11.12.2011 | 22:30
"Músísjopp" er líka stundað.
Tökuorðið "fótósjopp" getur verið efni í frétt eins og þá sem birtist á mbl.is í dag, en það er skemmtileg tilviljun að ég er einmitt núna að koma frá Vilhjálmi Guðjónssyni tónlistarsnillingi sem tók í kvöld að sér verk sem kalla má "músísjopp", þ. e. svipað og Natalie Cole gerði þegar hún með aðstoð slíkrar tækni söng inn á heilt plötualbúm dúetta með löngu látnum föður sínum, Nat King Cole.
Það sem Vilhjálmur gerði var að taka upptöku á laginu "Á hverjum degi jólasveinn" frá Gáttaþefs/jólasveinatónleikum Stórsveitar Reykjavíkur hinn 27. nóvember síðastliðinn, þar sem Barnakór Kársnesskóla söng þetta lag með mér og sveitinni, og setti inn í byrjunina söng dótturdóttur minnar, Lilju Sóleyjar Hauksdóttur frá því fyrir 18 árum, þar sem hún söng fyrsta erindið, aðeins þriggja ára og nokkurra daga gömul inn á upptöku, sem var gerð fyrir diskinn "Ómar finnur Gáttaþef".
Lilja Sóley söng þetta þá ekki í sömu tóntegund og gert var á tónleikunum um daginn og þar að auki alveg undirleikslaust og án takts, en upphaf lagsins nú með söng hennar gengur aldeilis ótrúlega vel upp, rétt eins og hún hafi komið fram og sungið þetta með stórsveitinni 3ja ára á tónleikunum um daginn!
Munurinn á þessu "músisjoppi" og því sem viðgengst þegar birtar eru "fótósjoppaðar" myndir af svonefndum "ofurfyrirsætum" er hins vegar sá, að gerð þessa jólalags nú er ekki verið að fara í felur með neitt.
Kannski fæ ég hjálp við að setja þetta á tónlistarspilarann hér vinstra megin ef tæknin gengur upp svo að þið getið kynnt ykkur útkomuna.
Upptakan af tónleikunum um daginn verður á dagskrá hljóðvarps RUV klukkan fjögur á annan dag jóla, en þar verður ekkert "músísjoppað" heldur að sjálfsögðu eingöngu spiluð upptaka RUV eins og hún var gerð í Háskólabíói.
Hulunni svipt af fótósjopp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Svo má ekki gleyma Guddasjopp/Trúarsjopp; Þar sem ein hjátrú er tekin og búið til úr henni ný trúarbrögð. Eins og td hjátrú gyðinga AKA biblían; Sú hjátrú var síðan sjoppuð upp í kristni og svo íslam.
DoctorE (IP-tala skráð) 12.12.2011 kl. 12:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.