framtíðarspám bankanna og Seðlabankans var alltaf sýnt mjög skýrt að verðbólguskot myndi verða árin 2007 og 2008 vegna virkjanaframkvæmdanna við Kárahnúka, það var engin launung á því. (Annað sem talið er hér upp á eftir var ekki inni þessu). Þetta var mér áhyggjuefni þar sem samningstilboð sveitarfélaganna til kennara var þess eðlis að "bara" 3-4% verðbólga á ári hefði þurrkað út launahækkanirnar á 3 árum. Enda varð þetta hart verkfall og skildi marga eftir sára og margir yfirgáfu kennarastéttina í kjölfarið. Kannski líka vegna þess að engan stuðning var að sækja til almennings eða stjórnvalda (sem settu lög á verkfallið og tóku þar með af okkur verkfallsréttinn). Þráinn Bertelsson líkti t.d. grunnskólakennurum við hryðjuverkamenn sem héldu börnum í gíslingu - og þótti ekki öllum smekklegt.
Á sama tíma horfði þjóðin upp á það að ríkisstjórnin var nýlega búin að samþykkja umdeilt eftirlaunafrumvarp, og taldi sig þess líka umkomna að lækka skatta um 4 – 5 milljarða, afnema hátekjuskatt og innheimta ekki nema 10% skatt af fjármagnstekjum og erfðum. Ríkisstjórnin var að öðru leyti í góðum málum, búin að koma mörgum málaflokkum yfir á herðar sveitarfélaganna, sem hefur síðan sýnt sig að hafa skilið þau mörg hver eftir afar illa sett fjárhagslega, enda hafa þau verið svipt ýmsum tekjustofnum og hafa að auki tekið við fjölda fjárfrekra verkefna af ríkinu, t.d. grunnskólunum. Ríkið hefur lítt verið til viðræðna um skiptingu tekjustofnanna og menn virðast halda að samkomulagið um flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga þurfi engrar endurskoðunar við.
En sem sagt, það lá alltaf fyrir að þensluáhrif virkjunarinnar við Kárahnúka yrðu mikil, það voru margir sem bentu á hættumerkin, en það voru fáir sem hlustuðu, eða tóku það með í útreikningana, nema örfáir einstaklingar og þeir voru afgreiddir sem kverulantar (þó þeir hafi fengið uppreisn æru síðar) ........og því fór sem fór. 90-100% húsnæðislán sem samþykkt voru á þessum sama tíma þöndu svo enn frekar hættumörkin, en um þau sagði þáverandi þingmaður Jóhanna Sigurðardóttur á Alþingi í nóvember 2004 þegar frumvarp um hækkunina var til til meðferðar: "Ég fagna því að frumvarp er komið fram þar sem meginmarkmiðið er að lánshlutfall verði hækkað í 90%. Sú samkeppni sem nú er komin upp á markaðnum um fasteignaviðskipti er jákvæð og hefur stuðlað að vaxtalækkun og mikilvægt að Íbúðalánasjóður hafi fulla burði til að taka þátt í þeirri samkeppni."
Núna vitum við að þessi lán voru enn einn þátturinn sem ofhituðu hagkerfið og Geir Haarde viðurkenndi síðar að var krafa Framsóknarflokksins í stjórnarviðræðum (en greinilega með stuðningi Jóhönnu líka) og hann hefði séð fyrir að þetta væri ekki viturlegt og myndi valda þenslu í hagkerfinu (ofan á Kárahnúka og allt annað) en Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti samt til að komast til valda með Framsókn. Hagfræðingurinn GH sjálfur féll á prófinu.
Hrunið sjálft var kannski ekki fyrirséð, en veiking hagkerfisins var fyrirséð öllu hugsandi fólki, og til þess menntuðu fólki ekki síst......þrátt fyrir það fylgdu menn straumnum líkt og dáleiddir, allir sem einn, og allir með opin augun, en vildu ekki sjá.
Virkjanir valda þenslu í hagkerfinu, það vitum við, það skynsamlegasta sem við getum gert núna er að halda að okkur höndum og fara mjög varlega í framkvæmdir, sama hvar og sama hvað Alcoa, Húsvíkingar og Suðurnesjamenn vilja gera.
Harpa Björnsdóttir (IP-tala skráð) 28.10.2011 kl. 01:40
Tja, nú týrir á tíkinni. Landsvirkjun með þessa fallegu ársskýrslu þarf hálft ár til að ná í litla 25 milljarða.
Og Harpa, - þetta með lánshlutfallið....
Mér fannst og finnst enn, að 90% hafi verið í lagi, - altso bara ekki 90% af markaðsverði, heldur brunabótamati. Þegar fasteignaverð er komið upp í algjöra geðveiki og langt yfir byggingakostnað, þá er voðinn vís.
Segjum 90% af LÆGRI tölunni, brunabótamat og sölumat.
Byggði 2002, og við fórum í 65% ef ég man rétt. Þar sem við búum í dreifbýli, þá var sölumatið afar nálægt brunabótamatinu, ef ekki bara lægra.
Jón Logi (IP-tala skráð) 28.10.2011 kl. 07:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.