4.12.2011 | 13:28
Þokumst í átt frá brandaranum mikla.
Það var einn af grátbroslegustu bröndurum allra tíma þegar Ísland lenti efst á lista yfir minnst spilltu þjóðfélög heims á sínum tíma. Það var vegna þess að svo virtist sem einkenni fámennisþjóðfélags fjölskyldu-, vina- og kunningjatengsla væru ekki sett inn í formúluna sem notuð var.
Pólitísk spillling hefur verið landlæg hér alla tíð með tilheyrandi helmingaskiptum og hrossakaupum í banvænni blöndu stjórnmála og viðskipta sem náði hámarki í einkavinavæðingu flokkanna á bankakerfinu fyrir áratug sem leiddi til Hrunsins.
Annar brandari á sínum tima var sá þegar við voru sett efst í flokk þeirra landa þar sem umhverfismál væru í bestu ástandi. Þar var greinilega einblínt á löggjöf, sem var sveigð eftir þörfum að vilja ráðamanna, svo að meira að segja var því lofað fyrirfram í dæmalausu plaggi sem var sent helstu stóriðjufyrirtækjum heims.
Einnig kom í ljós þegar mér tókst að hefja út úr umhverfisráðuneytinu upplýsingaskjalið, sem sent var til hinna erlendu matsaðila, að í mjög mikilvægum dálki, "ástand jarðvegs og gróðurs" sendi Ísland inn þessa tvo bókstafi: "NA", þ. e. upplýsingar eru ekki fyrir hendi.
Þetta var gert þótt Ólafur Arnalds hefði nokkrum árum fyrr fengið umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir nákvæmlega þetta, að vinna bestu upplýsingar um ástand gróðurs og jarðvegs sem fyrirfundust á byggðu bóli !
Önnur lönd sem sendu inn "NA" voru til dæmis Úkraína og fleiri Austur-Evrópulönd sem voru með allt í steik á þessu sviði !
Ísland 13. minnst spillta ríkið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mjög vel skrifað hjá þér Ómar :)
Jóhannes Gísli Eggertsson, 4.12.2011 kl. 13:58
Það er tvennt ólíkt að toppa lista yfir minnst spilltu lönd í heimi, eða að spilling finnist ekki í landinu.
Það land sem stendur best á listanum getur engu að síður verið með grassandi spillingu.
Ég held að Ísland komi ekki, né hafi komið illa út í alþjóðlegum samanburði hvað spillingu varðar. Ég held þvert á móti að það sé mikill misskilngingur oft á tíðum hvað mikil fagmennska ríki víða um lönd. Það er gott að hafa í huga að það er auðveldara að fela spillinguna í stórum stjórnkerfum og margmenninu. En oft eru um að ræða risavaxnar upphæðir.
Skemmst er ef til vill að minnast á hvernig Evrópusambandinu gengur í samskiptum sínum við endurskoðendur sína. En við það eru auðvitað allir löngu hættir að kippa upp við. Það er bara "business as usual".
G. Tómas Gunnarsson, 4.12.2011 kl. 14:20
Meginástæðan fyrir því að spilling var ekki talin nánast nein á Íslandi var auðvitað sú, að nánast engin umræða var um spillingu, engir dómar eða nein mál sem tengdust spillingu.
Hins vegar hefur spilling verið umtals verð lengi og má víða rekast á slíkt jafnvel nánast á hverri öld aftur til miðalda. Í Bandamannasögu er t.d. sérkennileg frásögn um spillingu valdsmanna að hafa fé og æru af ungum manni. Þegar allt var komið í óefni grípur faðir hans til óspilltra mála, eða öllu heldur bætir gráu ofan í svart með því að bera mútur í dóm í þeim tilgangi einum að fletta ofan af fégræðgi og spillingu!
Samfélagið á Íslandi þróaðist í gjörólíka átt og í Evrópu eftir miðaldir. Af hverju risu aldrei nein þorp á Íslandi að heitið gæti? Þar kom fram ákvörðun íslenska landeigendaaðalsins sem vildi ekki leyfa að útlendir kaupmenn, handverksmenn og aðrir settust hér að með svonefndum Pinings dómi 1490. Hirðstjóri danakonungs var Pining sem ákvörðun þessi var nefnd eftir og oft vitnað í þessa ákvörðun.
