18.11.2011 | 01:08
Hvað þarf "Hrun" að vera stórt ?
Eitt það fyrsta sem datt út úr mér þegar Hrunið dundi yfir var það, að þetta hefði verið það skásta sem gæti komið fyrir landið úr því sem komið var eftir að græðgisgeggjunarbólan hafði leitt til "meira múgbrjálæðis" á Íslandi en dæmi var um í vestrænu landi að mati eins erlenda fyrirlesarans á málþingi í Hörpunni í Reykjavík á dögunum.
Ég hélt í barnalegri bjartsýni að Hrunið hlyti að leggja grunn að algerum viðsnúningi í hugsunarhætti þjóðarinnar þegar það lægi ljóst fyrir hvað hin samfellda þenslu- og áhættusækni áranna 2002-2007 hafði leitt yfir þjóðina.
Smám saman er ég, því miður, samt að hallast að því að Hrunið hafi ekki verið nógu svakalegt og að skárra hefði verið að hér hefði dunið yfir algert þjóðargjaldþrot með vöruskorti og sárri neyð þar sem við yrðum fyrirlitnir af öðrum þjóðum, smáðir og hæddir.
Af hverju flögrar þetta að mér?
Skoðum reynslu annarrar Evrópuþjóðar, Þjóðverja.
Þeir töpuðu fyrri heimsstyrjöldinni illa og voru niðurlægðir með óbærilegum skaðabótum og því að þeim var einum kennt um að stríðið hófst.
Fyrstu árin eftir stríðið var mikill vöruskortur og heimsmetsverðbólga í landinu með tilheyrandi atvinnuleysi og örbirgð milljóna manna.
Heldur tóku þeir að rétta úr kútnum efnahagslega á síðari hluta þriðja áratugarins og verða viðræðuhæfir í Locarnosamningunum en þegar heimskreppan dundi yfir, syrti aftur í álinn.
Þá tókst Hitler að nýta sér hina óskynsamlegu Versalasamninga til að koma því inn hjá þjóðinni að ósigurinn í striðinu hefði verið þjóðsvikurum í röðum krata að kenna auk alþjóðlegs samsæris Gyðinga, og að allir hefðu verið svo vondir við hina göfugu þýsku þjóð sem hefði allt til að bera til að verða útvalin þjóð ofurmenna hins aríska kynþáttar.
Hann atti þjóðinni út í aðra heimsstyrjöld, sem var enn verri, miskunnarlausari, víðfeðmari og mannskæðari en hin fyrri var.
Hún leiddi meiri eyðileggingu og dauða milljóna manna yfir þjóðina en dæmi voru um, borgirnar í rústum, 14 milljónir þýskættaðra manna fluttir nauðungarflutningum frá fyrri þýskum héruðum, fólkið svalt og landið var hlutað í sundur í hernámssvæði sigurvegaranna.
Í kjölfar þessarar mestu niðurlægingar, sem dæmi eru um að stórþjóð á síðari öldum hafi lent í, fyrirlitin og smáð, gat aðeins tvennt gerst:
1. Þjóðverjar yrðu fyrirlitnir og niðurlægðir taparar á botninum.
2. Úr því að neðsta botni hafði verið náð gæti leiðin aðeins legið í eina átt, upp á við með algerum viðsnúningi á viðhorfum þjóðarinnar.
Hið síðasta gerðist. Áður höfðu Þjóðverjar talið sér trú um að þeir þyrftu að ráða yfir víðlendum og gjöfulum nýlendum í öðrum heimsálfum og einnig "lífsrými" í Austur-Evrópu, meðal annars með því að hafa yfirráð og aðgang að kornforðabúrunum sem voru þá í Sovétríkjunum, annars myndu þeir svelta.
Nú komust þeir "the hard way" að því að það hafði verið græðgi og frekja, sem villti þeim sýn, og að hvorugt af þessu var nauðsynlegt.
Þjóðverjar kúventu á þann hátt sem blasað hefur við öllum síðan.
Það gerðu þeir með því að sýna ábyrgð, friðsemd og samvinnulund í stað frekju og yfirgangs.
Sem sagt: Fyrra hrunið, þótt svakalegt væri, var ekki nóg, þeir þurftu hrun númer tvö, algert hrun og skipbrot, svo skelfilegt að þeir leptu fyrirlitnir dauðann úr skel í rústum lands síns.
Það er margt óhugnalega líkt með íslenska hruninu og því þýska 1918, þótt þýska hrunið væri vegna útþenslustefnu og yfirgangs á hernaðarsviðinu en okkar hrun vegna annars konar útþenslustefnu, græðgi, áhættusækni og ábyrgðarleysis.
Sameiginlegt var þeim báðum að þenja sig út og láta hvergi staðar numið, heldur vaða áfram í taumlausum og firrtum græðgislosta.
Nú sýnast mér ýmis viðbrögð okkar við Hruninu líta óþægilega kunnuglega út í ljósi sögunnar.
Þeir sem öttu Þjóðverjum út í svaðið 1914 náðu aftur vopnum sínum 20 árum síðar, og fóru aftur af stað með sömu formerkjum útþenslu og yfirgangs. Höfðu ekkert lært, aðeins forherst.
Hugarfar hinnar ábyrgðarlausa, alltgleypandi og skefjalausu stóriðjuútþenslu hefur verið í fullu fjöri allan tímann á Íslandi í gegnum Hrunið og lifir enn góðu lífi.
