Skítt með sjúklingana ?

Ekki hafa enn verið færð rök fyrir því að það sé betra fyrir sjúklingana, sem hafa verið að Sogni, að þeir séu þar hendur en á Kleppi.

Þvert á móti er það álit þeirra, sem ættu að þekkja best til þessara mála, að það sé betra fyrir þá að vera á Réttargeðdeild á Kleppsspítala. 

Hér er ekki aðeins um að ræða lækna og sjúkrahúsfólk, sem annast þessa sjúklinga, heldur einnig samtök og einstaklinga, sem láta sig málefni geðsjúkra varða,svo sem Geðhjálp. 

Erfitt er að ganga fram hjá jafn einróma áliti og komið hefur fram hjá þessu fólki sem bæði vegna starfskyldna sinna og tengsla við sjúklingana ætti að vita hvað það er að segja. 

Ef í ofanálag sparast peningar innan heilbrigðiskerfisins vegna flutningsins þegar til lengri tíma er litið ætti það að koma til góða kerfinu í heild og þeim sem þurfa á þjónustu þess að halda. 

Á sínum tíma mótmæltu heimamenn því harðlega þegar heilbrigðisyfirvöld þess tíma töldu sig tilneydd að hafa Réttargeðdeildina að Sogni vegna sérkennilegs andófs ráðamanna á Kleppi, sem ekki náðist samstarf við. Sá tími er löngu liðinn. 

Þess vegna er svolítið skondið að aftur skuli mótmælt þegar létta á af heimamönnum því oki sem þeir mótmæltu fyrir næstum 20 árum. 

Rétt er þó að taka það fram að mótmælin nú eru á rökum reist hvað varðar hagsmuni heimamanna og sýna að mótmælin fyrir 20 árum voru á misskilningi byggð.

Mótmælin nú væru réttmæt ef ekkert sparaðist við flutninginn og um væri að ræða flutning á dauðum hlutum. 

En sjúklingar eru lifandi fólk og sé það rétt að það sé betra fyrir það að vera á geðdeild á Kleppsspítala en austur í Ölfusi, og að þar að auki felist í því sparnaður, væru það svik við sjúklinga og tilgang heilbrigðiskerfisins að láta byggðasjónarmið ein ráða. 

Síðan bætist það við að í nútíma samfélagi er svæðið vestan frá Borgarfirði austur að Þjórsá orðið eitt atvinnusvæði sem fellur ekki lengur undir skilgreininguna "landsbyggð" eða dreifbýli. 


mbl.is Mótmæla lokun Sogns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: K.H.S.

Kynntu þér aðeins málið áður en þú bullar þessa vitleysu. Hringdu í Sighvat . Hann kann söguna manna best og er örugglorga til í að fræða þig um raunveruleikann.

Sýndu einhvern lit í að fara rétt með hvað menn voru og eru að gera, ekki segja hvað menn eru að hugsa.

Þessi nýja pólitíska ásýnd þín þér til skammar. Hvert feilsporið á fætur öðru.

 Hættu þessu.

K.H.S., 17.11.2011 kl. 13:34

2 identicon

Kári!

 Eiga menn að pakka saman ef þú ert ekki sammála. Það er tjáningarfrelsi í landinu hvort sem þér líkar betur eða verr. 

Doddi (IP-tala skráð) 17.11.2011 kl. 13:38

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sé ekki betur en Ómar færi rök fyrir máli sínu og fari í stórum dráttum rétt með andstöðu heimamanna á sínu tíma gegn Sogni og það að fagmenn telja að starfseminni sé nú betur kominn á Kleppi. Þessi hranalega og órökstudda athugasemd Kára Hafsteins er því alveg út í loftið.

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.11.2011 kl. 14:48

4 identicon

Það væri nú fróðlegt að vita hvað sjúklingarnir segðu um þessa breytingu. 

Allar fréttir greina frá skoðunum ráðamanna, sveitastjórna, lækna og starfsmanna á vinnusstöðunum en ekkert er talað um hvaða álit núverandi og fyrrverandi notendur þessarar læknisþjónustu hafa á málinu.

Eða er það enn ríkjandi álit að vistmenn réttageðdeilda séu vanhæfir til að hafa skoðun á málum sem snúa að þeim sjálfum og því þurfi ekkert að athuga það mál frekar?

Jóhannes (IP-tala skráð) 17.11.2011 kl. 15:11

5 Smámynd: K.H.S.

Skítt með sjúklingana . Hver á að taka það til sýn úr þessari " röksemdafærslu"  Ómars að þínu mati Siggi. Hver segir skítt með sjúklingana. Er það ekki harður dómur á fólk sem vill bara vel.

Það var algjörlega lokað á það af hálfu Klepps á sínum tíma að taka við fólki sem heyrði ekki undir heilbrigðiskerfið. Dómsmálaráðuneytið skyldi sjá um sína.

Sighvatur bjargaði þessu máli á sínum tíma á besta mögulegan hátt með Sogni og nú ætla óreindir menn að eyðileggja þá lausn.

K.H.S., 17.11.2011 kl. 16:54

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eru læknarnir og sjúkrahúsfólkið "óreyndir menn"?  Eru þeir sem starfa í Geðhjálp og aðrir, sem tengjast sjúklingunum, fávíst fólk sem veit ekkert um hag sjúklinganna?

Ég er í hópi þeirra sem vil færa störf út á landsbyggðina í sem mestum mæli og hef athugasemdir við þær ráðstafanir í heilbrigðismálum á landsbyggðinni, sem bitna á sjúklingum og aðstandendum þeirra. 

En í þessu tilfelli er það öfuga uppi á teningnum að því er séð verður og ég tel að línuna verði að draga með tilliti til sjúklinganna og aðstandenda þeirra.

Þess utan er það úrelt hugsun að allt utan Reykjavíkur sé "landsbyggð". 

FUA, "Functional Urban Area" er alþjóðleg skilgreining á "virku borgarsamfélagi", sem við getum kallað VBS. 

Í slíku samfélagi búa minnst 15 þúsund manns og tekur minna en 45 mínútur að komast frjá jaðri inn að miðju. 

Samkvæmt því er nær hið virka borgarsamfélag á suðvesturhorninu vestan frá Mýrum, austur að Þjórsá og um öll Suðurnes.

Það er kominn tími til að íslenskir stjórnmálamenn hætti að draga úreltar línur á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar.

Það mun bitna á hinni raunverulegu landsbyggð ef sérstaða hennar varðandi samgöngur við höfuðborgina er ekki rétt metin.

Ómar Ragnarsson, 17.11.2011 kl. 21:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband