Sex ára ánægjuleg búseta á Rauðalæk.

Það var gott að vera íbúi við Rauðalæk á árunum 1966-72, á miðhæð Rauðalækjar 12.

Stærsti kosturi götunnar lá ekki í augum uppi og varð fljótlega úr sögunni.

Hann var sá, að frá Rauðalæk var hægt að aka alveg hindrunarlaust, án þess að þurfa að stansa við eitt einasta umferðarljós, alveg niður í gamla miðbæinn, en á þessum tíma voru allar helstu stofnanir og fyrirtæki borgarinnar þar. 

Við hófum búskap okkar í lítilli íbúð á 12. hæð á Austurbrún 2 og söknuðum auðvitað hins stórkostlega útsýnis þegar fjölskyldan stækkaði og við urðum að flytja "niður á jörðina." 

Það eina sem sást frá Rauðalæk 12. var Snæfellsjökull á milli tveggja húsa hinum megin við götuna, og bar jökulinn í ruslatunnurnar þar. 

Eftirminnilegasti viðburðurinn var það að vakna við það einn morguninn að leigubílstjóri hefði verið myrtur í bíl sínum við Bugðulæk í aðeins nokkurra húsa fjarlægð. 

Það var í annað sinn ævi minni sem morð var framið svo skammt frá heimili mínu, því að árið 1948 var kona stungin til bana í bragga við austurenda Stórholts þar sem bernskuheimili mitt var frá 1945. 

Á efri hæð Rauðalækjar 12 bjuggu sæmdarhjónin Iðunn og Árni Kristjánsson. Þegar sjötta barn okkar og þriðja dóttir fæddist tæpu hálfu ári eftir að við fluttum þaðan á Háaleitisbraut 55 var búið að "yngja upp" með þremur nöfnum og þessi nafngift því "út í loftið" eins og kallað er. 

Ég var og er afar hrifinn af íslenska foreldranafnasiðnum og vildi stuðla að viðgangi hans, meðal annars með því að við legðum okkar af mörkum til að sporna við þeirri hættu að tveggja nafna siðurinn veikti foreldranafna siðinn, þ. e. að föður/móðurnafnið félli í skuggann af millinafninu. 

Þess vegna heita öll börn okkar aðeins einu nafni. 

Mér fannst fornu goðanöfnin falleg og nafnið Iðunn varð því fyrir valinu á fyrstu dóttur okkar sem ekki bar ömmunafn.

Ég hef átt heima við margar götur, Lindargötu, Samtún, Stórholt, Austurbrún, Sörlaskjól, Rauðalæk, Háaleitisbraut, Sólheima og Neðstaleiti. 

Lengst hef ég búið við Háaleitisbraut, en af þessum götum ber "gatan mín", Stórholtið af að öllu leyti, bæði hvað snertir húsakost og fyrstu íbúana, sem bjuggu þar og voru hreint út sagt stórbrotið fólk.

Stórholtið tengdist með lítilli þvergötu við Meðalholt og leiðin inn í vesturenda Stórholts lá um neðsta hluta Meðalholtsins inn í Stórholtið fyrstu árin, af því að Stórholtið var aflokað af hermannabröggum að vestanverðu.

Þess vegna má segja að neðsti hluti Meðalholts hafi verið hluti af Stórholtinu á þessum árum.

Ekki þarf annað en að nefna nokkur nöfn þess fólks og afkomenda þeirra, sem bjuggu á þessari götulínu til þess að varpa ljósi á það, við hvað ég á:

Pétur Pétursson þulur, Ragnheiður Ásta Pétursdóttir þulur, Bjarni Böðvarsson og Ragnar Bjarnason, tónlistarmenn, Kristján Kristjánsson og Pétur Kristjánsson, tónlistarmenn, Ámundi Ámundason umboðsmaður, Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, Helena Eyjólfsdóttir söngkona, Gunnar V. Andrésson ljósmyndari, Hafsteinn miðill, Jón Ragnarsson rallkappi, Gunnar Eyþórsson fréttamaður, Kristín Ólafsdóttir söngkona og borgarfulltrúi, Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndagerðarmaður...o. s. frv.  

 


mbl.is Gatan mín: Falleg gata í Laugardal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég bjó ofarlega á Rauðalæk frá 1957-1966 og man þegar gatan var malbikuð. Ég var mjög ung og man að ég henti teskeið fyrir valtarann og hélt að hún mundi fletjast út á malbikið en, HÚN HVARF

Það var mér algjör opinberun að átta mig á að hún væri inní malbikinu um ókomna tíð. Þ.e.a.s. eftir að ég hætti að skæla. Ég vildi jú sýna mömmu flata skeið...

Það er rétt að þessi gata hefur haldið sér eins og ég man eftir henni. Í hvert sinn sem ég hef ekið þar í gegnkoma æskumynningarnar flæðandi.

Gaman að fá að deila æskumynningum með Rauðlækingum.

anna (IP-tala skráð) 3.12.2011 kl. 22:30

2 identicon

gamli gæðingur, af hverju flyturðu ekki úr þessu leiðindablokkarhverfi í Háaleitinu og í huggulegra hverfi eins og þú lýsir Stórholtinu og Rauðalæk?

Vesturbæjingur (IP-tala skráð) 4.12.2011 kl. 16:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband