16.11.2011 | 14:32
Skiptir litlu máli á landsfundinum.
Það hefur margoft komið í ljós hjá Sjálfstæðisflokknum, sem ber sér á brjóst á tyllidögum og kveðst vera brjóstvörn lýðræðis og frelsis á Íslandi, að skoðanakannanir meðal almennings sýna allt önnur hlutföll en eru hjá flokksapparatinu, meira að segja hjá á annað þúsund landsfundarfulltrúum.
Dæmin eru mörg. Á svipuðum tíma og skoðanakönnun Gallups sýndi, að helmingur þeirra sem spurðir voru og kváðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, kvaðst vera andvígur Kárahnjúkavirkjun, þorði landsfundurinn ekki annað en að láta sér það lynda, að Ólafur F. Magnússon væri hrakinn úr ræðustóli með hrópum og köllum undir stjórn sjálfs forseta Alþingis.
Nú sýnir Gallup-könnun að 42% þeirra sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eru fylgjandi því að komið verði á fót þjóðgarði á miðhálendi Íslands en aðeins 26% andvíg.
Ólíklegt er að þetta gefi neinar vonir um að landsfundurinn muni hverfa frá harðri virkjanastefnu sinni eða stuðningi við stóriðju.
Allt frá tímum valdabaráttu félaganna Jóhanns Hafsteins og Geirs Hallgímssonar við Gunnar Thoroddsen hefur flokksmaskínan nýtt sér landsfundi og aðra flokksstarfsemi til að höfða til þess að flokkurinn standi sameinaður eins og ein fylking gegn hvers konar viðleitni til stefnubreytingar sem stimpluð hefur verið sem sundrungarstarfsemi.
Styrmir Gunnarsson, sem er sjálfstæðismaður en einarður talsmaður beinna og almennara lýðræðis, vill að allir Sjálfstæðismenn fái seturétt á fundinum og aðstöðu til að taka þátt í atkvæðagreiðslum.
Því miður er ég hræddur um að hvorki ég né Styrmir munum lifa það að flokkurinn taki undir hugmyndir af þessuj toga.
Á meðan svo er skipta skoðanakannanir meðal fólksins litlu eða engu máli á landsfundinum eða á öðrum stöðum í flokksvélinni þar sem hinar raunverulegu ákvarðanir eru teknar undir þrýstingi frá valdalöflum fjármagnsins og þeirra valdhafa sem eru stjórnmálalegur armur þess.
Dregur saman með frambjóðendum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvernig getur maður sem ekki hefur nokkru sinni tekið þátt í landsfundi Sjálfstæðisflokksins haldið því blákalt fram að einhver flokksmaskína eða fjármálaöfl stjórni honum. Ég hef setið tíu eða fimmtán landsfundi en aldrei hef ég orðið var við þessi öfl sem þú nefnir. Veit ekki einu sinni hvernig þetta lið lítur út.
Flesturm hlýtur að mislíka afskaplega mikið að vera sagður einhver leiksoppur annarra, gjörsneyddur vilja til að mynda sér eigin skoðun. Svona fullyrðingar eru ruddalegar og ósamboðnar manni sem vill taka þátt í stjórnmálum á málefnalegan og heiðarlegan hátt.
Vissulega er hart tekist á á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og það hef ég reynt á eigin skinni. Menn réðust harkalega á Ólaf Magnússon á sínum tíma, heldur óvarlega að mínu mati. Hins vegar var fundarstjórnin heiðarleg og hlutlaus, annað er einfaldlega ósatt. Vilji menn uppá dekk verða þeir að þola ágjöfina.
Hvernig er sá flokkur sem lætur skoðanakannanir stjórna stefnu sinni? Hefur meirihlutinn alltaf rétt fyrir sér? Hvað með eigin sannfæringu, skipti hún engu máli gagnvart meirihlutanum?
Ekki tekur t.d. Samfylkingin mikið mark á skoðanakönnunum um ESB. Það er líklega vegna þess að meirihluti landsmanna er á móti inngöngu í sambandið?
Svo þurfum við að gera okkur grein fyrir því að það er reginmunur á skoðanakönnunum og beinu lýðræði.
Ég ber mikla virðingu fyrir Styrmi Gunnarssyni og skoðunum hans ... en þú ert enginn Styrmir ... Dálítið skondið að þú skulir reyna að stilla þér upp við hlið hans.
Þú ert hins vegar annars konar pólitíkus og ég er sammála þér um fjölmörg mál og með sum þeirra hef ég ekki haft marga samherja á landsfundi. Ágætt að enda þetta á jákvæðan hátt.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 16.11.2011 kl. 17:18
Það var ekki ætlun mín að alhæfa um landsfundi Sjálfstæðisflokksins í öllum þeim fjölmörgu málum sem fjallað er um á honum, því að á þessum fjölmennasta flokksfundi landsins er vissulega málefnaleg umræða um flest mál, sem hægt er að fjalla um, í nefndum og öðru starfi fundarins.
Ég minnist þess að eitt barna minna, þá ungt að árum, fór einu sinni þar í pontu og hélt ræðu sem sneri áliti fundarins á ákveðnu máli.
Það var lýðræðislegt og æskilegt hvernig að því var staðið eins og í flestum málum.
En málið, sem rætt var um, var eitt af mörgum sem engu skipti fyrir sérhagsmuni fjármagns og valda og sjá til þess koma sínu fram þar sem það skiptir máli fyrir þessa hagsmuni.
Ég hef þekkt nógu marga landsfundarfulltrúa í 60 ár til að geta sagt það, að á þeim tímum þegar flokksforystan hefur verið með einbeittan valdavilja hefur hún beitt sér það kröftuglega að ekkert "múður" hefur fengið að komast að.
