8.12.2011 | 12:33
Vont virðist versna.
Um þessar mundir má finna tvær bækur í íslenskum bókabúðum sem lýsa Rússlandi Pútíns vel.
Önnur þeirra er bók rússnesku blaðakonunnar Önnu Politkovskaju sem lýsir aðferðunum sem notaðar voru af óprúttnum aðilinum, oftast tengdum rússnesku mafíunni, til þess að sölsa undir sig og beinlínis ræna stórum og smáum fyrirtækjum, jafnvel risafyrirtækjum í orkugeiranum, jafnt tengdum olíu, gasi eða rafmagni.
Hin bókin er bók Ingimars H. Ingimarssonar og Þorfinns Ómarssonar um þann heim sem íslenskir útrásarmenn komust inn í þegar þeir hösluðu sér völl í Rússlandi.
Þegar þessar bækur eru lesnar saman sést að aðferðirnar eru hinar sömu sem þátttakendur í þessu klækjaspili verða að beita ef þeir ætla að ná árangri.
Sá vinnur, sem sýnir mestu spillinguna, refskapinn, óheilindin, svikin og prettina. Í mörgum tilfellum, sem Anna Politkovskaja lýsir, gegnsýrir spillingin alla þætti rússneskrar þjóðfélagsskipunar, framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald.
Stundum ræður úrslitum að ryðja keppinautum eða óþægilegum vitorðsmönnum úr vegi á hvern þann hátt sem dugar, jafnvel með morðum, - eða hótunum um dauða eða limlestingar.
Í mörgum tilfellum er það einn maður, sem skiptir um bandamenn af einhverjum ástæðum, sem ræður úrslitum, og þetta fyrirbæri kemur fyrir í báðum bókunum.
Með því að lesa bók Önnu Politkovskaja á undan bók Ingimars og Þorfinns skilur maður betur það sem lýst er í þeirra bók.
Anna Politkovskaja varð sjálf fórnarlamb morðinga árið 2006 og hafði unnið það til saka að hafa upplýst of mörg mál auk þess sem hún gagnrýndi Pútín harkalega. Morð hennar hefur ekki verið upplýst og verður líklega aldrei upplýst frekar en mörg slík mál á liðnum árum.
Við lestur bókanna sést að ringulreiðin við valdatöku fyllibyttunnar Jeltsíns varð gróðrastía glæpa og spillingar, "ormarnir komu upp þegar jörðin þiðnaði."
Jeltsín fær væntanlega tvískiptan dóm sögunnar, annars vegar sem maðurinn sem af miklu hugrekki og myndugleika hratt samsæri kommúnista og leiddi rússnesku frelsisbyltinguna í kjölfar aðgerða Gorbatsjovs, og hins vegar sem sá maður, sem mesta ábyrgð ber á því ástandi spillingar og glæpa sem ríkt hefur síðar í Rússlandi.
Kannski var gagnrýni Önnu Politkovskaja á Pútin ekki fyllilega sanngjörn að því leyti að líkast til kemst enginn rússneskur ráðamaður upp með það að ráðast gegn þeim öflum, sem raunverulega ráða í Rússlandi.
Morðið á Önnu sendi skýr skilaboð.
Nú virðist vont vera að versna. Ef tölurnar, sem samtök um eftirlit með kosningum hafa birt, eru réttar, töldu aðeins um 15% Rússa geta varið það fyrir sjálfum sér að kjósa flokk Pútíns.
Það hefur löngum ríkt ákveðin tregða erlendis við breytingum í landi eins og Rússlandi, - menn telja sig vita hvað þeir hafa, - en ekki vita hvað geti tekið við ef Pútín hrökklast frá völdum.
Rússland býr einfaldlega yfir kjarnorkuvopnum sem geta eytt öllu mannkyni og því ekki sama hver er með fingurinn á þeim gikk.
En það hljóta að vera takmörk fyrir því hve lengi vont getur versnað varðandi illa fengin völd Pútíns og klíku hans.
Segja flokk Pútíns hafa fengið 30% atkvæða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er ótrúlegt að þrátt fyrir að upp hafi komist um ýmis kosningasvik, ætlar Putin að láta sem ekkert sé og kenna Clinton um mótmælin.
hilmar jónsson, 8.12.2011 kl. 12:45
Ómar, óskylt efni. Veistu hvort einhver Fiat 850 er á götunni ?
hilmar jónsson, 8.12.2011 kl. 15:11
Ég veit allt of mikið um það. Það var einn gangfær í Reykjavík og auglýstur til sölu fyrir lítið, en það fór fram hjá mér og hann var seldur til Selfoss. Þar komst hann í góðar hendur og verður væntanlega hlynnt að honum á næstu árum.
Fiat 850 getur verið kandidat á "naumhyggjubílasafn" því að í nokkur ár var hann minnsti fimm manna bíllinn á markaðnum.
Ég átti svona bíl 1968 til 1971, en þá var fjölskyldan orðin sjö manns og samt komumst við öll í hann.
Ég þekkti ýmsa sem áttu svona bíla og báru þeim frekar illa söguna, - þeir væru mjög bilanagjarnir.
Af einhverjum ástæðum var ég hundaheppinn því að enda þótt Fiatinn okkar væri keyrður sundur og saman um allt land, bilaði hann aldrei og er besti bíll sem ég hef nokkurn tíma átt!
Ómar Ragnarsson, 8.12.2011 kl. 23:40
Við höfum átt sömu tegund á svipuðum tíma Ómar. Ég átti minn frá 70-74. módel 66.
Mig dreymir stöðugt um að eignast þessa dásemd aftur.
Vandamálið var aftur með vélina, hve erfit var að komast að henni til að gera við.
Á endanum gafst minn upp, (stýrismaskínan) var reyndar orðinn nokkuð saddur lífdaga og ég hafði samið við bílapartasölu um að hirða jálkinn þegar næsta stóráfall riði yfir.
Jálkurinn gafst síðan upp niður á Grandakaffi og hringdi ég þá í partasöluna og sagði þeim hvar bíllinn væri niðurkominn og að þeir mættu koma og draga hann burt. Ég kæmi síðar um daginn og hirti einn eða tvo þúsunkalla fyrir hræið.
Ég reyndar komst ekki á partasölunna þennan dag en hringdi í þá síðdegis og spurði hvort allt hefði ekki gengið eins og umsamið hafði verið og þeir sótt bílinn ?
Jú jú, var það ekki þessi rauði á stæðinu spyr parti. Ha, nei nei minn er ljósblár svaraði ég.
Þá kom í ljós að partasalan hafði dregið annan 850 (ekki minn ) upp á partasöluplanið og voru þeir byrjaðir að krukka í hann. Eigandi þess bíls hafði tilkynnt þjófnað á bílnum til lögreglu sem var víst byrjuð að svipast um eftir honum.
Mikið fát varð skiljanlega á partasöluni, en þeim tókst víst að púsla þeim heila þokkalega saman aftur og eftir því sem mér skilst, urðu ekki eftirmálar aðrir en að þessi uppákoma lifði lengi í spaugsögusafni lögreglunnar.
En mikið sakna ég þess ljósbláa.
hilmar jónsson, 9.12.2011 kl. 00:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.