Þegar gögnin gufuðu upp.

Þegar faðir minn heitinn varð hjólastólamatur vegna mistaka á spítala og sjúklingur það sem eftir var ævinnar, fór hann í mál út af því sem endaði fyrir Hæstarétti.

Dómurinn skiptist, tveir dómarar vildu sakfella spítalann en þrír sýkna.

Tvennt réði úrslitum í þessu tvísýna dómsmáli. 

Annars vegar kom í ljós að allar dagbækur varðandi meðferðina á föður mínum voru týndar, höfðu hreinlega gufað upp!

Og algert minnisleysi hafði gripið starfsfólkið varðandi föður minn.

Þetta var þó sama starfsfólkið, sem allan tímann sem faðir minn lá á spítalanum, talaði um það við mig að hann væri hreint einstakur og ógleymanlegur maður. Nú mundi það ekki neitt.  

Síðan gleymdist lykilvitni, sjúklingur sem hafði legið á spítalanum á sama tíma og kom ekki ljós fyrr en um seinan.

Kannski átti dagbókaskorturinn þátt í því, en ég kannaði það aldrei, málinu var hvort eð er lokið og milljónirnar tapaðar sem í það fóru og voru ekki atriði í málinu, heldur einungis það að hið sanna og sanngjarna kæmi fram gagnvart föður mínum og öðrum, sem kynnu að lenda í hans stöðu.

Banki, sem viðskiptavinur færi í mál við, myndi líklega aldrei komast upp með það að vinna málið vegna þess að öll gögn varðandi það í bankanum hefðu gufað upp.

En spítali gat greinilega gert það þótt þar væri verið að meðhöndla lifandi fólk en ekki dauða peningaseðla.

Nú eru liðin allmörg ár síðan þetta gerðist og mál föður míns mjög afmarkað í tíma og rúmi, og þess vegna veit ég ekki hvort hægt að heimfæra það upp á nútímann eða tengja það við síðari tíma mál af svipuðum toga.

Samt finnst mér það merkilegt hvernig helstu gögnin í því hurfu á sínum tíma og vona að slíkt gerist aldrei aftur.

Hvað Óla Tynes og hans fólk varðar var það mjög gefandi athöfn, sem fram fór í gær, þegar hann var kvaddur hinstu kveðju. Ég mun kannski greina frá því nánar síðar í hverju það fólst fyrir mig.  

Ég vil að skilnaði þakka honum fyrir allar góðu og glöðu stundirnar sem hann gaf mér og öðrum.

Útför hans var ein slíkra stunda. Ég sendi ástvinum hans samúðar- og vinarkveðjur.


mbl.is „Hinsta ósk bróður míns“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband