1.11.2011 | 15:45
Brekkan, sem aldrei þurfti að vera.
Á sjötta áratug síðustu aldar komust menn að þeirri niðurstöðu að framtíðarleiðin milli Faxaflóa og Suðurlands skyldi liggja um Þrengsli.
Í samræmi við það var nýr vegur lagður beint upp Draugahlíðarbrekku í átt að Þrengslunum og síðan áfram um hann, en Hellisheiðarvegur var síðan lagður líkt og afleggjari í þverbeygju austarlega í Svínahrauni áleiðis að Hveradölum.
Niðurstaðan varð hins vegar sú sem sjá hefði mátt fyrir, að hringvegurinn lægi yfir Hellisheiði og þessi bráðabirgðaskipan hélst í nógu marga áratugi til þess að tjónið vegna óþarfa slysa og mannfórna á þessum stutta afleggjara má reikna upp á milljarða króna á núvirði.
Auk þess hafa afleitar aðstæður í Draugahlíðarbrekkunni vegna staðsetningar hennar, sem beinir yfir hana sterkum vindstraumum og hviðum í hvössum suðaustan- og sunnanáttum, myndar í henni lúmska hálku oft á tíðum auk bratta hennar valdið þar ómældum vandræðum, óhöppum og slysum.
Gullið tækifæri til að lagfæra þetta í eitt skipti fyrir öll gafst fyrir nokkrum árum með því að leggja veginn rétt norðan við Litlu kaffistofuna í aflíðandi beygju og sáralitlum halla upp á hraunið og fara þaðan þannig í átt að Hveradölum að beygjan fyrir vestan brekkuna þar yrði tekin alveg af í stað þess að halda henni að hlluta.
Þetta hefði að vísu þýtt um eins og hálfs kílómetra lengri vegagerð en farið var í, vegamótin til Þorlákshafnar hefðu lent um 400 metrrum norðar en nú, en þessi lausn hefði losað okkur við hina hættulegu og hvimleiðu Draugahlíðarbrekku sem heldur áfram að kosta stórfé í vandræðum og slysum.
Á þennan möguleika benti Ólafur Ketilsson á sínum tíma og ég fjallaði um þennan valmöguleika tvívegis í sjónvarpi meira að segja áður en að Ólafur áréttaði það í viðtali við mig.
En á þetta var ekki hlustað og því sitjum við sennilega uppi með þennan slysablett jafnlengi og við sátum uppi með þverbeygjurnar slæmu austar á veginum á sínum tíma í áratugi.
Bíll valt í Draugahlíðarbrekku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hér er ég algerlega sammála þér. Ég hef sjálfur lent í óhappi á þessum feigðarbletti í íðandi stórhríð. Hvort sem Kambar eð þrengsli eru farin í slæmum vetrarveðrum þá er aldrei mikið að færð fyrr en á vegamótum og þennan spotta sem um ræðir. Það er eins og menn hafi vandað sig við að finna ómögulegustu leiðina og flöskuhálsinn.
Það er einfalt að laga þetta og menn hefðu betur hlustað á Óla Ket. Þá hefðu mörg örkumlin og tjónið sparast og jafnvel líf.
Einnig er vert að minnast á þær kröppu beygjur, sem hafa orðið mörgum að fjörtjóni. Beygjur, sem ekki þurfa að vera ef rétt stæði er valið.
Jón Steinar Ragnarsson, 1.11.2011 kl. 21:21
Það er rétt hjá ykkur Óla Kjet, en þú veist þá líka sem satt er, að með því að fara vestan við Litlu Kaffistofuna og norður þar á sléttu hefðu menn fylgt gömlu götunni að Kolviðarhól, sem lá svo þaðan beint uppá fjall. Þessi leið í átt að Kolviðarhól og svo þaðan sunnan við Hveradali hefði verið mun skynsamari leið heldur en Draugahlíðarnar upp frá Fóelluvötnum og þaðan uppá Svínahraunið. Það er mikill skaði að ekki var hlustað á þessar ábendingar.
Ef vel á að vera ætti að taka þessa leið upp núna áður en farið verður í tvöföldun á þessum kafla.
Kristján Björnsson (IP-tala skráð) 1.11.2011 kl. 21:33
Því miður, Kristján, þá endar gamla leiðin upp að Kolviðarhóli með því að nýr vegur þyrfti að liggja upp bratta brekkuna í Hellisskarði, sem yrði ekkert skárri en Draugahlíðarbrekkan.
Á dögum hestanna skipti þetta ekki máli, því að beinasta leiðin austur í Hveragerði liggur um skarðið og í gamla daga þurfti að krækja á hestunum aðeins norður fyrir hið úfna apalhraun, Svínahraun.
Leiðin, sem við Ólafur Ketilsson vildum, hefði legið aðeins um 400 metrum norðar en núverandi vegur og að vísu legið yfir úfið hraun, sem skiptir ekki máli á jarðýtuöld, en hins vegar hefði þetta vegarstæði lent norður fyrir mesta brattann í Draugahlíðunum og jafnað út beygjuna fyrir vestan Hveradali.
Ómar Ragnarsson, 1.11.2011 kl. 23:49
"Leiðin, sem við Ólafur Ketilsson vildum, hefði legið aðeins um 400 metrum norðar en núverandi vegur og að vísu legið yfir úfið hraun, sem skiptir ekki máli á jarðýtuöld.." segir þú Ómar.
Ég var ekki nema 10 eða 11 ára gamall (kringum 1970) þegar núverandi vegur um Svínahraun og austur yfir Hellisheiði var gerður í núverandi mynd. Þegar sú framkvæmd var í gangi, risu upp hávær mótmæli umhverfisverndarsinna (þetta orð var varla til þá ) gegn vegaframkvæmdinni.
Og hverjar voru röksemdirnar? Jú, Svínahraunið var einstakt og ómetanlegt og vegurinn skar það í sundur og eyðilagði. Talað var um ljót ör í landslagið sem rústaði heildarmyndinni.
Skrítið ef Ómar man ekki eftir þessu.
Það má skilja þig svo í upphafi pistilsins að Hellisheiðarvegur hafi ekki verið lagður fyrr en á 6. áratugnum. Það getur nú varla verið rétt hjá þér, því aðalleiðin austur fyrir fjall frá Faxaflóa hefur alltaf legið um Hellisheiði og niður Kamba.
Margar frásagnir eru til í upphafi bílaaldar á Íslandi, um æfintýralegar og hættulegar ferðum um Kambana og á stríðsárunum lentu breskir hermenn þar oft í slysum og ef ég man rétt létust í einu slysinu þó nokkuð margir hermenn þegar einn hertrukkurinn valt þar niður.
Gunnar Th. Gunnarsson, 2.11.2011 kl. 02:16
Undarleg þessi árátta íslendinga að fara ávallt beint af augum. Enn undarlegra að nýbúið sé að vígja einn skynsamlegasta vegarspotta um suðvesturland, sem vígður hefur verið í áratugi.: Suðurstrandarveg. Árið er 2011. Láglendisvegur. Lýsir sennilega best vitleysisgangi og skammsýni íslendinga í samgöngumálum gegnum árin, en það má sennilega ekki nefna nú til dags án þess að fá á sig stimpil dómhörku og afturhalds. "Betri er krókur en kelda" skilst sennilega ekki fyrr en vegir skipta ekki lengur máli á Íslandi.
Halldór Egill Guðnason, 2.11.2011 kl. 04:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.