17.11.2011 | 21:01
Verðum að lifa með Hörpu.
Ég sá núna um daginn Hörpu í fyrsta sinn í rökkrinu með lýsingunni góðu. Það var rosalega flott að sjá og allt annað en floppið þegar kveikt var á henni í fyrst sinn.
Húsið er magnað og gæti þess vegna verið aðalhúsið í milljónaborg hvar sem er í heiminum.
En það er einmitt meinið. Alveg eins og bankahallirnar, sem hér risu og ráðgert var að reisa í framhaldinu áttu að getað sómt sér í hverri af helstu fjármálaborgum heimsins.
Harpa hefði líka getað verið með geðveikislega flotta lýsingu, hannaða af einum af fremstu listamönnum heims, án þess að vera svona rosalega stór og dýr.
Hún hefði getað gert það sama og Ólafshöllin í Þrándheimi, sem býður upp á alla möguleika á flutningi og nautn hvers kyns tónlistar og Harpa og er meira að segja með alla tilskilda aðstöðu til óperuflutnings, sem Harpa er ekki með.
Harpa ásamt Höfðatorgi og álíka framkvæmdum í 2002-2007-andanum verða minnismerki um ris og hrun græðgisæðisins, sem einn af erlendu fyrirlesurunum á nýlegu málþingi um fyrirbærið lýsti sem mestu múggeggjun, sem orðið hefði í vestrænum samfélögum í áratugi.
En við verðum að lifa með Hörpu og gera eins gott úr henni og við getum.
Við verðum líka að lifa með Höfðatorgi og öllu hinu, sem fylgdi dansinum í kringum gullkálfinn, sem sprakk og reyndist hafa verið pappírskálfur.
Hún og allt hitt eiga eftir að hlíta lýsingunni "botnlaus hít" sem við og næstu kynslóðir verðum að moka í svo lengi sem þessi minnismerki eiga eftir að standa.
Það verður á kostnað listarinnar og listsköpunarinnar, því miður, því að hægt hefði verið að reisa mun minni, ódýrari og jafn fallega Hörpu, sem ekki sogaði til sín svo stóran hluta af því fé sem fer í listir og menningu.
Harpa botnlaus hít | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú segir það að við verðum að lifa með Hörpu! Já gérum það en hvað með framhaldið það virðist ekki neitt ætla að breytast samanber aðrar fjárfestingar nefnum sjúkrahúsið sem á að kosta 40 milljarða til að byrja með ef við höldum svona áfram þá fer illa fyrir okkur!
Sigurður Haraldsson, 17.11.2011 kl. 22:52
Auðvita lifum við með því sem er og færum ekki andskotanum fórnir með glerbrotum.
Þó að af mörgum hafi verið hifsaðar eignir til að glerborgin stæði, til að eign Evrópu Merkel og Frakkans yrði meiri en bara auðnir og afl, umhverfi og hnattstaða.
Þá meigum við vera fegin að fá þó hlandkopp í staðin með Steingríms hanfangi og andartaki Jóhönnu með undirskript Stjórnlagaráðs.
Hrólfur Þ Hraundal, 18.11.2011 kl. 00:22
Því meira sem ég les um skipulag,framkvæmdir og pólitík Reykjavíkur.
Því betur líkar mér Akureyri.
Snorri Hansson, 18.11.2011 kl. 02:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.