Vísbendingar eru til um að mútum hafi verið beitt, t.d. eftir 1662 en þá var borið fé í Hendrik Bjelke hirðstjóra í þeim tilgangi að afstýra innleiðslu nýrra skatta á landeigendur.
Það er ekki fyrr en um 1700 sem fyrstu hugmyndir koma fram um stofnun kaupsstaðar í riti Páls Vídalíns, samstarfsmann Árna Magnússonar, Deo, regie, patriae: guði, kónginum, föðurlandinu. Það rit var upphaflega prentað 1768 á dönsku og mun hafa haft áhrif enda voru stofnaðir nokkrir kaupsstaðir á Íslandi 1786, þ. á m. Reykjavík. Þetta rit kom í íslenskri þýðingu fyrir um 30 árum.
Saga laga og réttar er blóði drifin. Eftir siðaskipti voru innleidd mjög ströng refsilög með Stóra dómi. Talið er að þannig hafi 18 ungum konum verið drekkt í Drekkingarhyl á Öxarárþingi á árunum 1618 og fram undir miðja 18. öld. Allar þessar konur áttu það sameiginlegt að hafa alið barn utan hjónabands og allar verið fátækar vinnukonur. Sennilegt er að þær hafi verið allar þungaðar af húsbændum þeirra og jafnvel verið látnar sæta ofbeldi af þeirra hálfu. Ekki fer neinum sögum af „glæp“ barnsfeðra en auðviað þarf mann til svo barn verði getið. Líklegt er að þeir hafi borið fé í sýslumenn til að liðka fyrir til að sleppa við refsivísina.
Saga spillingar á Íslandi er safarík enda verður að telja að fjölbreytni sé allmikil.
Góðar stundir!
Guðjón Sigþór Jensson, 5.12.2011 kl. 08:23
Ómar . Þú ert iðin við það að níða niður íslenska þjóð á öllum sviðum. Hvað spilltir við séum,hve heimskir og hve miklir landníðingar við erum við nýtingu auðlinda. ÞÚ UM ÞIG FRÁ ÞÉR TIL ÞÍN sem ert auðvitað sá eini sem sérð fegurð landsins og metur hana rétt, hinir eru bara ómerkingar. Með miklum bægslagangi komstu þér upp stjórnmálaflokki sem náði þremur prósent . Eftir kosningar afhendir þú félagalistann til annars stjórnmálaflokks!! Er mögulegt að Persónuvernd hafi samþykkt þessa svívirðu? Getur verið að þú sért ekkert betri í sambandi við spillingu en hver annar ómerkilegur íslendingur?
Þú komst þér í nefnd á vegum Alþingis sem fékk það verkefni að koma með tillögu að drögum að nýrri Stjórnarskrá. Nefndin skilaði sínu verki rétt eins og ætlast var til. En meðlimir nefndarinnar ofmetnuðust svo gríðarlega að þeir hafa varla stigið til jarðar síðan. Þeir skipa svo fyrir að Alþingi eigi ekkert með að yfirfara textann. Heldur skuli snilldin fara ómenguð fyrir þjóðina og væntanlega verða meitluð í klettavegg sem ÞÚ velur á hálendinu. Rammað inn með styttum af nefndar meðlimum.
Snorri Hansson, 5.12.2011 kl. 14:57
Má sem sagt ekki minnast á neitt sem er að, Snorri?
Ég man eftir frétt um það (annað hvort mogginn eða fréttablaðið) að Ísland væri minnst spillta ríki heims.
Hló mig máttlausan, og vinkona fjölskyldunnar frá Austurríki spurði mig hvað mér hefði fundist svona fyndið. Ég benti á fréttina, og hún spurði "Er þetta ekki gott?".
Svarið var nei. Ég sagði "Spillingin hérna er svo pottþétt að hún mælist ekki einu sinni".
Þökk skal Ómar hafa fyrir því að rifja þetta upp.
Jón Logi (IP-tala skráð) 7.12.2011 kl. 09:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.