Hvað þarf næsta Hrun að verða stórt og svaklegt svo að við lærum og snúum við á þessari braut?
Vonandi þarf ekki að koma til annars og verra hruns. Vonandi tökum við sönsum þótt litið bendi til þess nú.
Vonandi kemur sú tíð að mest niðurlægjandi háðið, sem notað er um græðgisbólu heimsins, verði ekki lengur um íslendinga.
Í verslunarferð til Mílanó fyrir kreppu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Við erum að tala um þjónustustúlku á veitingahúsi, ekki leiðtoga frjálshyggjuríkis.
Ég kem sjálfur úr "fátækri" fjölskyldu þar sem engin áhersla er lögð á sparnað. Eini hvatinn er "hvar fær maður geðveikan díl"
Ég er sá eini í minni næstu fjölskyldu sem hef uppsafnaðann sparnað. Ég leyfi mér ósköp lítið og tek mér vikur ef ekki mánuði til að ákveða hvort ég eigi að fjárfesta í lúxusvarningi á borð við síma eða þessháttar herlegheitum.
Höfundur þessa pistils hefur greinilega verið að leita að velmegnunarsögum til að sýna hversu absúrd þetta getur verið. Nógu abúrd finnst mér það eitt að þjónustustúlka hafi efni á því að fara til mílanó til þess að versla merkjavörur. Þetta hljómar eins og "sensationalism" eins og hann gerist bestur.
Það skiptir ekki máli hvort maður sé konungur eða hirðfífl í dag, þú hefur aðgang að pening. Spurningin er bara hvenær maður ætlar að greiða lánið til baka. Ég held persónulega að þessi þjónustustúlka sé hirðfíflið í þessum málum.
Jeremías (IP-tala skráð) 18.11.2011 kl. 03:25
Seinna hrunið er ekki langt undan svo mikið er víst og við höfum ekkert lært af því fyrra!
Sigurður Haraldsson, 18.11.2011 kl. 09:06
Frá þessum tíma er svo margt sem ég man, og þetta "góðæri" eru erfiðustu tímar sem ég man, þar sem að mitt basl passaði engan vegin inn í normið.
Það var gert grín að mér fyrir að vera að baksa með kartöflugarð. Líka fyrir það að fara á reiðhjóli í innkaup, heila 600 metra, og þegar ég svaraði sem svo að bíllinn væri ekki heima, þá kom næsta spurning: "Af hverju ertu þá ekki með annan bíl?"
Útflutningsgreinar áttu erfitt vegna ofskráðrar krónu, en innflutningsgreinar og aðrar eyðslugreinar veltu sér upp úr spikinu. Framleiðsla á innanlandsmarkað var svo stöðugt á fláningsbretti fjölmiðlanna, þar sem borin voru saman verð milli landa á þeim punkti sem krónan var allt að því tvöfalt of há.
Meðal ævitími á bílum þá var ca 7 ár. Ég vildi endurfjármagna gamlar búvélar, en þær voru þá að jafnaði komnar í uppfyrnt, þannig að það var ekki hægt. Mér var hins vegar boðin tíföld fjárhæðin ef ég keypti allt nýtt, og gamla dótið tekið uppí.
Ég hefði getað hjólað að heiman og komið aftur á 300 hestafla pick-up með hjólið á pallinum. "Átt" hann.
Þarna var kapítalið farið að stýra rekstrarákvörðunum eins og hægt var. Og með skynsemi á skala við steinvölu.
En ég vona nú að við höfum lært af þessu, og ég þekki mjög marga sem hafa gert það. Sú elíta sem ekki lærði mun aldrei gera það. Skítur flýtur, en það er erfitt fyrir skít að þykjast vera rjómi undir miskunnarlausri naflaskoðun bloggsins ;)
Jón Logi (IP-tala skráð) 18.11.2011 kl. 09:23
Höfum við einhverntíma lært eitthvað frá öðrum þjóðum? Mér sýnist að við þurfum að gera okkur mistök sjalfir. Og við erum aftur á góðri leið að gera það.
Úrsúla Jünemann, 18.11.2011 kl. 11:52
Auðs þótt beinan akir veg,
ævin treynist meðan.
Þú flytur á einum, eins og ég
allra seinast héðan.
Í dag virðast Íslendingar vera miklir materialistar. En það finnst mér nokkuð merkilegt, því ég ólst upp í mikilli nægjusemi í neyslu lífsins gæða, og það gerðu nær allir. Að vísu átti ég aldrei heima í höfuðborginni, og vona ég eigi það ekki eftir. Þar er líklega viss múgsefjun í gangi, neysluæði, sem náði ævintýralegum hæðum á pre-hrun árunum. Ég held að mörg kellingin á höfuðborgarsvæðinu hafi hreint og beint tryllst í neyslunni. Engin furða þótt margur eiginmaðurinn hafi orðið að taka kúlulán, eða hreint og beint stela peningum.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 18.11.2011 kl. 13:06
"græðgisgeggjunarbólan hafði leitt til "meira múgbrjálæðis" á Íslandi en dæmi var um í vestrænu landi að mati eins erlenda fyrirlesarans á málþingi í Hörpunni í Reykjavík á dögunum. "
Sennilega þarf þjóðin að fá einhverskonar raflost-til að leiðrétta núverandi geggjun.
Sævar Helgason, 18.11.2011 kl. 13:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.