Þarf ekki táninga til.

Það þarf ekki fólk á tángingsaldri til þess að vísa ábyrgð af gerðum sínum á hendur öðrum, samanber hinn breska ungling sem taldi íbúðareigendur bera sök á innbrotum hans vegna þess að þeir skildu eftir opinn glugga og dregið frá. 

Ævinlega þegar ég ek frá Reykjavík til Selfoss minnist ég athyglisverðs atviks, sem ég lenti í á vegamótum hringvegarins og Grafningsvegar. 

Þegar ég nálgaðist vegamótin í áttina að Selfossi sé ég að stór jeppi kom niður Grafningsveginn og stefndi inn að vegamótunum. 

Þarna hefur hringvegurinn ótvíræðan forgang þannig að í fyrstu sýndist ekkert óvenjulegt í aðsigi, jeppinn myndi staðnæmast við vegamótin eins og venja væri og ég og aðrir vegfarandur á leið bæði austur og vestur aka okkar leið. 

Jeppinn sem kom ofan að virtist vera að hægja á sér til þess að stöðvast við vegamótin eins og venja er. 

En rétt í þann mund sem ég kem að vegamótunum sé ég skyndilega að jeppinn hægir ekki lengur á sér, heldur er greinilegt að hann muni aka áfram og "svína á mér" þegar hann kemur inn á vegamótin án þess að stansa.

Svo stutt var á milli okkar þegar þetta blasti allt í einu við, að of seint var að nauðhemla, þannig að ég reif í stýrið og þverbeygði til hægri og fór út af veginum út í skafl sem þar var. 

Reiknaði með því að jeppinn myndi þá taka sína beygju þegar inn á hringveginn væri komið og að ökumaður hans hefði hvorki tekið eftir mér né bílunum sem komu á móti mér. 

En þetta dugði ekki. Jeppinn hélt áfram yfir vegamótin, útaf veginum og skall á mínum bíl úti í skaflinum! 

Er þetta eina tilfellið sem ég þekki til að ökumaður sem reynir að forða árekstri með því að aka bíl sínum út fyrir veginn er eltur uppi og keyrður niður! 

Lögregla kom á staðinn og þá tók við annað sem var ennþá óvæntara en það að hafa verið eltur uppi út fyrir veg til áreksturs. 

Ökumaður jeppans hélt því fram að ég bæri alla sök á árekstrinum!

Hann sagði, að ég hefði átt að sjá, að flughált var á síðustu metrunum sem hann ók niður að vegamótunum og hefði ég því átt að snarbeygja í hina áttina, til vinstri til þess að hleypa honum yfir hringveginn og út í skaflinn úr því að hann gat ekki stöðvað bíl sinn.

Ég varð í fyrstu orðlaus en spurði síðan ökumanninn af hverju hann hefði hægt fyrr og meira á sér. 

Hann kvaðst ekki hafa séð hálkuna fyrr það var en um seinan. 

Ég spurði hann þá hvernig hann gæti krafist þess af mér að ég hefði séð hálkuna akandi eftir öðrum vegi og staðsettur mun fjær en hann. 

"Þú áttir að geta séð það á því að ég gat ekki hægt á mér" svaraði hann. 

Ég spurði hann hvort honum fyndist eðlilegt að snarbeygja inn á öfugan vegarhelming í veg fyrir umferðina sem kom á móti. 

"Já, til þess að koma í veg fyrir árekstur" svaraði hann. 

"En hvað um það að rekast þá framan á bílana sem kom á móti?" spurði ég. 

"Þú hefðir farið útaf veginum þeim megin og sloppið við þá" var svarið. 

Ég stóð ekki í frekari rökræðum við þennan ökumann, mátti ekki vera að þessu þrasi og iþurfti að hafa hraðar hendur við að losa bíl minn úr skaflinum tl þess að komast í tæka tíð á leiðarenda á stórskemmdum bílnum. 

Nefna má hliðstæð dæmi, svo sem varðandi álverið í Helguvík. Þar óðu menn af stað og byrjuðu að reisa álver án þess að hafa samið við tólf sveitarfélög um virkjanir og lagningu vega og háspennulína og án þess að hafa tryggt orkuöflun. 

Þegar síðan kemur í ljós að ekki er hægt að vaða svona áfram er þeim kennt um sem gagnrýndu þennan æðibunugang og það áhættusækna og ábyrgðarlausa 2007-hugarfar sem að baki var. 

 


mbl.is Þjófur kennir fórnarlambi um innbrotið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband