14.11.2011 | 23:45
Ekki hægt að mæla allt...
Hávaði er eitt af því sem of mikið er af í lífi nútímafólks og heyrnaleysi vaxandi böl eins og kannanir sýna.
Um það hve samfelldur hávaði hefur skekkt líf okkar getur það fólk vitnað um sem hefur komist í þá aðstöðu að upplifa algera þögn, sem er því miður of sjaldgæf, finnst varla lengur nema langt frá mannabyggð uppi á öræfum.
Þegar sólmyrkvi varð nyrðra 2004 fór ég norður í land til að mynda hann og gera um það frétt.
Ég stillti mér upp á sama stað og ég var 1954 þegar sólin myrkvaðist og dimman og myrkvinn sjálfur var ekki sterkasta upplifunin þá, heldur það hvernig allir fuglarnir í mýrinni þögnuðu.
Ég vildi ná þessu með mynd og hljóði aftur.
En það mistókst. Í fyrsta lagi hafði mýrin verið ræst fram og engir fuglar voru þar lengur.
Í öðru lagi var svo mikil umferð eftir þjóðveginum að fuglahljóð hefði hvort eð er lotið í lægra haldi fyrir honum.
Af hverju var svona mikill hávaði af umferðinni? Var ekki umferð 1954?
Jú, en miklu minni en nú og þá var þetta mjór og hlykkjóttur malarvegur og ökuhraðinn um 60 km/klst á bílum, sem voru með næstum tvöfalt mjórri dekk en nú tíðkast. Núna eru þetta stærri og þyngri bílar á 90km hraða plús og söngurinn í jeppadekkjunum og dekkjum flutningabílanna alveg yfirgengilega hár.
Ég vann á loftpressu og loftbor í nokkur sumur sem ungur maður án heyrnarhlífa.
Í skemmtikraftabransanum og í Sumargleðinni var hávaðinn yfirþyrmandi, klukkustundum saman.
Ég hávaðamældi bíla þegar ég skrifaði bílasíðu í Vísi hér í den og hávaðinn inni í sumum þeirra fór yfir 90 decibel, en meira en 85 decibel eru talin skaðlegur hávaði og heilsuspillandi til lengdar.
Sjálfur ók ég stundum á bílum þar sem hávaðinn var skaðlegur og þreytandi í langferðum, vel yfir 90 decibel.
Deyfandi áhrif hans lýstu sér í því að þegar ég fór að nálgast Reykjavík í langferðum byrjaði ég ósjálfrátt að aka hægar og hægar þótt ég vildi flýta mér. Undirmeðvitundin var greinilega að verða vitlaus á hávaðanum og varð til þess að ég hægði á mér þótt ég vildi það ekki.
Hávaðinn í flugvélum er langt yfir mörkum og endilega þurfti ég líka að fljúga eins og rófulaus hundur án heyrnarhlífa áratugum saman.
Hávaði getur verið eins og fíkniefni samanber það þegar bílar ungs fólks aka framhjá og þungur bumbuslátturinn bylur yfir allt nágrennið þótt gluggar bílsins séu lokaðir.
Ég tel mig jög heppinn að vera enn með það góða heyrn að tvisvar á ári fæ ég vottorð upp á það að ekkert skorti á þegar ég fer í heyrnarpróf fyrir atvinnuflugamannspróf.
En konan mín undrast þetta. Henni finnst ég heyra mjög illa. Til skamms tíma þurftu atvinnuflugmenn að að fara reglulega í ofurpróf varðandi heyrn niður á Borgarspítala, sem framkvæmd var með fullkomnustu tækjum nútímans og Helga skildi ekki að ég kæmist með láði í gegnum mælingarnar.
Hún bað mig um að spyrja lækninn út í þetta.
Ég gerði það og hann svaraði: "Segðu konunni þinni að þetta séu fullkomnustu heyrnarmælingar sem völ sé á í heiminum, en að þrátt fyrir alla tæknina hafi enn ekki verið fundin upp mælitæki, sem geti mælt sálræna heyrn."
Læt í lokin fylgja með eina skýringu: Konan mín hefur einhverja þá næmustu heyrn sem nokkur manneskja hefur. Hún er með eitthvert næmasta "móðureyra" veraldar.
Svei mer ef hún getur ekki heyrt gras gróa.
Þess vegna verður hún sennilega vegna þessa óhagstæða samanburðar á milli okkar hjónanna svona óþyrmilega vör við "heyrnarleysi" mitt.
Heyrnarleysi algengara en áður var talið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Í tilefni af þessari hugleiðingu þinni, þá vill svo til að mér datt það í hug í morgun að ágætt væri að slökkva á útvarpinu eins og einn dag, svo ekki sé minnst á sjónvarpið líka og athuga hvort ekki yrði til hugarhreinsun í ákveðnum skilningi, en stöðugur hávaði er eitthvað sem ágætt er að íhuga.
kv.Guðrún María.
Guðrún María Óskarsdóttir., 15.11.2011 kl. 00:19
Þögnin er gulls ígildi.... verulega vanmetið fyrirbrigði. E.t.v erfitt að tala um eitthvað sem ekkert er, sem "fyrirbrigði".
Heyrnardeyfð er stundum bundin við ákveðið tíðnisvið. Ég er haldinn arfgengri heyrnardeyfð á tilteknu tíðinisviði sem ágerist með aldrinum. Sumar mannsraddir á ég erfiðar með að heyra en aðrar.
Röddunum í höfðinu á mér fer stöðugt fækkandi
Gunnar Th. Gunnarsson, 15.11.2011 kl. 09:04
Margt er í mannskolli misjafnt, og þar á meðal heyrn.
Ég undraðist mikið afa minn, eyrnarstóran trésmið, sem var í sargandi hávaða daginn út og inn, án hlífa, og tapaði engri heyrn!
Sjálfur er ég með ljómandi heyrn, en "són" með eftir óhapp. En svo virðist yngra fólk a-la-ipod/vasadiskó ekki heyra vel.
Mesti hávaði sem ég hef lent í var í kvikmyndatöku Eastwoods á Reykjanesi 2005, og prísa mig sælanað hafa haft öfluga tappa í eyrum. Þá var ég innanborðs í landgöngudreka (LVT) og upp fjöruna fretaði skytta af miklum móð úr 50.cal vélbyssu. Þetta magnaðist vel upp innan í stálboxinu sem maður var í, og var það líkast því að væri verið að tromma á stálhjálminn.
Í fjörunni tók ekki betra við, þar voru fallbyssur (stutthleypur/Howitzer) sem fretuðu af miklum móð, og þurfti maður að hlaupa undir hlaupið. Ég var óheppinn og það var skotið þegar ég var undir. En slysalaus eftir, slóst næstum á hliðina af höggbylgjunni, og hlýnaði notalega af hitanum.
Tappalaus hefði maður líklega skaddast, og FRÚin á ekki séns í svona mörg decíbel, né heldur loftpressa. Búinn að upplifa bæði ;)
Jón Logi (IP-tala skráð) 15.11.2011 kl. 12:49
Skemmtileg frásögn, Jón Logi.
Afi minn var með þessa heyrnardeyfð á ákveðnum tíðnissviðum og svo virðist sem hún erfist bara í karllegg. Amma kvartaði stundum yfir því að hann heyrði ekki það sem sagt var við hann, en heyrði hins vegar allt sem hann átti EKKI að heyra. Það getur verið eðlileg skýring á því. Fólk sem talar í "hálfum hljóðum" er á öðru tíðnissviði en þegar það talar eðlilega.
Gunnar Th. Gunnarsson, 15.11.2011 kl. 13:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.