27.10.2011 | 18:06
"Skaflinn" er voldugur !
Eftir að mér veittist það happ að vera einn af leiðangursmönnum í eina jeppaleiðangrinum, sem farinn hefur verið yfir Grænlandsjökul, hafði ég á orði í hálfkæringi að í samaburði við hann mætti kalla Vatnajökul "Skaflinn".
Enda er hann 20 sinnum minni (leiðrétting, vantar eitt núll, sbr. ath.semd) 200 sinnum minni að flatarmáli en Grænlandsjökull.
En það segir þó ekki að Vatnajökull sé nein písl. Hver sá, sem þarf að glíma við hann, akandi, gangandi eða fljúgandi áratugum saman þarf að læra að bera fyrir honum mikla virðingu, enda er hann 20 sinnum stærri en stærsti jökull á meginlandi Evrópu, Jóstedalsjökull í Noregi.
Ísflykkið Vatnajökull hefur oft svo mikil áhrif á ástand lofthjúpsins yfir honum að segja má að hann geti búið til sitt eigið veðurkerfi, næsta óháð veðrinu sem er yfir landinu að öðru leyti.
Þar að auki býr Vatnajökull yfir undrum samspils elds og íss sem enginn annar jökull býr yfir.
Ég hef kallað Vatnajökul "kórónu landsins" og það er fagnaðarefni að hann tengist nú fyrirbrigði sem kennt er við kórónu og getur borið hróður hans og Íslands víða.
Game of Thrones í ríki Vatnajökuls | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þerna vantar eitt núll, og rúmlega það, í samanburðinum við Grænlandsjökul. Samkvæmt lauslegum útreikningum mínum, er Grænlandsjökull 222,222 sinnum stærri en Vatnajökull
Gunnar Th. Gunnarsson, 27.10.2011 kl. 18:15
Takk, Gunnar. Búinn að leiðrétta þetta, þó ekki þannig að villan sé strokuð út, heldur með innskoti.
Ómar Ragnarsson, 27.10.2011 kl. 20:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.