Eða hvernig útskýrirðu það að þegar Ólafur F. Magnússon bar fram tillögu sem flestum í dag myndi þykja frekar hógværlega orðaða, þorði enginn landsfundarfulltrúa, sem voru honum sammála, að láta til sín heyra, heldur tóku þátt í þeirri hjarðhegðun ýmist beint eða óbeint sem fólst í því að líða það að hann væri kallaður hryðjuverkamaður og hrakinn með hávaða úr ræðustóli.
Eru það merki um skoðanafrelsi og lýðræðisleg vinnubrögð?
Setning þín: "Vilji menn upp á dekk verða þeir að þola ágjöfina" segir pínulítið annað en þú heldur fram.
Ólafur "vildi upp á dekk" með aðra sýn en passaði fyrir vilja flokksforystunnar og mátti þola "ágjöf" í formi niðurlægingar og svívirðinga, sem á honum dundu, - var hrakinn þaðan án þess að skoðanasystkin hans voguðu sér að "vilja neitt upp á dekk".
Ég sé ekki hvað er svona skondið við það að hafa reynt eins og unnt er í samvinnu við aðra fulltrúa í stjórnlagaráði að koma inn ákvæðum í nýja stjórnarskrá í anda Styrmis, ákvæðum sem margar hverjar virðast hins vegar leiða til þess að ráðandi öfl í Sjálfstæðisflokknum virðast fá grænar bólur við að heyra.
En kannski eru það bara einhverjir "innvígðir" og "innmúraðir" sem hafa leyfi til að hafa svipaðar skoðanir og Styrmir.
Ómar Ragnarsson, 16.11.2011 kl. 23:47
Já, ég get svo auðveldlega útskýrt þetta með Ólaf. Staðreyndin er sú að þú ert ekki með réttar upplýsingar, einhver hefur skrökvað að þér. Ég var á þessum landsfundi og stóð meira að segja upp og studdi í ræðu tillögu Ólafs og mótmælti ávirðingum á hendur honum.
Skömmu eftir landsfundinn fékk ég birta grein í Morgunblaðinu, þ.e. 25. október 2001. Hún nefnist „Eiturlyf á landsfundi“. Hægt er að finna hana í greinasafni blaðsins.
Í greininni ber ég saman þá flokksfélaga mína sem vilja jafnvel lögleiða fíkniefni en vanda þeim ekki kveðjurnar sem vill að flokkurinn fari sér hægt í virkjunarmálum.
Þessi blaðagrein er miklu betri heimild um meðferð landsfundarins á Ólafi Magnússyni en sögusagnirnar sem þú styðst við. Hjarðhegðunin var ekki meiri en svo að ég stóð upp til varnar Ólafi og skammast mín ekkert fyrir það. Ég er enn sömu skoðunar og ég var þá um Kárahnúkavirkjun.
Svo má því bæta við að þras Ólafs og nokkurra landsfundarfulltrúa var alls ekki af þeirri stærðargráðu sem þú heldur. Þarna var verið að bera upp margar ályktanir og menn stóðu upp í röðum til að segja frá stuðningi sínum eða andstöðu. Þetta segi ég ekki til að gera lítið úr málflutningi Ólafs en verð hins vegar að segja það að hann flutti mál sitt alls ekki nógu vel, náði lítilli áheyrn. Raunar var ég litlu skárri.
Allt þetta tal um að þarna hafi flokksforustan staðið að málum er tóm della, en sagan er ábyggilega svo góð að sannleikurinn má helst ekki eyðileggja hana.
Enginn úr flokksforustunni stóð upp til að berja á Ólafi. Tillaga hans var bar kolfelld. Þannig verða örlög góðra mála jafnt sem slæmra. Munurinn er hins vegar sá að menn verða að flytja mál sitt skynsamlega og undirbúa sig vel.
Ekki ætla ég að gera lítið úr þér en Styrmir Gunnarsson er reyndur maður í stjórnmálum, raunar yfirburðarmaður hvað varðar þekkingu og reynslu. Hvorugan ykkar þekki ég persónulega en hef hins vegar tekið mikið mark á því sem Styrmir hefur sagt og skrifað. Sama má segja um margt af því sem þú hefur borið fyrir brjósti, svo öllu sé nú haldið til haga.
Og fyrir alla muni, ekki koma með fleiri sögusagnir af landsfundum Sjálfstæðisflokksins. Sextíu ára kunningsskapur við landsfundarfulltrúa hefur greinilega ekki skilað neinu merkilegu.
Svo er það allt annað mál hvort flokksforysta eigi að vera passív í allri umræðu. Mér myndi aldrei detta í hug að þegja hefði ég frá einhverju að segja, og hygg ég að munu flestir gera. Slíkt fólk breytist ekki þó það komist í forystu fyrir stjórnmálaflokk.
Hins vegar er það tíska að tala neikvætt um flokksforystu Sjálfstæðisflokksins, rétt eins og þeir sem teljast til hennar megi ekki hafa eina, samræmda skoðun hvað þá fjölmargar. Þá er annars vegar talað um ráðandi öfl sem stjórni með harðri hendi eða klofningur sé í forystunni. Svona er vandlifað.
Að lokum vil ég bara taka fram að mér láðist að fá samþykki flokksforystu Sjálfstæðisflokksins fyrir þessari athugasemd. Verð líklega fyrir vikið útilokaður frá landsfundi. Það yrði nú reglulega góð saga.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 17.11.2011 kl. 00:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.